c

Pistlar:

23. mars 2022 kl. 9:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lóðaskortur og afneitun meirihlutans

Samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins mætti byggja 7.000 íbúðir samkvæmt samþykktu skipulagi á auðum lóðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem langflestar, eða rúmlega 4.500 íbúðir, rúmist á samþykktum lóðum í Reykjavík. Þrátt fyrir það munu lóðir fyrir 7.000 íbúðir aðeins rúma tæpan fjórðung þess fyrirhugaða íbúafjölda sem fram komi í spá Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2014.

Samkvæmt því sem kemur fram í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir 2,25 íbúum í hverri íbúð og þurfi því að byggja um 30 þúsund íbúðir til ársins 2040 svo hýsa megi þessa 70 þúsund íbúa. Allir vita að skortur á lóðum á höfuðborgarsvæðinu er ein höfuðástæða þróunar fasteignaverðs hér í borginni og þess mikla vanda sem er á fasteignamarkaði. Allir nema meirihlutinn í Reykjavík sem beitir sjónhverfingum og umræðustjórnun til að afvegaleiða umræðuna. Til að fá botn í þetta skulum við líta á hvað þeir sem gleggst vita segja. Eftirfarandi ummæli eru tekin úr fjölmiðlaumræðu síðustu mánaða og missera. Hér talar engin stjórnmálamaður, aðeins þeir sem gleggst ættu að vita.fast

Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO, segir að Reykjavíkurborg, bera hvað mestu ábyrgð á ástandinu: „Borgin hefur staðið sig hvað verst í að úthluta lóðum. Þegar íbúðaskortur er ríkjandi hækkar fasteignaverð og það fer beint inn í verðbólguna sem skilar sér svo beint í minni kaupmætti heimilanna. Af einhverri ástæðu horfir Reykjavíkurborg ekki til þessara gagna og dregur lappirnar við að úthluta lóðum, sem veldur ójafnvægi."

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og varaformaður stjórnar Bjargs, skefur ekki af hlutunum: „Við erum að skila inn fjármagni eða stofnfjárframlögum vegna þess að við fáum ekki lóðir eða vegna þess að lóðirnar sem við höfum fengið eru ekki tilbúnar og verða ekki tilbúnar fyrr en eftir nokkur ár.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri: „Það liggur alveg fyrir, sama hvernig menn snúa því fram og til baka, að sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að brjóta ekki nýtt land undir ný hverfi, hefur áhrif á fasteignaverð í allri borginni. En vitaskuld er nægjanlegt rými fyrir nýtt húsnæði til staðar á þéttingarreitum innan borgarinnar – það bara tekur lengri tíma að koma þeim í gagnið. Við gætum horft fram á eitt eða tvö ár þar sem heldur hægir á framboði af nýjum eignum.“

Bjarni Már Gylfason, fyrrverandi hagfræðingur Samtaka iðnaðarins: „Grunndrifkrafturinn á bak við lóðahækkunina er skortur á lóðum. Fókusinn á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að þétta byggð. Það eru ákveðnir kostir við það. Hins vegar samrýmist það illa hugmyndum um að reyna að ná niður byggingakostnaði og kostnaði við húsnæði.“

Vignir S. Halldórsson rekur byggingafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að sá fjöldi íbúða sem nú eru í byggingu dugi engan veginn til að vinna á þeim mikla fasteignaskorti sem nú ríkir og valdi hækkunum: „En hvað veldur þessum hækkunum? Svarið við þeirri spurningu er auðvitað ekki einhlítt, en mjög stór áhrifaþáttur er framboð af byggingarlóðum, eða öllu heldur skortur á lóðum vegna minnkandi framboðs, einkum í Reykjavík. Það er alkunna að íbúðum í byggingu í Reykjavík hefur fækkað um nær þriðjung á síðustu tveimur árum, en í nóvembermánuði sl. upplýstu Samtök iðnaðarins um að 1900 íbúðir væru á byggingarstigi í borginni, þ.e. 30% færri en 2019. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar með borgarstjórann í broddi fylkingar hafa reynt að breiða yfir þessa staðreynd með margvíslegum blekkingum, eins og t.a.m. þeirri að bankarnir hafi kippt að sér höndum í lánveitingum til íbúðakaupa.“

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að mikil vöntun sé á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður hver væri ástæðan á bak við þessa vöntun sagði hann: „Kannski fyrst og fremst skortur á lóðaframboði. Við höfum fundið það hjá okkar félagsmönnum að þeir kvarta yfir því að það sé lítið framboð. Og það er helsti flöskuhálsinn í þessu.“fast2

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir að það verði ekki fram hjá því litið að þéttingarstefna Reykjavíkurborgar hafi stuðlað að lóðaskorti og þess vegna hafi lóðaverð rokið upp. Lítið framboð sé af lóðum fyrir sérbýli og komi lóðir á frjálsa sölu seljist þær stundum á tugi milljóna. Að sama skapi séu lóðagjöld á höfuðborgarsvæðinu orðin afar há þegar tekið er tillit til liða eins og innviðagjalda. „Þessar markaðsaðstæður hleypa upp fasteignaverðinu og gera það að verkum að ungt fólk á erfiðara með að festa kaup á sinni fyrstu fasteign. Það hefði hæglega verið hægt að koma í veg fyrir lóðaskort og þær hækkanir á fasteignaverði sem af hlutust.“

Anna Hrefna Ingimundardóttir, fyrrverandi forstöðumaður efnahagssviðs SA: „Það átakanlega við þessa stöðu er að vel væri hægt að byggja meira, hraðar og hagkvæmar...Í meginatriðum skýrist framboðsskorturinn af langvarandi undirliggjandi kerfisvanda.“

Hannes Steindórsson, formaður Félags íslenskra fasteignasala: „Það er lóðaskortur. Það þarf að breyta því strax.“

Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita fasteignafélags, telur ámælisvert að ekki sé settur meiri kraftur í afgreiðslu skipulagstillagna svo að hægt sé að bregðast við verulegri vöntun á íbúðarhúsnæði. Þetta kom fram í ávarpi Þórarins á aðalfundi Reita. „Það er mikið áhyggjuefni hversu sein viðbrögð þeirra eru sem fara með ákvarðanir um skipulags- og byggingarmál. Á tímum þar sem fyrir liggur að veruleg vöntun er á íbúðarhúsnæði er ámælisvert að ekki sé settur meiri kraftur í afgreiðslu skipulagstillagna svo hefja megi uppbyggingu,“ sagði Þórarinn.

Hér hafa verið tínd til nokkur dæmi úr umræðunni sem öll þó sýna vandann. En til eru þeir sem líta út um gluggann til að sjá hvernig veðrið er aðrir horfa á skjá til að vita hvernig viðrar þá stundina. Getur verið að þeir sem tala um skort á landrými horfi ekki í kring um sig og hafi ekki fengið sér bíltúr nýlega innan bæjarmarka Reykjavíkur?