c

Pistlar:

24. mars 2020 kl. 9:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sterar eða vítamín fyrir hagkerfið

Blá lónið, helsta seðlaprentunarvél hagkerfisins, er búin að loka út apríl. Rútufyrirtækin taka bílanna af númerum og Icelandair, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, er búið að segja upp starfsfólki, setja stærsta hluta starfsmanna yfir í hlutastörf og færa niður laun þeirra sem eftir eru. Veitingastaðir, líkamsræktarstöðvar og smáþjónustufyrirtæki eru lokuð. Stór hluti þjóðarinnar er að vinna heima hjá sér þessa daganna eða reynir að fóta sig í því hlutverki. Vísbendingar eru um að neysla í samfélaginu hafi að minnsta kosti helmingast og fjöldi fólks veit ekki hvort það fær nokkuð greitt um næstu mánaðamót.

Vírusinn sem nú er við að glíma kallar yfir okkur þríþættan vanda. Í fyrsta lagi þarf að taka á þeirri heilsuvá sem nú steðjar að og það kostar í það minnsta tveggja til þriggja mánaða lokun á hagkerfinu með tilheyrandi tekjutapi. Í öðru lagi eru það hin efnahagslegu áhrif sem nú er verið að meta og vega um allan heim. Í þriðja lagi eru það hin samfélagslegu áhrif, hve sterk samstaða og samkennd ríkir í samfélögum. Sá þáttur hefur ekki eðlilega ekki verið fyrirferðamikill í umræðunni enn sem komið er en getur ráðið hvernig samfélögunum reiðir af.fánar

Seðlaprentvélarnar í gang

Eins og greint var frá hér í síðasta pistli hefur ríkisstjórnin opnað efnahagspakka sinn og nemur hann um 7,8% af landsframleiðslu. Efnahagsaðgerðarpakki norskra stjórnvalda er álíka stór eða um 7,9% af landsframleiðslu en ef horft er til þess að norsk stjórnvöld eru að hugleiða að nota olíusjóðinn til að fjármagna hluta aðgerðanna þá má segja að aðgerðarpakki norskra stjórnvalda sé 9,6% af landsframleiðslu. Bæði íslensk og norsk stjórnvöld boðað frekari aðgerðir. Aðgerðarpakki danskra stjórnvalda er stærri eða áætlaður um 13% af landsframleiðslu. Breski pakkinn er upp á 15% af landsframleiðslu og bandarísk yfirvöld hafa lofað tölu sem nemur 5% af landsframleiðslu. Hvernig sem fer þá virðast flest þjóðfélög ætla að ræsa upp seðlaprentunarvélarnar og reyna að koma hagkerfinu þannig í gegnum stoppið. Vonandi að það takist. Á heimsvísu hefur veirupakkinn verið metin á um 2% af heildar landsframleiðslu heimsins og stækkar hratt.covidr

Dugar pakki ríkisstjórnarinnar?

En auðvitað orka þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar tvímælis eins og annað og gagnrýni hefur komið úr mörgum áttum. Í pakkanum er talin með frestun skattgreiðslna upp á um 90 milljarða króna, 10 milljarðar í úttekt séreignasparnaðar og 81 milljarðar í brúarlán, sem munu skiptast til helminga við bankakerfið, sem mun bera ábyrgð á að koma fjármununum út en um leið taka áhættu með eigin fjármuni. Þegar þetta er tekið saman þá er það hvorki meira né minna en 180 milljarðar króna af þessum meintu 230 milljarða aðgerðum. Því er spáð hér að meira verði að gera. Þetta er spurning um að nota vítamín eða stera í ferlinu.

Betri staða heimila

Vextir seðlabankans hafa lækkað úr 4,5% í 1,75% á rúmu ári og spár gera ráð fyrir að þeir lækki áfram og verða lágir lengi. Ólíkt síðustu kreppu eru íslensk heimili ekki mjög skuldsett og engin ástæða til að óttast að lán stökkbreytist enda engin erlend lán. Heimilin hafa hins vegar verið dugleg að taka óverðtryggð fljótandi lán og fyrirtæki á fljótandi vöxtum. Lækkandi vextir veita miklu súrefni í hagkerfið á þessum erfiðu tímum og skilur þar á milli frá bankakreppunni.

Sama á við um fyrirtækin, það er ekki skuldastaðan sem sligar þau heldur það að viðskipti hafa þornað upp og sjóðstreymi því ekkert. Vonandi að aðgerðir ríkisstjórnarinnar bæti þar úr en líklega dugar núverandi pakki aðeins í tvo til þrjá mánuði.