c

Pistlar:

2. febrúar 2020 kl. 23:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nauðsynlegt að efla Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur var gerður að umræðuefni í pistli hér fyrir skömmu. Jarðhræringar á Reykjanesinu kallar á nýja sýn í flugöryggismálum hér á landi og þá sérstaklega á suðvesturhorninu. Ljóst er að öll áform um að leggja Reykjavíkurflugvöll af hljóta að vera sett á ís og málið skoðað rækilega upp á nýtt. Nú gæti einhver freistast til þess að spyrja: Er ekki búið að rannsaka það nóg og skrifa nógu margar skýrslur? Því er fljótsvarað, nei, það er ekki svo. Forsendur hafa breyst hratt og mikilvægt að skoða málið upp á nýtt. Ekki þar fyrir, margvíslegan lærdóm má finna í eldri skýrslum.

„Núverandi flugvöllur er á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Starfrækja má flugvöllinn með góðum árangri þó að brautum sé fækkað úr þremur í tvær og flugvallarsvæðið minnkað nokkuð.“ Svo segir í niðurstöðu samráðsnefndar sem skipuð var af Sturlu Böðvarssyni, þáverandi samgönguráðherra, í apríl 2005. Nefndin var skipuð tveim fulltrúum ráðuneytisins og tveim fulltrúum tilnefndum af Reykjavíkurborg til að annast úttektir á Reykjavíkurflugvelli. Helgi Hallgrímsson, þáverandi vegamálastjóri, veitti nefndinni forystu en hún skilaði af sér í apríl 2007. Nefndin staðfesti ágæti og mikilvægi Reykjavíkurflugvallar þó hún horfði einnig til verðmætis byggingalands í Vatnsmýrinni í miðri fasteignabólunni sem var í upphafi árs 2007.flugv

Öryggishlutverkið skoðað sérstaklega

Þorgeir Pálsson, þáverandi flugmálastjóri, sat í nefndinni en hann hefur kynnt sér öðrum mönnum betur málefni Reykjavíkurflugvallar. Tíu árum eftir að fyrri skýrslan var birt fékk Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þorgeir, sem þá var prófessor emeritus við HR, til að vinna skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar fyrir ráðuneytið. Þar var honum meðal annars falið að skilgreina og leggja mat á öryggis­hlutverk Reykjavíkurflugvallar og að meta hvernig og hversu vel núverandi staðsetning og aðrar mögulegar staðsetningar flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið myndu uppfylla þetta hlutverk.

Í skýrslu Þorgeirs kom fram að almennt öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar felst fyrst og fremst í að gera viðkomandi stjórnvöldum og björgunarsveitum kleift að bregðast hratt og áreiðan­lega við aðstæðum sem borgurunum og jafnvel þjóðfélaginu í heild stafar ógn af. Lega flugvallarins í næsta nágrenni við helstu auðlindir þjóðfélagsins hvað varðar mannafla, aðstöðu og hvers konar búnað og birgðir, sem þörf er á til að leysa úr þeim vandamálum sem koma upp við slíkar aðstæður, er að flestu leyti einstæð.

Þorgeir taldi að öryggi þjóðfélagsins og flugöryggi gera það að verkum að tveir flugvellir verða að vera á Suðvesturlandi. Hann taldi að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli hlutverk sitt sem alhliða öryggisflug­völlur afar vel.

Rögnuskýrslan og Hvassahraun

Þorgeir taldi að flugvöllur í Hvassahrauni væri í raun eini hugsanlegi annar kostur en Reykjavíkur­flugvöllur í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Tveimur árum áður hafði starfshópur um flugvallarkosti í höfuðborginni, Rögnunefndin svokallaða, kenndi við Rögnu Árnadóttur, formann nefndarinnar, komist að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast væri að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Starfshópurinn var settur á laggirnar í október 2013 og hafði það að markmiði að skoða kosti undir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Mjög dróst á langinn að nefndin skilaði skýrslu en frá upphafi var vitað að hún átti að renna stoðum undir Hvassahraunsvalkostinn.

Rögnunefndin lagði til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni yrðu fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum og að samhliða því verði náð samkomulagi um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Hafa má í huga að Rögnunafndin taldi helsta ókost flugvallar í Hvassahrauni vera nálægð við Keflavíkurflugvöll. Hætta vegna eldgosa var ekki nefnd í þeirri skýrslu.

Varða að vera tveir flugvellir á SV-horninu

Vorið 2018 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra stýrihóp til að greina valkosti um framtíðarskipan flugvallarmála á SV-horni landsins og kostnaðargreina þá kosti sem til skoðunar hafa verið, sem eru flugvellir í Vatnsmýri og í Keflavík og nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Greiningunni var ætlað að auðvelda umræðu og styðja við ákvarðanatöku um uppbyggingu þeirrar þjónustu sem stjórnvöld vilja stuðla að fyrir innanlands- og millilandaflug.

Þá erum við komin að kjarna málsins. Ein meginforsenda verkefnisins var að á SV-horni landsins verði tveir flugvellir svo að þar sé varaflugvöllur fyrir millilanda- og innanlandsflug líkt og verið hefur um áratuga skeið. Það verður að vera varaflugvöllur hér á SV-horninu en nú blasir við að það verður ekki flugvöllur í Hvassahrauni. Að því sögðu má vera ljóst að Reykjavíkurflugvöllur er sá eini sem kemur til greina. Hefja þarf skoðun á uppbyggingu hans svo að hann geti gengt þessu mikilvæga hlutverki.