c

Pistlar:

31. janúar 2020 kl. 17:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kína: Af kolunum skulið þið þekkja þá

Einn galli við bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, er að hann fjallar lítið sem ekkert um áhrif Kínverja á umhverfismál. Í raun tekur það broddinn úr umfjölluninni þar sem öllum er ljóst að engin ein þjóð hefur í dag meiri áhrif á loftslagsbreytingar og flest bendir til þess að þau áhrif munu aukast verulega næstu árin. Kínverjar nota í dag mesta orku á heimsvísu og það sem verra er, þeir nota gríðarlegt magn kola til þessarar orkuframleiðslu en kol eru sem kunnugt er mesti koldíoxíðvaldur allra jarðefnaeldsneytisorkugjafa. Sögulega séð munu Kínverjar hafa verið manna fyrstir að nýta sér kol en notkun þar nær allt aftur til fæðingar Krists og ekkert land vinnur meira af kolum úr jörðu.

Til að skilja áhrif Kínverja er nóg að horfa til framleiðsluaukningar á áli í Kína. Hún hefur vaxið úr því að vera 10% af heimsframleiðslu árið 2000 og upp í tæp 60% í fyrra. Það er ótrúleg breyting á ekki lengri tíma en í Kína er mikið um ríkisstyrki og viðskiptahætti sem við skiljum ekki, sagði forstjóri Landsvirkjunar í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Kínverjar framleiða 87% af áli sínu með kolabruna þannig að það ætti að gefa sterka vísbendingu um aukningu koldíoxíðs samfara aukinni álframleiðslu. Að þessu leyti skera Kínverjar sig frá öðrum þjóðum.kol

Þjóðverjar hættir að nota kola árið 2038

Gamlar kolavinnsluþjóðir reyna nú að skipta um orkugjafa. Allt frá árdögum iðnbyltingarinnar hafa Þjóðverjar verið miklir kolaframleiðendur. Þeir ætla að taka kol úr umferð á næstu 18 árum en þau standa undir tæplega 30% af orkuþörf landsins. Til samanburðar þá stendur endurnýtanlega orka undir 35% af orkuþörf Þjóðverja í dag. Þeir stefna að því að framleiða 65% raforku sinnar með endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2030.

En einn helsti ljóður á orkunotkun Þjóðverja er hin mikla notkun brúnkola. Þeir eru stærsti notandi brúnkola í heiminum og framleiða tæplega helming framleiðslunnar í Evrópu, Brúnkolin standa undir 19% af orkunotkun í Þýskalandi. Brúnkol eru mun meira mengandi en aðrir jarðefnaeldsneytisorkugjafar að ekki sé talað um umhverfislýtin en brúnkolin eru unnin úr risavöxnum yfirborðsnámum sem hafa gerbreytt landslagi víða í Þýskalandi. Þessar aðgerðir munu kosta Þjóðverja gríðarlega fjármuni en þau sambandslönd, sem hafa fram að þessu reitt sig á kolanámur og orkuver, eiga að fá 40 milljarða evra, jafnvirði tæpra 5.500 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur samkvæmt áætlun þýska ríkisins. Einnig verður hrint af stað aðgerðum til að útvega starfsmönnum kolaveranna ný störf eða þjálfun við hæfi.

Það má spyrja sig hvort þessar áætlanir séu raunhæfar, þar sem Þjóðverjar hyggjast um leið loka kjarnorkuverum sínum innan tveggja ára. Út frá koldíoxíð hættunni væri skynsamara að hafa kjarnorkuverin opin lengur og flýta brúnkolalokuninni, en það er önnur pólitík.

Þjóðverjar hafa gefið út að þeir hyggist vera kolefnishlutlausir (e. carbon nautral) árið 2050. Það er reyndar seinna en ýmis lönd Evrópu en Frakkar segjast treysta sér til að losa sig við kolin eftir tvö ár, árið 2022. Bretar ætla að gera það árið 2025.kol2

Orkunotkun Kínverja eykst og eykst

En aftur að Kínverjum en þeir eru stærsti einstaki orkunotandi jarðar og er áætlað að þeir noti um einn fimmta af þeirri orku sem framleidd er. Fyrir áratug greindu vestrænir fjölmiðlar frá því að þrjú stærstu orku­ver­in í Kína losuðu meira af gróður­hús­loft­teg­und­um á ári held­ur en allt Bret­land. Síðan hefur orkunotkunin aukist og aukist og allar áætlanir segja að orkunotkun Kínverja haldi áfram að aukast stórlega og árið 2030 muni orkunotkunin vera um helmingi meiri en nú er! Á meðan aðrar þjóðir draga úr kolanotkun eru Kínverjar að auka hana, þó ákveðnar vísbendingar séu um að hún sé að ná hámarki.

Kínverjar eru í kappi við tímann. Nýleg könnun Alþjóðabankans sýndi að 20 af 30 mest menguðu landsvæðum jarðar að finna í Kína, og borgin Linfen í kolanámuhéraðinu Shanxi sú
allra skítugasta sem fyrirfinnst á jörðinni. Lengst framan af var landið sjálfu sér nægt um kol, en árið 2009 var þörfin orðin svo mikil að innflutningur kola hófst og hefur síðan vaxið ár frá ári. Ljóst er að breytingar á kínversku orkumarkaði eru lykilþáttur til þess að stemma stigum við koldíoxíðaukningu í andrúmsloftinu.