c

Pistlar:

5. desember 2021 kl. 13:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannfjöldasprengjan aftengd?

Fyrir ekki svo löngu síðan óttuðust margir ekkert frekar en að jörðin myndi að lokum hverfa undir mannfjöldahafið sem væri óhjákvæmileg niðurstaða af mikilli fjölgun fólks á jörðinni. Nú eru áhyggjur minni af þessu en þó blasir við að fjöldi jarðarbúa mun fara yfir 8 milljarða markið í lok næsts árs eða í síðasta lagi í byrjun árs 2023. Í dag eru jarðarbúar ríflega 7,9 milljarðar manna og mannfjöldaklukkan fylgist af mikilli nákvæmni en um þetta hefur áður verið fjallað í pistli hér. Það má færa sterk rök fyrir því að ekkert hefur meiri áhrif á lífríki jarðar en fjölgun mannkynsins og líklega má segja það sama um loftslagsmálin. Fleira og fleira fólk leggur aukið álag á lífríkið, um það verður ekki deilt.fólk

Verulega lækkaðar spár

Það er auðvitað ótrúlegt að sjá að hver nýr milljarður manna hefur komið hraðar en sá fyrri - það er aðeins um áratug síðan er við fórum yfir 7 milljarða þröskuldinn. Það tók alla mannkynssöguna fram til 1803 að ná fyrsta milljarði íbúa. Næsti milljarður kom eftir 124 ár og svo þarnæst eftir 33 ár, alltaf styttist tíminn milli milljarðanna og lýðfræðingar fóru að orða áhyggjur sínar. Síðustu milljarðar hafa komið eftir áratug eða svo.

Mannfjöldaspár eru ekki samstíga. Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir að jarðarbúar nái hámarki við 10,9 milljarða manna árið 2100. Stofnanir eins og Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME) hafa annað sjónarhorn og hafa nýlega birt útreikninga sem sýna að jarðarbúar muni toppa í 9,7 milljarði manna árið 2064. Það væri ánægjulegt ef lægri spár rætast en það verður í það minnsta áhugavert að sjá hvert við stefnum þegar við förum yfir 8 milljarða markið.

Ekki alltaf iðandi stórborgir

En hvernig komst mannkynið að þessum tímamótum og hvernig hefur fólksfjölgun á heimsvísu litið út sögulega? Margt hefur breyst og staðreyndin er sú að borgir eins og New York, Sao Paulo og Jakarta hafa ekki alltaf verið iðandi stórborgir. Reyndar tók það talsvert langan tíma í sögu siðmenningarinnar að fá fólk til að safnast saman í mörgum af þeim borgum sem við lítum nú á sem helstu stórborgir heims.

Mannkynið hefur alltaf hreyft sig, leitað að nýjum tækifærum og frelsi. Frá og með 3.000 f.Kr., var hægt að finna menn aðallega í Mið-Ameríku, Miðjarðarhafinu, Frjósama hálfmánanum (gömlu Mesópótamíu) og hlutum Indlands, Japans og Kína. Það er engin tilviljun að landbúnaður náðist að þróast á sjálfstæðan hátt í mörgum af þessum löndum þegar bronsöld gekk í garð.

Mannfjöldafjölgun náði veldishraða um það leyti sem seinni landbúnaðarbyltingin hófst á 17. öld í Bretlandi. Ný tækni og búskaparvenjur festu rætur sem gerði það að verkum að hægt var að auka fæðuframboðið af áður óþekktum hraða.japan

Fólksfækkun víða

Vegna breyttrar lýðfræði (e.demographics) og lækkandi frjósemi hefur fjölgun jarðarbúa í raun verið á niðurleið í nokkurn tíma. Eftir því sem þessi vaxtarhraði nálgast núllið hefur eðlilega dregið úr veldisvextinum sem við sáum um tíma. Fólksfjölgun er að jafnast út og hún gæti jafnvel orðið neikvæð einhvern tíma í framtíðinni. Hugsanlega er ekki svo langt þangað til. Þó að búist sé við að hægist á fólksfjölguninni, þá eru enn heimshlutar sem bæta nýju fólki við ansi hratt. Frá upphafi áttunda áratugar síðustu aldar 1973 hefur Asía þannig tvöfaldað íbúa sína, úr 2,3 milljörðum í 4,6 milljarða. Í Asíu eru fjórar af fimm fjölmennustu þjóðum heims, þar af tvær þær lang fjölmennustu, Kína og Indland. Á sama tíma, hefur Evrópa farið úr 670 milljónum í 748 milljónir, sem jafngildir aðeins 11% aukningu. Í mörgum löndum fækkar fólki og ef ekki væri fyrir innflytjendur væri sumum þjóðum að fækka hratt. Gamli heimurinn stendur undir nafni.