c

Pistlar:

29. apríl 2021 kl. 18:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Róstur og ókyrrð í frönsku þjóðlífi

Frakkland er og hefur verið lykilríki Evrópusambandsins og það birtist með enn skýrari hætti nú þegar Bretar eru gengnir úr sambandinu. Á næsta ári eru fyrstu forsetakosningar landsins síðan Brexit átti sér stað og þó að það hafi einhver áhrif á kosningabaráttuna þá er það ekki lykilþáttur nú þegar Emmanuel Macron reynir að ná endurkjöri. Takist honum það verður hann fyrsti forseti Frakklands til þess að vera endurkjörin síðan Jacques Chirac afrekaði það árið 2002. Að sumu leyti er Macron í kjörstöðu, ekki endilega vegna eigin verðleika heldur vegna þess að stjórnmálin í Frakklandi eru á vissan hátt í upplausn og eins og staðan er núna bendir flest til þess að helsti keppinautur hans verði hin herskáa Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar (Rassemblement national), sem margir Frakkar telja ókjósandi. Styrkur hennar er nægur til þess að komast í aðra umferð en reynslan segir að eftir það snúi flestir á á sveif með andstæðing hennar. Macron treystir á að sú verði raunin að ári en ljóminn sem fylgdi Macron í upphafi og stuðlaði að miklum væntingum er horfin en um það var fjallað talsvert hér í pistlum.

Róstur og ókyrrð einkennir franskt þjóðlíf núna. Frakkar eru slegnir yfir nýlegu drápi á lögreglukonu á lögreglustöðinni í Rambouillet, sem er á svæði vestan við París sem hefur orðið að þola árásir íslamista undanfarið. Drápið er rannsakað sem hryðjuverk en árásarmaðurinn hafði beiðið fyrri utan lögreglustöðina, sætti lagið að lauma sér inn með lögreglukonunni og stakk hana tvisvar í hálsinn um leið og hann kallaði „Allahu Akbar“ (guð er mikill!) Lögreglumenn skutu árásarmanninn til bana og augljósleg var þetta sjálfsmorðsárás. Hryðjuverkamaðurinn var 36 ára gamall Túnis-búi sem hafði komið ólöglega til Parísar segir í þessari ítarlegu frétt BBC. Árið 2016 voru tveir lögreglumenn stungnir til bana í sama hverfi, þá við heimili sín. Macron Frakklandsforseti hefur fordæmt árásina og þolinmæði Frakka gagnvart íslamistum virðist á þrotum. Franskir ráðamenn keppast við að segja árásina vera árás á frönsk gildi og ljóst að eftirlit með íslamistum verður hert enn frekar eins og hefur verið vikið að áður hér í pistlum.frönsk lögga

Uppgjör við hryðjuverkamenn

En uppgangur þjóðernissinna í Frakklandi er ekki eina vandamál franskra stjórnmálamanna og að sumu leyti má segja að það sé sjúkdómseinkenni en ekki sjúkdómurinn sjálfur. Satt best að segja sækir að undirstöðum franska lýðveldisins úr öllum áttum. Vaxandi þjóðfélagslegur órói hefur einkennt franska þjóðfélagsumræðu og aukinn fjöldi Frakka á í vandræðum með að sýna þolinmæði gagnvart þeim sem eiga erfitt með að aðlagast samfélaginu. Óttinn við hryðjuverk er vaxandi og árásir á venjulega borgara og lögreglumenn hafa farið vaxandi eins og áður sagði. Macron hefur reynt að sýna hörku í þessum málum en margir efast um eindrægni hans þar.

