c

Pistlar:

27. mars 2021 kl. 16:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Macron að hefja kosningabaráttuna

Bretland er heimsveldi, Þýskaland land og þjóð, en Frakkland lífvera, sagði franski sagnfræðingurinn Jules Michelet (1798-1874). Frakkland er annað meginríki Evrópusambandsins og hefur að sumu leyti mótað hinar stjórnsýslulegu leiðir þess. Leiðir sem að sumu leyti hafa verið undir gagnrýni í kjölfar baráttunnar við kórónuveiruna innan sambandsins.

Öxulinn Berlín - París er valdamiðjan sem Brussel-valdið verður að beygja sig fyrir og það er en skýrara eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu. En pólitíska sviðið mun augljóslega taka miklum breytingum á næstunni og þó að við Íslendingar fylgjumst alla jafnan betur með því sem er að gerast í Bandaríkjunum og Bretlandi þá er Evrópa í dag mótuð í Berlín og París. Kosið verður í Þýskalandi í haust og Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur tilkynnt að hún ætli að stíga til hliðar eftir 16 ár í forystu. Það er ekki síður mikið undir hjá Frökkum og sérstaklega hjá Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem sækist eftir endurkjöri á næsta ári og virðist mega hafa sig allan við í hinni eilífu baráttu við Marine Le Pen leiðtoga Þjóðfylkingarinnar (Rassemblement nationa) sem hefur mælst sterk í könnunum undanfarið. Á sínum tíma var talsvert fjallað um innkomu Macron í evrópsk stjórnmál enda töldu margir það nokkur tíðindi og sáu ýmsir hann sem nýjan leiðtoga álfunnar.macron

Baráttan við íslam

Eins og horfur eru núna þá gæti Marine Le Pen allt eins unnið Macron í seinni umferðinni þó pistlaskrifari efist um að Frakkar gangi alla leið í þeim efnum og kjósi hana forseta. Það breytir því ekki að þau mál sem Marine Le Pen setur á oddinn munu verða áberandi í kosningabaráttunni og augljóslega er Macron farinn að undirbúa sig undir það með því að herða hinar menningarpólitísku áherslur sínar gagnvart innflytjendum og sérstaklega áhrifum íslam innan franska þjóðfélagsins. Hann hefur undanfarna mánuði skorið upp herör gegn áhrifum íslamskra trúarhópa en segja má að afhöfðun franska kennarans Samuel Paty í október síðastliðnum hafi verið kornið sem fyllti mælirinn og knúið frönsk yfirvöld til að bregðast við. Sumir telja það of seint en ljóst að það mun hafa allskonar áhrif á þjóðfélagsumræðuna í Frakklandi. Macron virðist ódeigur en situr undir ásökunum ýmissa menningarvita um að hann gangi of langt.

Frakkar hafa farið illa út úr veirunni

En áhrif kórónuveirunnar eru mikil í Frakklandi enda landið farið sérlega illa út úr veirunni með ríflega 100.000 dauðsföll. Það eru verri tölur en í Bandaríkjunum og það sem verra er að veiran geisar ennþá í Frakklandi en núna eru um 45 þúsund manns að smitast á dag og þúsundir liggja á gjörgæsludeildum. Frökkum hefur gengið mun verr að bólusetja og svo virðist sem bæði skorti bóluefni og getu til að koma efninu út. Macron Frakklandsforseti situr undir gagnrýni og ásakaður um vanhæfni, hroka og lygar eins og var rakið í nýlegri grein í Financial Times. Sjálfur hefur hann gagnrýnt áætlun og framkvæmd Evrópusambandsins, meðal annars í viðtali við gríska sjónvarpið nú í liðinni viku. Það var reyndar skömmu eftir að Macron og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hótuðu að stöðva útflutning AstraZeneca-bóluefnisins til ríkja sem stæðu betur að vígi í bólusetningum, þar til fyrirtækið hefði uppfyllt samninga sína við sambandið. Aðgerð sem hefur skapað glundroða og misskilning.

Frakkar trúir sinni þjóðernislegu stefnu gagnvart frönskum iðnaði börðust lengi fyrir því að bólefni Sanofi yrði notað en í haust varð ljóst að það væri langt í að það yrði tilbúið, hugsanlega ekki fyrr en í lok þessa árs. Það tafði hins vegar fyrir. Það bætir ekki úr skák að í Frakklandi ríkir almenn tortryggni gagnvart bólusetningu en tiltrú á bólusetningum mælist sérstaklega lág meðal franskra borgara. Frakkar dreifa bóluefni mikið til i gegnum smáar bólusetningarstöðvar (lækna) í stað þess að nota stóra bólusetningastaði. Auk þess hefur Macron talað niður tiltekna framleiðendur bóluefnis sem er nú ekki til þess fallið að auka tiltrú borgaranna á bólusetningu. Fyrir vikið eru Frakkar í 21 sæti af 27 þjóðum Evrópusambandsins. Macron er öflugur stjórnmálamaður og tækifærissinnaður eins og vikið hefur verið að hér áður. Nú reynir á hann í komandi kosningabaráttu.