c

Pistlar:

19. maí 2020 kl. 10:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Var hlutabótaleiðin gildra?

Var hlutabótaleiðin gildra? Og ef svo er, féllu þá stjórnendur flestra þeirra fyrirtækja sem nýttu hana í gildruna? Það er undarlegt að horfa á umræðu liðinna daga um hlutabótaleiðina sem mjög var lofuð fyrir rúmum tveimur mánuðum, á þeim tíma þegar ráðamenn vonuðu að COVID-19 faraldurinn myndi ganga yfir á til þess að gera stuttum tíma. Á þeim tíma var augljóst að fullkomið tekjufall gat knúið mörg fyrirtæki til þess að segja upp starfsmönnum. Til að koma í veg fyrir að það gerðist var ákveðið að ríkissjóður tæki að sér launagreiðslur starfsmana, allt að þremur fjórðu, til að tryggja ráðningasamband áfram. Var rætt um að aðgerðin myndi gilda í tvo mánuði.

Núna er ljóst að efnahagslegt áfall faraldursins verður mun langvinnara og alvarlegar en séð var fyrir í upphafi og hefur ríkisstjórnin samþykkja að láta hlutabótaaðgerðina gilda fram í ágúst, með nýjum og auknum skilyrðum. Undanfarnir dagar hafa hins vegar verið furðulegir. Fyrirtæki sem nýttu sér leiðina hafa allt í einu verið metið út frá skilyrðum sem alls ekki voru fyrir hendi þegar aðgerðin var samþykkt, svo sem að ekki komi til arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa, nú eða að afkoma þeirra eða móðurfélaga hafi verið með einhverjum tilteknum hætti og launagreiðslur til stjórnenda megi ekki fara yfir tiltekna upphæð. Ekkert af þessu var áskilið á sínum tíma, aðeins að stjórnendur mætu það svo að þörf væri að nota leiðina. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Allt í einu er búið að setja upp rannsóknarrétt gagnvart þeim sem beittu þessu úrræði og vandlætingu þjóðmálaumræðunnar virðist fá takmörk sett. Stóryrði falla og fyrirtækjastjórnendur sem nýttu sér þessa leið verða að sitja undir ásökunum um svindl og svínarí. Það er kannski ekki nýtt að öfgavinstrið hlaupi til en augljóslega eru skrítnir dagar framundan. Nú hefur verið ákveðið að birta nöfn allra fyrirtækja sem nýttu hlutabótaleiðina þannig að líklega munum við sjá einhverskonar nafnakapphlaup með tilheyrandi myndbirtingum og stóryrðum.byggingastarf

Stjórnvöld hvöttu fyrirtækin

Rifjum aðeins hvað var sagt í upphafi. 1. mars síðastliðinn hvöttu stjórnvöld til þess að til þess að vinnuveitendur minnkuðu frekar starfshlutfall tímabundið en að grípa til uppsagna og á vef Stjórnarráðsins var haft Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra: „Ég vonast til þess að atvinnurekendur bregðist við þessum breytingum á þann veg að halda ráðningasamböndum við starfsfólk sitt eins og nokkur kostur er í stað þess að ráðast í uppsagnir.“ Í viðtali við fjölmiðla hvatti ráðherra fyrirtæki til að nýta úrræðið: „Hugsunin er auðvitað sú að hvetja fyrirtæki til þess að nýta sér þessa heimild vegna þess að við erum öll í þessu saman.“

Það var þannig rækilega kynnt á þessum tíma að með þessu úrræði ætluðu stjórnvöld að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir vegna þeirra miklu óvissu sem ríkti um framhaldið og tryggja afkomu heimila tímabundið, eða þar til aðstæður skýrðust eins og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs víkur að í Fréttablaðinu í dag. Fyrirtækin sömdu við starfsfólk um minnkun starfshlutfalls tímabundið og ríkið greiddi mismuninn upp að ákveðnu marki beint til launþega. Það verður að hafa í huga að engar greiðslur fóru til fyrirtækjanna. Í staðinn var komið í veg fyrir uppsagnir. Fljótt varð ljóst að úrræðið myndi nýtast fjölda fyrirtækja og starfsfólki þeirra – og verða ein stærsta og mikilvægasta einstaka stuðningsaðgerð stjórnvalda frá upphafi.

Reglunum breytt í miðjum leik

Það er augljóst að reglunum er breytt í miðjum leik. Blasir ekki við, að ef skilyrðin, sem nú er verið að setja, hefðu gilt frá upphafi hefðu öll þessi fyrirtæki einfaldlega sagt upp bróðurparti þeirra starfsmanna sem fóru á hlutabætur? Varla telur nokkur að það hefði verið verið starfsfólkinu í hag. Lítum á nokkur dæmi. Tökum fyrst starfsemi Elkó í Fríhöfninni. Stjórnvöld loka landinu og engir farþegar koma til landsins og þar af er engin verslunarstarfsemi í fríhöfninni. Við blasti að segja upp þessum starfsmönnum og skiptir engu máli þó að sum sú starfsemi sem heyrir undir Festi, móðurfélaga Elkó, gangi þokkalega. Það var ekkert fyrir þessa starfsmenn að gera og ekki vitað hvenær það yrði. Uppsögn var því miður það eina raunhæfa í stöðunni. Stjórnendur ýmissa annarra stórfyrirtækja lentu í svipuðum aðstæðum. Sama má segja um ýmis dótturfélög fyrirtækja eins og Brims, Kaupfélags Skagfirðinga og Samherja. Það breytir engu þó að móðurfélögin séu í þokkalegum rekstri, dótturfélögin lúta sjálfstæðri stjórn og stjórnendum þeirra er ætlað að taka eigin ákvarðanir og tryggja rekstur eins lengi og unnt er. Í stað þess að segja fólki upp völdu þeir hlutabótaleiðina, hvattir til þess af stjórnendum og án skilyrða.

Fyrirtækin verr stödd?

Í kjölfar upphlaupsins sem orðið hefur út af þessu öllu hafa mörg fyrirtækjanna séð sig knúin til að skila þeim fjármunum sem starfsmönnum voru greiddir og taka sjálf á sig launagreiðslu til þeirra þó störfin hafi í raun þurrkast út. Einnig gæti virst sem svo að þeim væri illa stætt á því að fara í þessar uppsagnir vegna þeirrar athygli og þess ímyndarhnekkis sem það myndi hafa í för með sér. Fyrirtækjastjórnendur segjast þó gera það með tímanum. Er þetta millibilsástand einhverjum einhverjum til góða?

Hér er ekki verið að mælast til þess að ríkið taki yfir atvinnulífið og það er ábyrgðahluti að taka við greiðslum frá skattgreiðendum (og breytir engu þó færa megi rök fyrir því að atvinnulífið hafi greitt stærstan hluta þess með tryggingagjaldi sem hefur ekki lækkað í samræmi við atvinnuástand). En hlutabótaleiðin var farin með hagsmuni starfsmanna í huga til að bjarga þeim frá óumflýjanlegum uppsögnum. Í sumum tilfellum blasti við að fyrirtæki sem nýttu sér hlutabótaleiðina höfðu ekki efni á að greiða uppsagnarfrest að henni lokinni. Það sýnir þá stöðu sem mörg fyrirtæki voru komin í. Augljóslega hefði þurft að afmarka og skýra reglurnar betur ef menn ætla að beita þeim skýringum sem eru uppi í dag. Það er fyrirtækjum ekkert sérstaklega í hag að vera með starfsmenn í 25% vinnu á 25% af fyrri kostnaði þegar í raun er ekkert fyrir þessa starfsmenn að gera.