c

Pistlar:

23. ágúst 2021 kl. 18:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Öfund á tímum tekjulistanna


Íslendingum er austurlensk speki ekki mjög töm þó vissulega hafi mörg ágæt rit þar um verið gefin út. Mörgum væri án efa hollt að kynna sér speki kínverska heimspekingingsins Laó Tse sérstaklega núna þegar tekjulistar þekja síður fjölmiðla í bland við myndir og frásagnir af fræga, fallega og ríka fólkinu. Laó Tse sagði að þegar þú ert ánægður með sjálfan þig og þá gerir þú ekki samanburð við aðrir og keppir aðeins við að bæta þig. Það gæti einfaldað mörgum lífið að horfa til þessara nálgunar Laó Tse. Aumur er öfundlaus maður heyrði ég stundum sagt í sveitinni en flestir átta sig á að öfund er ekki eftirsóknarverð, því hún gerir engum gott. Satt best að segja er hún mjög óholl, nánast eins og úlfur sem étur fólk að innan eins og glögglega má sjá af ummælum margra sem tjá sig þessa daganna um tekjur annarra. Laó Tse sagði að það að hafa sjálfstraust sé grundvallaratriði til að takast á við allar þær áskoranir og erfiðleika sem við lendum í nánast dags daglega. Ein þessara áskoranna birtist í því hvernig við tölum um aðra. Sjálfstraustið hjálpar okkur áfram. Þess vegna verðum við að læra að trúa á okkur, án þess að öfunda aðra. Sjálfsagt eru flestir sammála um að heimurinn væri betri staður ef allir einbeittu sér að því að bæta sig í stað þess að öfunda aðra. En þannig er heimurinn ekki.tekjur

Blindaðir af öfund

Með þessu er ekki verið að gera lítið úr gagnrýni, en hún verður að vera málefnaleg og uppbyggjandi til að gagnast. Samfélagið á hverjum tíma þarf að fást við margar áskoranir og það er ekki til að einfalda það að sum stjórnmálaöfl hafa ríka tilhneigingu til að vefja alla saman og þurrka út mikilvægi einstaklingsins og mikilvægi þess að hann bæti sig og sína aðstöðu sjálfur. Þannig má segja að unnið sé gegn þeirri hugsun Laó Tse að það að þekkja sjálfan sig og lifa sínu eigin lífi skipti öllu. Aristóteles skilgreindi öfund sem sársauka við að sjá gæfu annars í bland við þá tilfinningu að hinn öfundaði hafi það sem ég ætti að hafa. Hugmyndasaga mannsins og trúarrit fjalla um öfundina á einn eða annan hátt. Í Biblíunni er sagt frá mörgum dæmum sem eru manninum til viðvörunar. Sum þeirra sýna hvernig öfund þróast en einnig hvernig hún eitrar hug þeirra sem láta hana taka völdin. Skýrasta dæmið er auðvitað í sögunni um Kain og Abel. Kain hefði getað gert það sem var rétt en öfundin blindaði hann og hann drap að lokum bróður sinn. Mörgum unnendum Njálu finnst að lífshlaup Gunnars á Hlíðarenda verði ekki skilið nema í gegnum öfundarmenn hans.

Öfundin var lykilhugtak í kvikmynd Milos Forman um Wolfgang Amadeus Mozart. Öfundarmaður hans var Antonio Salieri hirðtónskáld austuríska keisarans á síðari hluta átjándu aldar. Salieri skilur snilligáfu Mozarts og kvelst af afbrýðisemi út í hann og þessi tilfinning fær hann til að vinna gegn snillingnum og knýr hann að lokum til dauða. Þekkt þema í heimi bókmennta og lista.


Öfundin og óhamingjan

En hugsanlega hefur engin lagt eins mikið til umræðunnar um öfund og breski heimspekingurinn Bertrand Russell sem sagði að öfund væri ein öflugasta orsök óhamingju mannsins. Í bók sinni Að höndla hamingju fjallar hann talsvert um þetta málefni. Russell var reyndar ansi tækifærisinnaður í lífi sínu þó hann væri kenndur við skynsemishyggju og sagði seinna að bókin hefði verið skrifuð af því að hann var blankur. En svo sem ekki verri ástæða en hver önnur og það verður ekki af Russell tekið að hann var ritfær mjög. Í bókinni rekur hann nokkur dæmi um hvernig öfund hefur eitrað líf margra af merkustu hugsuðum sögunnar og segir svo:
„Öfund er afleitasta einkenni mannlegs eðlis; ekki er nóg með að öfundsjúkur maður reyni að skaða aðra ef hann kemst upp með það, heldur gerir öfundin hann sjálfan óhamingjusaman. Hann nýtur ekki þess sem hann hefur, en kvelst af því sem aðrir hafa. Hann reynir að spilla hag annarra og finnst það jafn eftirsóknarvert og að tryggja eigin hag. Fái þessi hvöt að leika lausum hala spillir hún öllu sem vel er gert og kemur jafnvel í veg fyrir að afburðahæfileikar fái að njóta sín.“tekjur2

Russell taldi öfund nátengda samkeppni. Þannig væri auðveldara að öfunda þá sem þú telur jafningja heldur en þá sem þú telur ekkert eiga sameiginlegt með. Þannig tengdi Rusell öfund stéttarskiptingu. „Betlara öfunda ekki milljónamæringa, en auðvitað öfunda þeir aðra betlara sem vegnar betur,“ skrifar hann og bendir um leið á að ekkert gott mun leiða af illu afli eins og öfund. Líka hugsun má sjá af þekktum orðum bandaríska rithöfundarins Gore Vidal sem sagði í viðtali við Sunday Times Magazine: „Í hvert skipti sem einhverjum vini mínum gengur vel, deyr eitthvað inni í mér.“

Russell var jafnaðarmaður og fannst mörgum nóg um pólitísk afskipti hans. Hann sagði hins vegar þetta: „Þeir sem eiga sér hugsjónir um meiriháttar breytingar á þjóðfélaginu og aukið félagslegt réttlæti, ættu þess vegna að vona að einhver önnur öfl en öfund stuðli að slíkum breytingum.“ Hugsanlega eiga þessi orð erindi inn í þjóðfélagsumræðuna í dag.