c

Pistlar:

24. september 2020 kl. 17:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Seðlaprentun í þágu sveitarfélaganna

Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er í brennidepli nú í miðju COVID19 fárinu. Ljóst er að veikleikar í fjármálastjórn margra þeirra hitt þau illa fyrir á erfiðum tíma. Sveitarfélögin hafa lítið reynt til þess að lækka skuldir undanfarin góðærisár og öfugt við ríkið hafa þau fæst borð fyrir báru nú þegar þrengir að. Akureyringar hafa brugðist við með því að mynda þjóðstjórn og taka þannig sameiginlega ábyrgð á ástandinu. Við verðum að vona að slík stjórn feli ekki sér samsæri gegn skattgreiðendum.

En það er margt í málflutningi sveitarstjórnarmanna núna sem vekur athygli. Þeir ætla til dæmis allir að beita keynískum sveiflujöfnurum sem á mannamáli þýðir að aðhaldið verður ekkert og útgjöld réttlætt með vísun í að það sé ekki hægt að draga saman í opinberum rekstri á samdráttartímum. Það væri hugsanlega rök ef einhvertímann vottaði fyrir því að menn reyndu að draga saman þegar betur árar. En sveitarfélögunum er vorkunn að því leyti að þau hafa tekið á sig þunga málaflokka þar sem lögbundnar skyldur vaxa dag frá degi án þess að hugsað sé fyrir fjármögnun þeirra.

Sveitarfélögin eiga engan annan kost en að snúa sér til ríkisvaldsins og fá seðlaprentunarvélarnar í gang. Nú þegar eru sveitarfélög sem treysta á ferðaþjónustu komin í súrefnisvélina og spurningin er bara hve stór björgunarpakki ríkisins verður. Verst er að horfa uppá sveitarfélög sem eru með neikvætt veltufé frá rekstri og sjá það eina ráð að fjármagna rekstur sinn næstu árin með lánum. Hvaða kjör ætli bíði þeirra sveitarfélaga?reykjav

Höfuðborgin á hausnum

Öll álög eru í hæstu hæðum hér í höfuðborginni og meirihlutinn finnur það eitt ráð að leita uppi nýja tekjustofna og beita bókhaldstrixum til að fegra stöðuna. Eftir að Reykjavíkurborg birti afkomu fyrri helming ársins sáu flestir alvarleika málsins enda má efast um að hvort reksturinn sé yfirhöfuð gjaldfær. Í minnisblaði sem fylgir umsögn borgarinnar um lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru er þessum spurningum svarað með skilmerkilegum hætti. Þar segir:
„Taflan hér að ofan sýnir að rekstur borgarinnar er með neikvætt veltufé frá rekstri 2020-2022 og stendur alls ekki undir afborgunum af langtímalánum árin 2020-2023. Hér að ofan er gert ráð fyrir því að tekin verði langtíma jafngreiðslulán til að leysa vandann. Það þýðir að afborganaþungi lánanna er að óverulega leyti kominn fram á árunum 2020-2024 og veltufé frá rekstri þarf að vaxa mjög mikið á næstu árum á eftir til að sveitarfélagið eigi möguleika á að standa undir þeim byrðum. Það gerist ekki nema með verulegri aukningu tekna eða stórfelldum niðurskurði. Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkissjóður komi með beinum hætti að fjármögnuninni með sérstökum óendurkræfum framlögum til að mæta þessum vanda.“

Það má taka undir með fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins sem undrast að þessi afdráttarlausa lýsing á stöðu fjármála Reykjavíkurborgar skuli ekki hafa vakið athygli fjölmiðla og að forystumenn meirihlutans séu ekki spurðir nánar út í þetta. Svo ég leyfi mér smá fjölmiðlarýni þá mun líklega fyrr frjósa í helvíti en að Ríkisútvarpið geri slíkum málum almennileg skil. Aðrir fjölmiðlar reyna nú bara að þreyja þorrann á ríkisstyrkjum.