c

Pistlar:

5. ágúst 2021 kl. 14:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í ágúst

Nú er ljóst að kórónuveirufaraldurinn mun móta hagkerfi heimsins í allavega tvö ár og líklega lengur. Það á einnig við um Ísland. Áhrifin hafa reynst minni á hagkerfið en verstu spár sögðu til um en eru eigi að síður veruleg og sumar atvinnugreinar eru illa skaðaðar. Þar stendur ferðaþjónustan verst að vígi en það er gríðarlega erfitt að gera nokkrar áætlanir um þróun mála næstu vikur og mánuði. Stjórnvöld tala nú um meiri fyrirsjáanleika í ákvörðunum sínum um sóttvarnir sem er gott og blessað en óvíst að það sé raunhæft. Sterk áhersla er í þjóðfélagsumræðunni á lokun og þar grípa þeir öfgafyllstu til þess að benda á að fara eigi að dæmi Ný-Sjálendinga. Lýsingar íbúa þar sýna að það væri ekki góð niðurstaða. Farsælast er að bólusetja meira, tryggja sóttvarnir eins og unnt er og reyna að finna takt í samfélaginu sem fólk getur lagað sig að. Á sínum tíma var talað um að það hefði tekið spænsku veikina fjögur ár að fjara út. Líklega verður það raunin með kórónaveiruna. Vonandi að ekki komi bakslag í formi illskeyttra stökkbreytinga eða hræðsluáróðurs Ríkisútvarpsins.

Stöðugleikaskilyrðin breyttu öllu

Íslenska hagkerfið var vel undirbúi fyrir átökin, ríkissjóður til þess að gera lítið skuldsettur og gjaldeyrisvarasjóður sterkur. Það eigum við að þakka hinum einstöku aðgerðum sem ráðist var í árin 2015 og 2016 og fólu í sér að forsendum stöðugleikaskilyrða var beitt til þess að jafna fjárflæði til og frá landinu.

Það hefur stundum vafist fyrir mönnum að skilja mikilvægi aðgerðarinnar og umfang. Þá er gagnlegt að lesa bókina Afnám haftanna - samningar aldarinnar? sem kom út fyrir um ári síðan og pistlaskrifari tók saman. Þar birtust útreikningar sem leiddu rök að því að um 600 milljarðar króna hafi færst til ríkissjóðs við stöðugleikaskilyrðin sem slitabúunum var gert að undirgangast. Nú má ætla að þessi upphæð sé stöðugt að hækka, meðal annars vegna aukins verðmætis Íslandsbanka og annarra eigna sem ríkissjóður eignaðist vegna stöðugleikaskilyrðanna. Það er því ekki óvarlegt að ætla að í kringum 700 milljarðar króna hafi færst til ríkissjóðs vegna aðferðafræðinnar sem beitt var við afnám fjármagnshaftanna. Það er einstök upphæð í Íslandssögunni og verður að teljast best heppnaða pólitíska aðgerð sögunnar.vetni

Hagkerfið í viðkvæmri stöðu

Þetta gerbreytir auðvitað aðstöðu stjórnvalda til þess að takast á við faraldurinn og margir freistuðust til þess að halda að við værum komin fyrir vind í sumarbyrjun. Vinnumarkaðurinn tók við sér og fjárfestingar talsverðar. Að ekki sé talað um hið sérstaka ástand sem ríkt hefur í kauphöllinni og var gert að umtalsefni í pistli hér fyrir skömmu. Margar hagstærðir gefa því ásættanlega mynd en hagkerfið er í viðkvæmari stöðu núna en í upphafi faraldursins. Það má sjá ákveðin hættumerki í þróun viðskiptajöfnuðar og sem fyrr getum við ekki gefið okkur að útflutningsgreinar styðji við gengið og verji okkur þannig fyrir innfluttri verðbólgu. Áfram þarf að stuðla að styrkingu verðmætaskapandi atvinnugreina og nýleg ákvörðun um stækkun á Grundartanga er sérlega ánægjuleg. Sömuleiðis áform um 15 milljarða vetnisverksmiðju. Slík verkefni skapa varanlegar og traustar útflutningstekjur. Verðbólgan hefur reynst þrautseig og erfið og lítið má útaf bregða til þess að hún fari ekki á skrið, meðal annars í ljósi hrávöruverðshækkana erlendis.

Seðlabankinn hefur að sumu leyti verið látin sjá um hagstjórn undanfarin misseri og nú er ljóst að svigrúm hans hefur minnkaði. Um leið blasir við að pólitísk óvissa mun ríkja þar til niðurstöður kosninga 25. september liggja fyrir. Þær snúast að hluta til um hvaða augum landsmenn sjá áframhaldandi verðmætasköpun sem er undirstaða velfarnaðar í landinu.