Íslendingar sem og aðrir jarðarbúar eru minntir óþægilega á það þessa daganna að hið óvænta býr í framtíðinni. Á sama tíma fyrir ári síðan ríkti almennt mikil bjartsýni í íslensku efnahagslífi og á þeim forsendum var gengið til kjarasamninga, innan svokallaðs Lífskjarasamnings. Hann fól í sér ákveðna nálgun sem einkum var ætlað að tryggja stöðugleika og kaupmátt. Nú erum við minnt á að án stöðugleika er ekki hægt að tryggja kaupmátt. Fallandi framleiðsla og markaðir í samdrætti munu leiða til kjaraskerðingar og atvinnuleysis, í hlutföllum sem við ekki vitum enn. Sé það haft í huga verður að telja heldur misráðið að reyna að sækja kauphækkanir umfram það sem birtist í Lífskjarasamningnum sem fól í sér sérstaka áherslu á kjarabætur til tekjulágs launafólks.
Líklegt verður að teljast að landsframleiðsla á mann hér á landi dragist saman á þessu ári. Einnig má ætla að fjölmörg fyrirtæki lendi í miklum hremmingum enda ljóst að mikið af þeim nýju félögum sem starfa í ferðaþjónustunni hafa ekki náð að byggja upp eigið fé til að standa af sér skakkaföll. Jafnvel stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins geta lent í alvarlegum erfiðleikum. Vissulega er ríkissjóður ágætlega í stakk búinn til að takast á við þessa erfiðleika en það er ákveðnum takmörkunum háð hvað hægt er að gerast með ríkisfjármálum þó allir séu orðnir Keynistar (John Maynard Keynes d.1936) nú til dags. Jú, innviðafjárfestingar eru nauðsynlegar og geta verið heppilegar til að örva hagkerfið en sem fyrr verður að treysta á undirstöðuatvinnugreinarnar, þær sem útvega okkur þann gjaldeyri sem nauðsynlegur er til að halda uppi lífskjörum hér á Íslandi.
Háskaleg hagkerfi
Hér hefur áður verið minnt á að hagkerfi eru háskaleg í eðli sínu. Það er í raun með eindæmum að sjá hve rosalega þau geta sveiflast til. Það eru ekki bara einstaka fyrirtæki sem senda frá sér afkomuviðvaranir þessar vikurnar, heldur heilu þjóðfélögin. Fyrirtæki eins og Icelandair, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki okkar Íslendinga, hefur tilkynnt að það sé marklaust að halda úti afkomuspá. Ef fer sem horfir mun reyna á skilning stjórnvalda á þjóðhagslegu mikilvægi fyrirtækisins sem hefur leitt lækkanir í íslensku kauphöllinni undanfarið. Þar hafa nú þurrkast út hækkanir undanfarinna missera og hundruð milljarða króna horfið. Stærsta aðgerð til jöfnunar sem hér hefur birst, fyrir þá sem geta glaðst yfir því. Fjárfestar eru með böggum hildar og sumir þurfa jafnvel að verjast veðköllum vegna fallandi gengis hlutabréfa. Kemur sér þó vel að skuldsetning almennings er hverfandi miðað við það sem var þegar bankakerfið hrundi fyrir bráðum 12 árum. Hrun krónunnar fór þá eins og nifteindasprengja um hagkerfið.
Heimsendir og mannfækkun!
Það er reyndar merkilegt að það er náttúran með sína margvíslegu aðferðir sem hefur verið að senda hagkerfinu stærstu áskoranirnar. Bæði með ótíð og vetrarhörku sem hafa kallað eftir auknu öryggi og kostnaðarsamar framkvæmdir til að tryggja það. Það eru ekki bara snjóflóð og vindar sem stuðla að því. Jarðhræringar hafa minnt okkur á hve virk okkar eldfjöll eru, þau sem hafa sofið í þúsund ár geta vaknað og vel er hugsanlegt að fleiri en eitt eldfjall láti á sér bæra á sömu stundu. Að sumu leyti höfum við sloppið vel. Nú svo tók sjávarguðinn af okkur loðnuvertíð, annað árið í röð. Þar hafa horfið útflutningsverðmæti upp á 50 til 60 milljarða. En skattgreiðendur þurfa ekki að bera kostnað af því, útgerðin tekur það að sér fölskvalaust.
Sagnfræðilega minnugir menn hafa rifjað upp á þessum heimsendistímum, áhugaverð bók Hannesar Finnssonar, biskups í Skálholti (d. 1796): „Um mannfækkun af hallærum á Íslandi.“ Ég hef meira að segja séð prest segja bókina skyldulesningu fyrir Íslendinga í dag! Hannes rekur í þessari ágætu bók allar hörmungar, pestir, hungursneyðar og hallæri Íslandssögunnar frá upphafi og fram að Móðuharðindunum 1783, og sannar í lok hennar að ekkert land í heimi sé betra en eldgamla Ísafold! Því þrátt fyrir allt höfðu Íslendingar haldið áfram að fjölga sér og berjast um í harðbýlu landi. Það var áður en spánarferðir íslenskra bótaþega komu til sögunnar.