c

Pistlar:

19. mars 2021 kl. 10:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sérstök umræða um landsins gagn og nauðsynjar

Á Alþingi í gær var sérstök umræða um landbúnaðarmál sem Sigurður Páll Jónsson, þingmaður norðvesturkjördæmis, stóð fyrir. Hann er einn af þeim þingmönnum sem Ríkisútvarpið kýs að tala ekki við. Það er hugsanlega af því að hann talar fyrir hönd sinna kjósenda á landsbyggðinni en þar er hann kannski ekki síst að berjast fyrir tilvist grunnatvinnuvega landsins, landbúnaðar- og sjávarútvegs. Svo hefur hann líka svolítinn áhuga á samgöngumálum, kannski öðrum en reiðhjólum og borgarlínum. Það er því fróðlegt að velta fyrir sér því fréttamati sem liggur að baki því að þeir þingmenn Reykjavíkur, sem iðulega bara tala um smáatriði stjórnsýslunnar (eins og því í hverja ráðherra hringir og hvenær) og spillingu, fá alltaf orðið í útvarpi allra landsmanna.landbb

En látum það liggja milli hluta. Umræðan í gær var forvitnileg því í henni tóku þátt fulltrúar tveggja andstæðra sjónarmiða. Annars vegar þeirra sem vilja breyta landbúnaðinum og matvælaframleiðslunni í landinu og sjá ekkert tækifæri betra til þess en að hleypa erlendri landbúnaðarvöru óheftri inn í landið. Líkleg afleiðing þess er að þessi starfsemi leggst smám saman af og færist frá því að vera atvinnugrein yfir í að vera sérviskuiðnaður. Hins vegar var Sigurður Páll og aðrir þeir sem telja þrátt fyrir allt allnokkur verðmæti í því að framleiða matvæli í hreinu og óspilltu umhverfi og reyna þannig að stuðla að því að land haldist í byggð og landsmenn geti nokkurn veginn framleitt eigin matvæli. Dálítið gamaldags viðhorf segja margir.

Ríkisstyrktur landbúnaður Evrópu

En það er stundum hálf spaugilegt að hlusta á helstu talsmenn Evrópusambandsins berjast fyrir óheftum innflutningi matvæla hingað til lands með frelsi og samkeppni að leiðarljósi. Hefur farið framhjá þeim að allur landbúnaður í Evrópu er kyrfilega ríkisstyrktur? Þannig að þegar verið er að berjast fyrir því að íslenskur landbúnaður keppi við innflutning þá verður að taka það með í jöfnuna. Því er samkeppnin skökk frá upphafi. Þó að það hafi mátt gagnrýna margt í íslenskum landbúnaði í gegnum tíðina þá réttlætir það ekki að setja hann í svo fráleita samkeppnisstöðu þar sem menn hafa augljóslega samið frá mikilsverða hagsmuni.

Í þessum málum er að mörgu að hyggja, matvælaöryggi landsmanna verður að huga að og því að landsmenn hafi aðgengi að hollri og næringarríkri matvöru. Það er óumdeilt að íslensk matvæli eru framleidd við hagstæðari aðstæður en í mörgum þeim löndum sem flytja út matvæli í stórum stíl. Þegar hugað er að atriðum eins og notkun lyfja þá sýnir það sig að sýklalyfjanotkun í evrópskum landbúnaði er komin fram úr öllu hófi. Sýklalyfjaónæmi hjá mönnum og dýrum er vaxandi vandamál á heimsvísu þar sem sýklalyf bíta ekki lengur á ónæmar bakteríur. Við Íslendingar erum í einstakri stöðu með okkar góðu framleiðslu. Það væri stórslys að stefna henni í voða.kjöt

Fólk velur íslenskt

Við sjáum að þegar markaðsaðstæður eru eðlilegar þá velur fólk íslenska framleiðslu. En það er hart að henni sótt, nú eru flutt inn matvæli og seld þannig að neytendur eiga oft á tíðum erfitt með að átta sig á uppruna þeirra. Sá mikli innflutningur sem nú dynur yfir okkur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum er stórslys. Pistlaskrifari fór á veitingastað fyrir skömmu og pantaði nautasteik og spurði hvaðan hún kæmi. Frá útlöndum sagði þjónninn og sagði í óspurðum fréttum að allir matsölustaðir Reykjavíkur biðu nú eingöngu upp á erlent nautakjöt, utan einn, þar réði sérvitringur ríkjum. Þarna er ekki verið að auka valið. Gestir veitingastaðanna verða að kaupa þetta kjöt ætli þeir sér að kaupa nautasteik yfir höfuð. Ekki verður séð að hagræðið af því renni til gesta veitingastaðarins. Sama á við um margvíslega unna kjötvöru. Það er í senn svik við neytendur og framleiðendur þessa lands.

Eitt af því sem ferðamenn sækjast í þegar þeir heimsækja nýtt land er að kynnast siðum, venjum og menningu viðkomandi lands. Matur og matarmenning er þar í hávegum. Augljóslega vilja þeir erlendu gestir sem sækja okkur heim komast í snertingu við okkar góðu og hollu framleiðslu. Það er því eðlilegt að styðja við og efla þessa framleiðslu, það er okkur beinlínis til fjárhagslegs bata og eitt af sérkennum okkar sem þjóðar og styrkir þannig ferðaþjónustuna og matvælaframleiðslu okkar.

Þeir sem tala fyrir innflutningi og samkeppni við erlenda matvælaframleiðendur virðast stundum horfa framhjá þeirri staðreynd að erlendur matvælaiðnaður er styrktur á heimaslóð. Þannig virðast þeir oft ætla innlendum framleiðendum hér á Íslandi það að keppa með báðar hendur fyrir aftan bak við ríkisstyrkta framleiðslu milljónaþjóða sem fyrir löngu hafa gefist upp á þeim heilbrigðis- og hollustukröfum sem við teljum sjálfsagðar. Ef við ætlum að sætta okkur við það er rétt að gera það með opin augu.