c

Pistlar:

13. janúar 2020 kl. 23:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tesla er verðmætasta bílamerkið

Athafnamaðurinn Elon Musk hefur nokkrum sinnum verið til umræðu hér í pistlum enda einstaklega litríkur og kraftmikill maður. Hann er í raun ekki einhamur og tengist nú mörgum stórum verkefnum sem geta haft veruleg áhrif á líf almennings um allan heim. Undanfarið hefur hann verið í fréttum á viðskiptalegum forsendum og einni persónulegum. Hvað það síðarnefnda varðar þá mun hann eiga von á barni með kanadískri unnustu sinni, söngkonunni Grimes. Fyrir á hann fimm börn. Í upphafi árs opnaði Musk fyrstu verksmiðju sína í Kína, þar sem rafbílar undir merkjum Tesla eru framleiddir og vakti athygli fyrir líflega framkomu við opnunina. Það er tekið til marks um að Kína er að verða stöðugt mikilvægari markaður fyrir rafmagnsbíla að verksmiðjan skuli opnuð þar en fyrir eru margir stórir og smáir kínverskir rafbílaframleiðendur.

Musk er þekktur fyrir ótrúlega vinnusemi og hafa fyrir vikið varið margvíslegar sögur um að annað hvort sé hann búin að ganga fram af sér og hafi þurft að leita læknisaðstoðar eða að hann keyri sig áfram með aðstoð vímuefna. Það er auðvitað bara slúður sem maður í hans stöðu þarf að þola. Hann hefur gefið út að hann muni ekki taka laun frá Tesla þangað til fyrirtækið nái 100 milljarða dala verðmætamarkmiði. Ef félagið gerir það verður hann ríkasti maður heims en auðævi hans eru í dag metin á um 30 til 35 milljarða dala og hafa hækkað hratt nú það sem af er ári.200107115637-elon-musk-dancing-shanghai-exlarge-169

Fjárfestar gleðjast

Nú hefur það gerst að Tesla er orðið verðmætasti bílaframleiðandi heims en bréf félagsins hækkuð um tæplega 10% í dag þegar þau fóru í fyrsta sinn yfir 500 dali á hlut. Á síðustu þremur mánuðum hefur félagið tvöfaldast í verði. Augljóslega eru gríðarlegar væntingar bundnar í verði Tesla en félagið framleiðir miklu færri bíla en aðrir framleiðendur. En markaðurinn virðist hafa trú á að Musk standi við stóru orðin og greiningaraðilar hafa sýnt félaginu mikinn áhuga undanfarið. Sjálfsagt hefur Musk aldrei notið meiri tiltrú fjárfesta en nú í byrjun árs 2020.

Fyrsti bíllinn, Tesla Model S, var kynntur til leiks árið 2012 en frá upphafi hefur Tesla gengið illa að anna eftirspurn og örðugleikar í smíðaferlinu orðið þess valdandi að fjöldi afhentra bíla hefur ekki verið í samræmi við spár eins og rakið var í grein í Morgunblaðinu í liðinni viku. Nú hefur fyrirtækið upplýst að afhendingar á árinu 2019 hafi verið í samræmi við áætlanir, fjárfestum til mikillar gleði. Tesla náði að afhenda 367.500 bifreiðar á liðnu ári en markið hafði verið sett á 360-400.000 eintök. Mikil eftirspurn eftir Model 3 og með ágætri sölu utan Bandaríkjanna tókst Tesla að afhenda 112.000 bifreiðar á fjórða ársfjórðungi sem er töluvert umfram spár markaðsgreinenda.

Verðmætara en GM og Ford

Reuters fréttastofan rakti að hlutabréfaverð Tesla rauk upp um 5,5% við þessi tíðindi og hefur haldið áfram að hækka eins og áður sagði. Í kjölfar þess hækkaði Bill Selesky greinandi hjá Argus Research verðmatið upp í 556 dali á hlut. Djarfir greinendur hafa sett enn hærra verðmat á félagið og hógværir greinendur eins og hjá Credit Suisse hafa einnig tekið við sér. Árið 2019 fór hlutabréfaverð Tesla lægst niður í tæplega 179 dali í júní en í byrjun árs var verðið komið í 450 dali á hlut og nú komið yfir 500 dali.

Er markaðsvirði Tesla nú um meira en 90 milljarðar dala og fyrirtækið langtum verðmætara en rótgrónir bandarískir bílaframleiðendur á borð við Ford og General Motors. GM er metið á 50 milljarða dala og Ford 36 milljarða dala. Tesla er því verðmætara en þessi tvö merki til samans. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum misserum?