c

Pistlar:

28. ágúst 2021 kl. 19:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mun áskrift bjarga fjölmiðlum?

Eitthvert þreyttasta umræðuefni undanfarinna ára er rekstrarstaða fjölmiðla Það varð ekki til að gera umræðuefnið skemmtilegra þegar ríkisstyrkjakerfi var komið á og nú geta fjölmiðlamenn endalaust þráttað um hvernig eigi að dreifa þeim 400 milljónum króna sem eru í pottinum ár hvert. Sumir telja augljóslega að þeir eigi að hafa forgang að þessum fjármunum og auðvitað verða allar úthlutunarreglur umdeilanlegar. Eins og er reyndar hjá öðrum þeim sem taka við ríkisframlögum, hvort sem það eru stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar eða nú heimur bókmennta og lista.blaðalestur

Látum það liggja milli hluta en skoðum aðeins rekstrarstöðu fjölmiðla. Flestir fjölmiðlar geta haft tekjur með tvennu móti, frá þeim sem borga fyrir lestur, áhorf eða aðra notkun miðlanna og svo auglýsingasala sem byggist á því að einhver sé að lesa, horfa eða hlusta. Allar lestrar- og áhorfstölur hefðbundinna fjölmiðla hafa verið á niðurleið undanfarna áratugi og fáar undantekningar frá því. Verst er að fólk virðist almennt ekki lengur tilbúið að borga fyrir fjölmiðla og svo soga samfélagsmiðlar upp allar auglýsingatekjur af algoritmískri nákvæmni eins og hefur verið áður fjallað um hér í pistlum. Og starfa fyrir utan landamæri og skatta. Ungt fólk virðist áhugalítið um hefðbundna fjölmiðlun.

Breytingar framundan

Hvað er þá til ráða? Hækka ríkisstyrki og yfirgefa þá hugmynd að unnt sé að finna rekstraforsendur fjölmiðla. Varla er það valkostur og einhvertímann hljóta neytendur að átta sig á mikilvægi fjölmiðla og ekki síður að þeir séu sem fjölbreyttastir. Nú hefur verið upplýst að netmiðilinn Vísir hefur fengið til liðs til sín tvo röska blaðamenn sem hafa sinnt viðskiptafréttum í sérritinu Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í viku hverri. Um leið má skilja yfirlýsingar þannig að Vísir sé að skoða að læsa fréttasvæðum sínum, í það minnsta að hluta og treysta þannig á áskriftartekjur. Það er þá í takt við það sem Stöð 2 ákvað að gera í vetur og vakti athygli og reyndar allmargar efasemdir um hvort það væri sniðug leið til að bæta reksturinn. En forráðamenn Stöðvar 2 sýndu þarna ákveðinn kjark. Nú er það reyndar svo að rekstrar- og eiginfjárstaða sumra fjölmiðla er þannig að efast má um að þeir lifi árið af. Í eina tíð fóru fjölmiðlar í sumarfrí og komu ekki aftur. Margir hafa horft til kosningar og fundið rök fyrir því að einstaka miðlum sé aðeins ætlað að lifa fram yfir kosningar til að geta stutt málstað eða flokka. Það verður ekki selt dýrara en það er keypt.


En nú eru menn semsagt almennt að velta fyrir sér að reyna að selja aftur efni fjölmiðla. Aftur segi ég, en auðvitað var það þannig að menn borguðu fyrir blöð og tímarit hér í eina tíð. Erfiðara var að rukka fyrir ljósvakamiðla og útvarp er anarkískur fjölmiðill að því leyti að hvergi er rukkað fyrir hlustun að því, það er einfaldlega ekki unnt. Sama má segja um sjónvarpsfréttir. Þær eru oftast í opinni dagskrá og þess djarfari er tilraun Stöðvar 2 og ekki útséð með hvernig það verður.fjölfjöl

Hvað vilja lesendur?

En það eru fjölmiðlar á Íslandi sem selja áskrift. Þar fer fremst í flokki mitt gamla blað, Viðskiptablaðið, sem hefur meðferðis Fiskifréttir en hvoru tveggja eru áskriftarblöð. Morgunblaðið er líka áskriftarblað og svo eru nokkur tímarit og einstaka vefsvæði að reyna að selja fréttir sínar til áskrifenda. Það er engin spurning að það myndi styrkja blaðamennsku og sérstaklega stétt blaðamanna ef hægt er að fá fólk til að greiða fyrir fréttir. Það getur hins vegar verið erfitt, sumir hafa reynt það en orðið frá að hverfa. Viðskiptablaðið og Morgunblaðið reyna að selja gagnabankaþjónustu til lesenda en það gengur svona og svona. Höfum hugfast að timarit.is byggir alfarið á vinnu fjölmiðlamanna í gegnum tíðina og er hafsjór þeim sem leita að heimildum. Innan sagnfræðinnar er talað um að timarit.is hafi gerbreytt allri heimildarvinnu, svo mjög að sumir telja að það hafi of mikil áhrif en þa er önnur umræða. Því miður fá blaðamenn eða fjölmiðlar enga umbun fyrir að útvega efni á timarit.is

Það voru skelfileg mistök þegar íslenskir áskriftarmiðlar létu það yfir sig ganga að stærsti auglýsandi landsins á þeim tíma tók að fjármagna ókeypis dreifingu Fréttablaðsins. Það hefði aldrei átt að líðst út frá samkeppnissjónarmiðum en því miður sváfu bæði fjölmiðlar og samkeppnisyfirvöld á verðinum. Það er engin spurning að það gróf undan rekstrarstöðu fjölmiðla og hefur án efa flýtt þeirri þróun sem orðið hefur og spillt fyrir að íslenskir miðlar gátu læst vefsvæðum sínum. En það er vonandi að menn geti snúið þessari öfugþróun við og farið aftur að innheimta sanngjarna þóknun fyrir þjónustu sína.