c

Pistlar:

11. mars 2022 kl. 14:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Yfirgnæfandi meirihluti vill Sundabraut

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styður lagningu nýrrar Sundabrautar og það er ánægjulegt að fólk skuli sjá mikilvægi hennar og ekki síður þau tækifæri sem henni fylgja eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum. Sundabraut er ekki bara vegur sem styttir ferðir, sparar tíma, eldsneyti og eykur umferðaöryggi heldur er fylgir lagningu hennar tækifæri í byggðaþróun og gefur höfuðborginni möguleika á að þróast með nýjum og áhugaverðum hætti.

En könnun Maskínu, sem Fréttablaðið birti í dag, færir okkur athyglisverð tíðindi en hún sýnir að aðeins 6,2 prósent landsmanna eru andvíg lagningu Sundabrautar. Könnunin var gerð í febrúar þegar nokkur umræða var um lagningu brautarinnar. Í könnuninni kom fram að rúm 66 prósent eru mjög eða frekar hlynnt Sundabraut. Þá svara 27,5 prósent því að skoðun þeirra sé hvorki/né. Andstaða við framkvæmdina var ögn meiri hjá Reykvíkingum, 9,2 prósent. Íbúar Vesturlands voru hlynntastir, tæp 89 prósent þeirra vilja Sundabraut.sunbad

Brú eða göng - en er óvissa

Eins og komið hefur fram í fréttum gera stjórnvöld ráð fyrir að Sundabraut verði tekin í notkun árið 2031 og nái til Kjalarness. Enn er óvíst hvort leggja eigi brú eða göng þó ráðherra og Vegagerðin hafi talað fyrir brú. Borgarstjórnarmeirihlutinn virðist efins þó hann hafi ekki gert beinan ágreining við brúartillöguna. Geymir það sjálfsagt þangað til á síðustu stundu til að draga verkefnið enn á langinn. 6,5 prósent sögðu að skoðun þeirra ylti á hvor kosturinn yrði valinn. Þess má geta að höfuðborgarbúum hefur aldrei verið gert kleyft að kjósa um þetta mál með beinum hætti og því miður er það svo að skipulagsyfirvöld í Reykjavík tóku hagkvæmasta kostinn í burtu þegar ákveðið var að ráðast í Vogabyggð.

Píratar á móti Sundabraut?

Eins og áður sagði þá hefur verið mikil andstaða við Sundabraut meðal meirihlutans í borgarstjórn. Mestar eru líklega efasemdir meðal Pírata sem horfa sérkennilegum augum á framkvæmdina. Fyrir tveimur árum sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs og fulltrúi Pírata í borgar­stjórn, að Sundabraut í sjálfu sér ekki slæmur valkostur en þó aðeins ef hún yrði ekki hraðbraut sem myndi rýra loftgæði og kljúfa hverfi.

Í umræðuþættinum Silfrinu í september 2013 sagði Sigurborg að við skoðun á Sundabraut yrði að taka með í reikninginn hvaða áhrif hún myndi hafa á borgarbúa eins og höfundur gerði að umræðuefni hér í pistli á sínum tíma. „Ef við ætlum að byggja Sundabraut sem hraðbraut þá mun hún kosta okkur mörg mislæg gatnamót og hún mun skera Grafarvoginn og Vogabyggð og byggðina þar í kring mjög mikið. Og hún mun hafa mjög neikvæð áhrif á loftgæði, neikvæð áhrif á umferð og hún mun skapa aukna umferð.“ Þetta er óvenjuleg sýn á umferðarmannvirki eins og Sundabraut sem er auðvitað annað og meira eins og rætt hefur verið hér í pistlum. En um leið vildi Sigurborg takmarka notkun vegarins. „Hún gæti verið fyrir bíla á 50 km hraða, þá getum við náð þungaflutningunum í höfnina en þá væri hún ekki að hafa þessi ofboðslega neikvæðu áhrif á íbúana sem búa í borginni,“ sagði Sigurborg.

Nú síðast í janúar setti Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, fram hugleiðingar um sínar Sundabraut á fésbókina. Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, sagði við það tækifæri að líklega fælist í því meiri sannleikur um raunverulega stöðu mála en öll fögru fyrirheitin úr Ráðhúsinu gegnum árin samanlagt. „Sundabraut er umferðaraukandi aðgerð sem mun hafa neikvæð áhrif á fjölda hjólreiðaferða og ferða með almenningssamgöngum. Þetta kemur fram í félagshagfræðilegri greiningu á Sundabraut sem var kynnt í borgarráði í vikunni. Í greiningunni eru heildaráhrif á umferð einkabíla og val á ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu ekki tekin inn þegar því er þó haldið fram að framkvæmdin muni minnka losun á CO2 og „leysa umferðarteppur“, skrifaði Dóra Björt. Óvild hennar í garð bíla er þekkt.sundabraut

Meirihlutinn horfir framhjá kostunum

Þannig hefur meirihlutinn oftast horft framhjá því að Sundabrautin tengir ekki bara Reykjavík innan Reykjavíkur heldur við Vesturlandið og Norðurlandið. Brautin er því hagmunamál alls landsins og órjúfanlegur hluti samgöngusáttmálans.

En það eru ekki aðeins Píratar sem hafa talað gegn Sundabraut. Fyrir nokkrum árum var pistlaskrifari staddur fundi þar sem Hjálmar Sveinsson, þá formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, mótmælti Ásgeiri Jónssyni, sem þá var bara óbreyttur hagfræðingur, en hann talaði fyrir ágæti Sundabrautar eins og hann hefur ávallt gert, vinstri mönnum til mikillar gremju. Duldist engum að Hjálmar var (og er væntanlega) á móti Sundabraut og nefndi hann til þau rök að með henni myndu skapast umferðartafir á Sæbraut. - Að umferðabætur skapi bara nýjar umferðartafir!

Í hverfafélögum hafa frambjóðendur meirihlutans fundið lagningu og framkvæmdinni allt til foráttu þannig að efast má um að heilindi núverandi meirihluta til framkvæmdarinnar þó það gæti breyst í ljósi nýrrar könnunar.