c

Pistlar:

3. desember 2020 kl. 12:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin gróteska sýn á Thatcher og Churshill

Einhver best heppnaða sjónvarpsþáttaröð sem Netflix streymisveitan hefur látið gera fjallar um bresku konungsfjölskylduna. Í Krúnunni (The Crown) er fylgst með valdaferli Elísabetar 2 Bretadrottningar, frá barnæsku fram til þessa dags en það styttist í að hún sé að verða þaulsætnasti valdhafi í Evrópu, en hún settist í valdastól árið 1952. Elísabet 2 á nokkur í að ná Loðvík 14 sem hefur verið fjallað um hér í pistli. Sólkonungurinn Loðvík 14 (1638 –1715) ríkti lengur en dæmi eru um, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri 77 ára gamall. Faðir hans dó árið 1642 þegar Loðvík var 4 ára. Hann ríkti því í 72 ár og 110 daga yfir fjölmennasta ríki Evrópu á þeim tíma, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum Evrópu. Elísabet 2 tók fram úr Viktoríu langömmu sinni árið 2015 en Viktoría ríkti í 60 ár. Þættir um ævi Viktoríu voru fyrir stuttu sýndir í Ríkissjónvarpinu og voru svolítið sápukenndir enda var megináhersla þeirrar umfjöllunar á samband Viktoríu og Alberts prins, hins fýlugjarna eiginmanns hennar. Eftir að hafa fylgst með Krúnunni sést að fýla hreiðrar oft um sig í konungshöllum Evrópu.The_Crown_season_3

Það eru tvær tegundir sannleika, hin sagnfræðilegi og svo hinn stærri sannleikur fortíðarinnar, var haft eftir Robert Lacey, sagnfræðilegum ráðgjafa við gerð þáttanna um Krúnuna. Vissulega hafa þættirnir um Elísabetu 2 að mörgu leyti verið sérlega vel gerðir og áhugaverðir. Ja, þar til nú nýjasta syrpan birtist. Það sjokkeraði marga veiðiáhugamenn að sjá að þegar þegar Karl Bretaprins átti að vera að veiða í hinni fögru Hofsá á Austurlandi þá virtist hann þvert á móti vera í lygnum polli, líklega myndað í Skotlandi eða á Írlandi. Áhugamenn um sagnfræðilega nákvæmni spyrja; ef ekki er hægt að hafa svona smáatriði rétt, hvað þá?

Skáldaleyfi og óvild

En það má vera að nálægðin við nútímann sé farin að hafa áhrif á sögumanninn Peter Morgan og handritshöfunda hans. Það hefur ekki hvað síst orðið áberandi í meðferðinni á Margrét Thatscher en margir eru á því að Morgan noti tækifærið til að sýna hve mjög hann fyrirlítur Thatserismann. Hugsanlega eigum við ekki að taka þetta alvarlega, þættirnir hafa til þessa byggst á ákveðnu skáldaleyfi og vissulega birtist ákveðin pólitísk óvild í garð manna eins og Churchill og Macmillan fyrr í þáttunum og sá fyrrnefndi er ekki ókunnur því eins og vikið verður að hér á eftir.

Segja má að í Krúnunni sé tímaröð atburða feld að frásögninni, jafnvel aukapersónum bætt við að ekki sé talað um augljósa sviðsetningu atburða og uppsetningu samtala sem engar skráðar heimildir eru um. Hvers getum við saklausir áhorfendur vænst? Jú, við áttum okkur á því að handritshöfundarnir eru að fylla í eyðurnar, nokkuð sem er síður en svo bannorð hjá sagnfræðingum en auðvitað verður að vera einhver trúnaður eða heiðarleiki við söguna. Ella er hætt við því að við sitjum uppi með skoðanir og viðhorf sem segja meira um handritshöfundana en hina eiginlegu atburði. Að hluta til má segja að það hafi gerst með innkomu Margrétar Thatscher, persónu sem enn er hluti af lifandi pólitískri þrætu. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur gert þessari meðferð á Thatscher ágæt skil en hann hitti hana nokkrum sinnum.

Atburðir og hegðun

Enski sagnfræðingurinn R.G. Collingwood taldi að sagnfræðingar fengjust ekki aðeins við atburði heldur einnig hegðun. Fyrir söguna er markmiðið ekki atburðurinn sjálfur heldur sú hugsun sem hann lýsir og þau áhrif sem hann hefur á framvindu sögunnar. Að uppgötva þessa hugsun er að skilja atburðinn. Öll saga er því saga hugsunar og söguþróun er þróun hugsunar. Þetta kom upp í hugann þegar horft var á myndina Myrkasta stundin (Darkest Hour) fyrir nokkrum misserum en hún fjallaði um fyrstu vikur forsætisráðherratíðar Winstons S. Churchill. Þó að sagnfræði nútímans vilji afsetja „stóra” leiðtoga og hlutverk þeirra í sögunni þá henta þeir vel fyrir dramatíseruð epísk verk og þá eru persónur eins og Thatscher og Churshill velheppnuð skotmörk. Og myndin um Churchill var það sannarlega. Pistlaskrifari var reyndar farinn að venjast John Litgow útgáfunni af honum í Krúnunni en Gary Oldman gerir honum einnig vel skil. Winston í meðförum Oldmans er öðru vísi og kannski aðeins stíliseraðri og örugglega drukknari! Churchill hefur verið með sterk innyfli frá náttúrunnar hendi, um það þarf ekki að efast, en í myndinni var augljóslega fullmikið gert úr drykkju hans, sem var vissulega eftirtektarverð.dark

