c

Pistlar:

18. febrúar 2021 kl. 18:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einsleitni í boði Ríkisútvarpsins

Fáir sem starfa við fjölmiðla eru ánægðir með þá þróun að þeir séu komnir á opinbert framfæri. En ömurleg rekstrarstaða þeirra hefur ekki farið framhjá neinum og því hugsa margir að það sé skárra að taka við þessum 30 aurum silfurs en að snúa upp tánum. En hverfur ekki ljóminn af frjálsum fjölmiðlum þegar þarf að senda stöðugt inn bókhaldsgögn til ríkisins til að fá allt mögulegt endurgreitt? Þetta var reyndar í eina tíð fyrirkomulag hjá forseta lýðveldisins sem þurfti ekki að greiða skatt frekar en kóngurinn forðum. Fyrir einum eða tveimur áratugum var fallið frá því og forsetinn fékk launahækkun (sem núverandi forseti hefur hafnað að hluta) og fyrir vikið hætti embættið að þurfa að senda inn nótur og kvittanir til að njóta skattaafsláttarins. Það er önnur saga.fjölm

En þegar allir fjölmiðlar eru komnir á ríkisframfæri með einum eða öðrum hætti verður auðvitað ákveðin hætta á einsleitni á markaði sem eðli málsins samkvæmt ætti að þrífast á fjölbreytileika þar sem ólíkar skoðanir og ólík viðhorf takast á. Sagan segir okkur að með eitt Ríkisútvarp alsráðandi á markaði mun bæði umræða og efnistök verði fátæklegri. Það leiðir af sjálfu sér.

Ríkisútvarpið sogar til sín súrefnið

Einkareknir fjölmiðlar hafa svo lengi sem þeir hafa starfað kvartað yfir samkeppnisstöðunni við Ríkisútvarpið. En ekkert breytist hvað það varðar. Það hefur verið rætt um að taka ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eða hefta aðkomu þess að honum en ekkert breytist. Alveg sama hvað menn tala og kvarta alltaf skal „ríkið sogaði til sín súrefnið á nýjan leik,“ eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson, skáld og sjónvarpsmaður, orðar það í ágætum pistli í Fréttablaðinu um síðustu helgi. Sigmundur Ernir rifjar upp einokunarstöðuna áður en aðrir miðlar komu til sögunnar: „Á þessum tíma var eitt sjónvarp, eitt útvarp. Engin samkeppni. Ekkert til að bregðast við eða kippa sér upp við. Ríkið átti sviðið – og ef þú vannst þar varðstu þjóðfrægur.”

Sigmundur Ernir bendir á að það hafi að sumu leyti verið fjarstæðukennt að afnema einokun Ríkissjónvarpsins án þess að tryggja samkeppnisstöðuna. Hann bendir réttilega á að ferskleiki samkeppninnar bjó til nýjan fjölmiðlaheim á Íslandi. Þeir sem muna árin í kringum stofnun Stöðvar 2 og þann ferska andblæ sem var á útvarpsmarkaði muna sannarlega hvað mikið breyttist þegar einokun ríkisútvarpsins var rofin. Og það síaðist til annarra fjölmiðla og hugsanlega var fjölmiðlun á Íslandi með frískasta móti í kringum 1990 þegar verið var að losa fjölmiðlanna úr viðjum hins pólitíska valds. Flokksblöðin tíndu tölunni og alvöru samkeppni varð til á sjónvarps- og útvarpsmarkaði. Þetta rifjar Sigmundur Ernir upp með eftirfarandi hætti:

Óvænt sköpunargleði

„En kannski varð allur sá fjarstæðukenndi fáránleiki til þess að leysa úr læðingi nýja og næstum óvænta sköpunargleði á sviði sjónvarpsframleiðslu. Frjálsir miðlar gáfu ríkinu langt nef. Sjálfur miðillinn var ekki lengur á hátíðlegum stalli og hætti að taka sig alvarlega. Það mátti loksins flissa á skjánum, flírulega og fleipurslega. Svo opnum örmum tók almenningur efni Stöðvar 2, fyrstu einkareknu sjónvarpsstöðvar landsmanna, að líkja verður við langvarandi ástarsamband. Á örfáum misserum urðu áskrifendur hennar yfir 40 þúsund talsins og vel það, sem merkir að næstum þrír fjórðu heimila landsins urðu sér úti um afruglara sem voru fluttir hingað til lands í skipsförmum. Og senurnar á fyrstu árum Stöðvar 2 voru í anda alls þessa. Eilíf veisla. Fleiri hugmyndir voru framkvæmdar en fólkið fékk. Skemmtilegasti og litríkasti vinnustaður landsins gerði einfaldlega það sem honum sýndist. Hratt og vel. Ríkið vissi ekki hvaðan á það stóð veðrið. Tapaði áttum.“fjölmbl

Gín yfir öllu

Eins og staðan er nú þá gín Ríkisútvarpið yfir öllu, það setur málefni á dagskrá og velur þá álitsgjafa sem móta umræðuna. Því miður hafa vopnin verið slegin úr höndum starfsmanna Stöðvar 2 með því að læsa dagskránni. Pólitískur fréttaskýringaþáttur eins og Víglínan á erfitt uppdráttar. En eins og oft áður er ómögulegt að vita af hverju við missum þegar frumkvæði hverfur. Um það segir Sigmundur Ernir:

„Grínlaust var það svo að einkaframtakið ruddi brautina til nýrra tíma á öldum ljósvakans. Það varð leiðandi á öllum sviðum, í talsmáta, tónlistarvali, talsettu barnaefni, leikþáttum, landsbyggðarumfjöllun og setti á laggirnar fyrsta alvöru fréttaskýringaþáttinn, síðar fyrstu fréttastöðina sem var skrautleg tilraun og alveg í anda atorkunnar sem einkenndi einkastöðvarnar frá fyrstu tíð, það átti að prófa allt, engar hugmyndir voru of stórar. Og ríkið skrölti á eftir, allt frá því umrótið hófst haustið 1986, næsta ringlað neyddist það til að fara að senda út efni á fimmtudögum og jafnvel líka í sjónvarpslausa mánuðinum júlí – og batnaði að miklum mun eftir því sem árin liðu, af því að það hafði allt í einu fengið samkeppni, varð að lokum stórgott.“

Það er ekki fögur framtíðarsýn sem Sigmundur Ernir dregur upp í grein sinni en því miður er ástæða til að óttast að hann hafi rétt fyrir sér.