c

Pistlar:

19. ágúst 2020 kl. 10:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í bakgarði borgarstjórans

Á meðan fjármál Reykjavíkurborgar stefna hraðbyr til heljar geta Reykvíkingar stytt sér stundir við að rífast um skipulagsmál. Þar kennir margra grasa eins og þeir segja sem koma að Bragganum í Nauthólsvík. En við, sem ekki lifum beinlínis í miðbæ Reykjavíkur, fáum stundum að lykta af réttunum og njóta framkvæmdagleði meirihlutans á miðbæjarsvæðinu eða því sem fellur líklega undir að vera 101 Reykjavík, miðbærinn eða jafnvel hjarta bæjarins. Auðvitað viljum við öll að þar sé fjörugt og fallegt mannlíf en stundum hvarflar að manni að þetta sé úr tengslum við annað, já jafnvel upphafið og fremur eintóna.

Undanfarið hefur mátt lesa nokkra umræðu um breytingar á Óðinstorgi og það kryddar þá umræðu að þar er nánast um að ræða bakgarð borgarstjórans. Sem býr svo vel að geta gengið og hjólað til vinnu ásamt því að hann getur notið breytinganna á Óðinstorgi fyrir og eftir vinnu. Heimilislegri verður reksturinn ekki. Reyndar er það svo að um ágæti breytinganna deila staðkunnir því torgið virðist núna henta vel til drykkjugleði og skapar þannig hávaða fyrir nágrananna. Um leið hafa landsþekktir miðbæjarmenn velt fyrir sér hvort þeir sem þar reka baraðstöðu eigi sjálfkrafa að fá „innviði“ fyrir þennan drykkjuskap, þó hann fegri borgarlífið. Sem er svo sem allt í lagi. En menn geta orðið hugsi yfir þessari umræðu.torg1

Meira fyrir sólþyrsta

Augljóslega hefur háum upphæðum verið varið í að breyta torginu, ég finn reyndar ekki nema ársgamlar kostnaðaráætlanir upp á 300 milljónir króna en reynslan segir manni að kostnaðurinn geti orðið allmiklu hærri þegar upp er staðið. Einhverra hluta vegna hafa fáir væntingar um að kostnaðaráætlun standist. En þetta er ekki fyrsta framkvæmdin af þessu tagi á þessu svæði sem er í mikilli uppbyggingu og endurnýjun. Nú er til dæmis búi að grafa sundur Tryggvagötuna með það að markmiði að gera hana sólarvænni (þó vissulega hafi verið komin tími á endurbætur lagna). En það gerist um leið - eins og gerist oft í miðbænum þessi misserin - að samfara framkvæmdunum virðast nánast öll bílastæði hverfa af svæðinu. Ætlunin er að í framtíðinni eiga sólþyrstir að sitja þar, þeir sem ekki vilja vera á öðrum torgum bæjarins. Það er reyndar ágætt að fá betri aðstöðu fyrir tónlistarmenn bæjarins sem einhverra hluta vegna virðast hafa fengið nýja þörf til að halda tónleika á götum borgarinnar, eins og garðar og torg dugi ekki lengur.

Í útgarði menningar og fjárlaga

Þetta er allt dálítið kostulegt fyrir okkur sem lifum utan miðbæjarins. Við hér í Voga- og Heimahverfi gætum til dæmis velt því fyrir okkur af hverju aldrei er hægt að nota neina fjármuni til að bæta eða breyta umhverfinu hér? Pistlaskrifara rekur ekki minni til að neinum fjármunum hafi verið varið til slíks í þau ríflega 30 ár sem ég hef búið hér. Hér eru hverfisbúar þakklátir ef tún eru slegin og gróður ekki látin vaxa úr sér á umferðaeyjum og annars staðar. Sem er ekki alltaf.torg3

Tvennt má tína til. Hér við Sunnutorg á Langholtsveginum hefur staðið til að opna veitingastað í gömlum söluskála og er ríflega eitt og hálft ár síðan svæðið var girt af og kynningaskilti sett upp eins meðfylgjandi myndir sýna. Ekkert hefur gerst síðan og við blasir að ekkert er að fara að gerast í náinni framtíð. Mér hraus reyndar hugur við þessum áformum, því vitaskuld mun kostnaður fara fram úr öllum áætlunum og efast má um rekstrarforsendur fyrir veitingaskála þarna. En eitthvað verður að gera, þetta er til vansa eins og þetta er núna. En það má hugsanlega finna aðra leið en að seilast í vasa útsvarsgreiðenda óháð framtíðararðsemi verkefnisins.

Hér fyrir neðan á að reisa 1300 íbúða hverfi í Vogabyggð. Frá upphafi hefur blasað við að samgöngur til og frá hverfinu yrðu erfiðar og kostnaðarsamt að leysa þær. Fyrir vikið var sett „innviðagjald“ á framkvæmdir, meðal annars með rökstuðningi um að hverfið yrði tengt komandi Borgarlínu. Þannig er það, að þeir sem búa í úthverfum þurfa að greiða sérstök gjöld ef eitthvað á að gera en auðvitað hækkar þetta bara fasteignaverð í hverfinu. - Og fasteignaskatta en það má auðvitað ekki gleyma að „innviðagjaldið“ er bara nýr skattur ofan á borgarbúa sem núna eru með alla skatta og öll gjöld í toppi á meðan sólkonungurinn nýi ríkir á miðbæjarsvæðinu.