c

Pistlar:

11. janúar 2021 kl. 20:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Erfitt að starfa hjá ríkinu?

Starf ráðuneyta snertir alla landsmenn og sérfræðingar í ráðuneytum gegna mikilvægum skyldum gagnvart ráðherra og í verkefnum ráðuneyta. Nýlegar rannsóknir gefa vísbendingar um óánægju meðal starfsfólks ráðuneyta hér á landi og að þar þurfi að huga betur að stjórnun, samskiptum, vinnuskilyrðum og álagi í starfi. Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál sem gefið er út á netinu. Rannsóknin er framkvæmd af þeim Sigrúnu Gunnarsdóttur og Erlu Sólveigu Kristjánsdóttur.

Í greininni er bent á að undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum og umbótum innan stjórnsýslunnar og þar fullyrt að fyrir liggi takmörkuð þekking um reynslu sérfræðinga í starfi. Þess vegna sé mikilvægt að skoða reynslu sérfræðinga í ráðuneytum sem starfa undir miklu álagi og kröfum til að auka skilning á því hvaða þættir tengjast starfsánægju þeirra. Þessi óánægja kann að koma einhverjum á óvart en margt getur útskýrt þetta segja rannsakendur.oþekkt

Byggist á „djúpviðtölum“

Við rannsóknina voru tekin svokölluð „djúpviðtöl“ við sérfræðinga með langa starfsreynslu. Viðtöl voru greind og túlkuð samkvæmt fyrirbærafræðilegri aðferðafræði. Fjögur þemu spruttu upp úr gögnunum: 1) „Besta umbunin er að sjá eitthvað lifna“, 2) „Það tekur töluvert á að hafa stjórnlyndan yfirmann“, 3) „Það eru kröfur, ofboðslegar kröfur á okkur, alltaf meiri og meiri kröfur“, og 4) Fá oft ekki að blómstra. Helstu niðurstöður sýna að þrátt fyrir að vinna undir miklu álagi og tímapressu hafa sérfræðingarnir ástríðu fyrir starfinu og brennandi áhuga á að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Þeir upplifa oft vantraust og skipulagsleysi, þekking þeirra nýtist oft ekki sem skyldi og þeir ná þess vegna ekki að blómstra í starfi. Að sögn rannsakenda þá veitir rannsóknin nýja sýn í störf sérfræðinga í ráðuneytum og hægt er að taka undir það. Niðurstöðurnar gefa til kynna að bæta þurfi skipulag og stjórnun innan ráðuneytanna með áherslu á aukinn stuðning við starfsmenn og að efla enn frekar innri starfshvöt og ábyrgðarskyldu.

Fyrir stuttu var greint frá því hér í pistli að jafnlaunavottun hefði ekki skilað nægilegum árangri heldur þvert á móti aukið á skriffinnsku og ógagnsæi, jafnvel unnið gegn markmiðum sínum. En mest um vert, hún skilur eftir nýjar skyldur hjá ríkisstarfsmönnum sem væntanlega auka álag í starfi. Þessi skylda lýtur ekki beinlínis kjarnastarfi starfsmanna heldur eykur umstang og tekur tíma frá starfsskyldum. Í greininni er bent á að sérfræðingar í ráðuneytum gegna mikilvægum skyldum gagnvart ráðherra og störf þeirra snerta alla landsmenn. Ábyrgð þeirra snýr að grunnstoðum samfélagsins og störf þeirra samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands (lög nr. 115/2011) felast meðal annars í því að veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf til þess að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Í rannsókninni er ekki lagt mat á hvort þeir telji sig eiga erfitt með að standa undir þessum skyldum en það má leiða að líkum.

Áhersla á skilvirkni og árangur

Rannsakendur benda á að undanfarin ár hefur umræða um skilvirkni og árangur í stjórnsýslu aukist en fáar rannsóknir liggi fyrir um starfsumhverfi og samskipti á þessum vettvangi með áherslu á upplifun og ánægju starfsfólks. „Í ljósi þess hve störf sérfræðinga í ráðuneytum eru mikilvæg og vegna vaxandi álags í starfi er mikilvægt að skoða hvernig það er í raun fyrir sérfræðinga að starfa í ráðuneytum. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á því hvernig það er fyrir sérfræðinga að starfa í ráðuneytum hér á landi þar sem ríkja miklar kröfur og álag til að varpa ljósi á upplifun þeirra á ánægju í starfi og auka skilning á því hvaða þættir tengjast starfsánægju þeirra svo sem samskiptaferli, ákvarðanataka, ábyrgð, hvatning og umbun.“

Hvað á að lesa úr svona rannsókn? Eru sérfræðingar hjá hinu opinbera óánægðir í starfi þó að þeir hafi tryggari vinnu en aðrir og vel samanburðarhæf laun og kjör? Hvað veldur því? Getur verið að sú viðleitni að stækka umfang ríkisins með sífellt meiri skriffinnsku (eins og birtist meðal annars í jafnlaunavottuninni) dragi úr starfsánægju opinberra starfsmanna, einfaldlega af því þeir missa yfirsýn og skilning á starfi sínu? Þeir finna það á eigin skinni að þeir eru fremur að þjónusta kerfið en fólkið sem þeir eiga að vinna fyrir. Hjá hinu opinbera vinnur margt hæft og vel menntað fólk. Það er synd ef það upplifir ekki ánægju í starfi og það krefst nánari rannsókna.