Sigur eða ósigur - þar er efinn

En stóra spurningin, sem myndin og þáttaröðin eru að fást við, tengist vali og ákvörðunum stjórnmálamanna. Þessu er stillt eftirminnilega upp í myndinni um Churchill sem er kallaður til leiks þegar Bretar horfðu fram á að tapa stríðinu. Belgía og Holland að falla, Frakkland komið að fótum fram og breski herinn á stjórnlausu undanhaldi og beið örlaga sinna við Dunkirk. Leiðtogi Íhaldsmanna og forsætisráðherra, Neville Chamberlain, er rúinn trausti. Stefna hans, sem byggðist á því að leita friðar, hafði engu skilað og hann veit ekki sitt rjúkandi ráð frammi fyrir sókn hersveita Hitlers. Churchill er ekki fyrsta val en sá sem stóð næstur forsætisráðherrastólnum kýs að leika biðleik og styður Churchill í von um að hans tími komi síðar. Hafa verður í huga að Churchill átti að mörgu leyti misheppnaðan feril. Blóðbaðið við Gallipoli í fyrri heimsstyrjöldinni og ýmsar ákvarðanir hans í framhaldinu bentu ekki endilega til þess að hann væri bestur til þess að leiða Breta við þessar erfiðu aðstæður. Í ofanálag treysti Georg 6 honum ekki vegna stuðnings Churchills við hjónabandsbrall Játvarðar bróður hans. Veikleikar Churshills voru enn meira áberandi í myndinni Churchill frá árinu 2017 í leikstjórn Jonathan Teplitzky. Þar féll það í hlut Brian Cox að leika hina öldnu kempu sem er nánast aumkunarverður í óvissu sinni fyrir D-daginn enda með nagandi samviskubit yfir röngum ákvörðunum fyrri tíma. Myndin var forvitnileg en líklega ansi óhagstæð Churshill.Churchill-545109673-large

Hvað um það - forystan á þessum tímum féll í hendur Churchill. Myndin lýsir í raun þeim ákvörðunum sem þarf að taka en hugmyndin um frið var ekki horfin þó Chamberlain færi frá. En stóð til boða að semja sérfrið við Hitler fyrir milligöngu Ítala. Chamberlain og Halifax studdu það og reyndar fleiri. Friðarumleitanir Chamberlain voru að mörgu leyti skiljanlegar, rétt voru liðin 20 ár frá fyrri heimsstyrjöldinni sem hafði höggvið gríðarleg skörð í raðir Breta og nánast þurrkað út kynslóð ungra manna. Það var margt til vinnandi að komast hjá því að það endurtæki sig. Churchill hafði efasemdir en óbeit hans á Hitler og vantrú hans á að ná ásættanlegum samningum verður til þess að hann heldur áfram stríðinu. Framundan var orrustan um Bretland þar sem Luftwaffe, þýski flugherinn átti helmingi fleiri flugvélar.

Að ljúga í einfeldni sinni

„Munurinn á sagnaskáldi og sagnfræðíngi er sá að hann sem ég nefndi fyr lýgur vísvitandi að gamni sínu; sagnfræðíngurinn lýgur í einfeldni sinni og ímyndar sér að hann sé að segja satt,“ skrifar Nóbelsskáldið okkar. Eins og oft áður má efast um sagnfræðina í myndinni, höfundar hafa tekið sér skáldaleyfi víða og það jafnvel um mikilsverða hluti, svo sem ferðalag Churchill með jarðlestinni í London og jafnvel baráttu og afarkosti Chamberlain og Halifax fyrir því að gengið verði til samninga við Hitler. Aðalatriði er að myndin dregur fram óvissuna og þær ákvarðanir sem þarf að taka, jafnvel þó litlar upplýsingar liggi fyrir. Upphaf og lok fyrri heimsstyrjaldarinnar byggðust á fullkomnu þekkingarleysi stjórnenda landanna sem um ræddi. Hervæðing og stríðsrekstur hófst nánast fyrir tilviljun. Uppgjörið eftir fyrri heimsstyrjöldina byggðist á stefnu og ráðaleysi. Allt af því að forystumenn skortir upplýsingar og yfirsýn. Hugsanlega hefur þetta batnað á Vesturlöndum en hvað skýrir nútíma stríðsrekstur? Þættirnir um Krúnuna draga einnig fram þá óvissu og þann vandræðagang sem fylgir glæsilífi kóngafólksins. Má þá hafa í huga kvæði Jóns Helgasonar sem var ort við annað tilefni:

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist
sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist,
þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst
ef maður að síðustu lendir í annarri vist.