c

Pistlar:

13. febrúar 2022 kl. 18:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Endurreisn franska kjarnorkuiðnaðarins


Orka frá kjarnorku verður lykilþáttur í raforkuframleiðslu Frakka út þessa öld og leið þeirra að því að ná kolefnishlutleysi fyrir 2050 eins og að er stefnt. Á þetta hefur verið bent í pistlum hér en segja má að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi rammað þetta inn þegar hann greindi frá framtíðaráformum Frakka í orkumálum á fundi í iðnaðarborginni Belfort í síðustu viku. Hann boðaði „endurreisn“ franska kjarnorkuiðnaðarins sem á að nást fram með umfangsmikilli áætlun um að byggja allt að 14 nýja kjarnaofna. Macron tilkynnti um byggingu að minnsta kosti sex nýrra kjarnaofna af ríkisorkufyrirtækinu EDF fyrir árið 2050, með möguleika á átta til viðbótar síðar.kjarnork

Nýleg áhersla Macron á kjarnorku markar stefnubreytingu frá því er var í upphafi forsetatíðar hans, þegar hann hafði lofað að minnka hlutdeild hennar í orkusamsetningu Frakklands. Það sem meira er, franska ríkisstjórnin hefur beitt sér af hörku fyrir því að fá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að merkja kjarnorku „græna“ síðar í þessum mánuði í tímamótaendurskoðun sem þýðir að kjarnorkan getur laðað að sér fjármagni sem loftslagsvæn orkugjafi.

„Það sem landið okkar þarfnast ... er endurfæðing franska kjarnorkuiðnaðarins,“ sagði Macron í ræðu sinni um leið og hann fór fögrum orðum um tæknikunnáttu Frakka. Gert er ráð fyrir að Frakklandsforseti tilkynni um áform sín um að berjast fyrir endurkjöri í þessum mánuði. Hann er meðvitaður um vaxandi umræðu um orku fyrir forsetakosningarnar í vor þar sem orkureikningar neytenda hækka stöðugt. Umhverfismál eru einnig vaxandi áhyggjuefni meðal franskra kjósenda.

Ríkisfyrirtækið alsráðandi

Með kjarnorkuverunum nýju verði Frakkar ekki lengur háðir því að nota jarðefnaeldsneyti, olíu, kol og gas. Í ræðu sinni sagði Macron að kjarnorkuverin yrðu af nýrri og fullkominni gerð. Þau yrðu byggð og rekin af franska ríkisfyrirtækinu EDF. Nær 70% allrar rafmagnsframleiðslu í Frakklandi kemur nú frá kjarnorkuverum en um 25% af orku innan Evrópusambandsins kemur frá kjarnorku. Síðustu 50 árin hefur kjarnorka leikið lykilhlutverk í frönskum orkuiðnaði. Macron sagði kjarnorkuna umhverfisvæna en um það eru eðlilega skiptar skoðanir. Nýjar tilraunir til að byggja nýja kynslóð kjarnaofna í stað eldri tegunda hafa í senn orðið kostnaðarsamar og tafir verið miklar.

Macron lagði sig allan fram við að selja þessar hugmyndir og fullyrti að franskir ​​kjarnorkueftirlitsaðilar væru „óviðjafnanlegir“ og gæfu engan afslátt af ströngustu kröfum. Öryggi væri fyrir öllu og fagmennska réði öllu. Hann sagði að ákvörðunin um að reisa ný kjarnorkuver væri „val um framfarir, val um traust á vísindum og tækni“.

Sól og vindorka líka aukin

Hann tilkynnti einnig um fyrirætlanir um mikla hröðun í þróun sólar- og vindorku á hafi úti. Macron sagði að Frakkar ættu ekki annarra kosta völ en að reiða sig á endurnýjanlega orku og kjarnorku og að landið þyrfti líka að eyða umtalsvert minni orku á næstu áratugum. Hann sagði að hann myndi leitast við að lengja líf allra núverandi kjarnorkuvera í Frakklandi þar sem óhætt væri að gera það. Tilkynningin kemur á erfiðum tíma fyrir skuldumhlaðna, ríkisrekna orkuveitu, EDF, sem stendur frammi fyrir töfum og þarf aukin framlög af fjárlögum vegna nýrra kjarnorkuvera í Frakklandi og Bretlandi, og tæringarvandamálum í sumum öldruðum kjarnakljúfum sínum.