Hann er þó augljóslega að reyna að þrengja að þeim eins og birtist í því að hann hefur nú látið handtaka sjö fyrrverandi liðsmenn ítölsku hryðjuverkasamtakanna Rauðu herdeildanna. Francois Mitterrand, fyrrverandi forseti og leiðtogi Sósíalistaflokksins, hafði veitt þeim skjól en í frétt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að handtakan er talin vera tilraun af hálfu Macrons, til að mýkja ítölsk yfirvöld. Eins ótrúlegt og það er þá var Frakkland lengi griðastaður liðsmanna Rauðu herdeildanna sem stóðu fyrir hryðjuverkum á áttunda og níunda áratug nýliðinnar aldar. Morgunblaðið rifjar upp að árið 1985 var svonefnd „Mitterrandkennisetning“ samþykkt við litlar vinsældir Ítala. Samkvæmt henni hlutu hryðjuverkamennirnir landvist gegn því að þeir afneituðu ofbeldisverkum og væru ekki eftirlýstir fyrir morð eða aðra „blóðglæpi“ í heimalandi sínu. Með ólíkindum að Frakkar hafi meðhöndlað nágrana sína með þessum hætti en nú blása nýir vindar eins og sést í þessari yfirlýsingu forsetahallarinnar: „Frakkland, sem einnig hefur orðið fyrir barðinu á hryðjuverkamönnum, skilur hina fortakslausu nauðsyn þess að draga illvirkjana fyrir rétt í þágu fórnarlamba þeirra,“ sagði þar. „Þetta framsal er liður í þeirri afar brýnu vegferð að byggja upp Evrópu laga og réttar með gagnkvæmt traust sem hyrningarstein.“ En nú er komið að skuldadögunum og hryðjuverkamennirnir bíða þess að verða framseldir til Ítalíu.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag gerir þessa þróun að umræðuefni og bendir á að spenna ríkir í Frakklandi eftir að 25 fyrrverandi hershöfðingjar í franska hernum undirrituðu opið bréf til stjórnvalda um helgina, þar sem varað var við því að „borgarastyrjöld“ væri handan við hornið vegna ásóknar íslamista í landinu. Fjöldi manns hefur síðan lýst yfir stuðningi við bréfið og voru sumir þeirra núverandi hermenn. Hefur varnarmálaráðherrann sagt að „vissulega verði afleiðingar“ af stuðningsyfirlýsingunni fyrir starfandi hermenn, þar sem þeir séu að brjóta lög með yfirlýsingu sinni.

Að verja „menningarleg gildi Frakka“

Leiðarahöfundurinn bendir á að tímasetning bréfsins sé ekki síst athyglisverð, en á mánudaginn voru sextíu ár liðin frá lokum valdaránstilraunar, þar sem franskir hershöfðingjar reyndu að neyða Charles de Gaulle, þáverandi Frakklandsforseta, til þess að draga ekki franskt herlið frá Alsír. Eins og hefur verið vikið að áður hér þá birtist nýlega skýrsla um stríðið í Alsír sem hefur vakið mikla athygli. En efni bréfsins nú vakti ekki síður athygli en þar var vikið að því að mögulega þyrftu þeir sem nú væru enn við skyldustörf að grípa í taumana til að verja „menningarleg gildi Frakka“.ágæri frakkl

Þetta kemur beint ofan í ókyrrðina vegna drápsins á lögreglukonunni í Rambouillet. En margt stuðlar að óróa í Frakklandi. Nýverið ákvað franskur dómari að öðrum slíkum, Kobili Traoré, sem myrti hina 65 ára Söru Halimi, yrði ekki gerð refsing, þar sem Traoré hefði verið undir áhrifum kannabisefna þegar hann barði Söru og henti henni fram af svölum svo hún lést af sárum sínum. Á meðan á þessu stóð sönglaði hann „Allahu Akbar“. Þetta hefur valdið mikilli reiði en staða gyðinga hefur versnað mjög í Frakklandi undanfarin áratug og margir brugðið á það ráð að flytjast á brott.

Ekki fyrir löngu var bent á það hér að allt síðan Macron hélt ræðu sína í frönsku borginni Les Mureaux í byrjun október síðastliðins hefur verið ljóst að hann ætlar að taka einarða afstöðu gegn íslamskri öfgastefnu og því sem hann kallar aðskilnaðarstefnu íslamista í Frakklandi (Islamist separatism). Þar sagði hann að íslam væri vandamál vegna þess að baki byggi pólitísk og trúarleg sannfæring fólks sem tryði því að lög þeirra stæðu ofar lögum lýðveldisins. Nokkuð sem stór hluti Frakka á erfitt með að sætta sig við og það veit Macron en hann mætti á jarðarför franska kennarans Samuel Paty í október síðastliðnum þar og hélt eftirminnilega ræðu sem varðar líklega hugmyndafræðilega nálgun hans í útlendingamálum.