c

Pistlar:

10. júlí 2022 kl. 11:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Undir portúgalskri sól

Það er allt í ólestri í efnahagsmálunum en Portúgal er gott land, sagði glaðbeittur leiðsögumaður í vínsmökkunarferð um húsakynni og akra Bacalhôa víngerðarhússins sem statt er mitt á milli Lissabon og Setbúal í Portúgal. Fyrirtækið teygir sig um víðfema akra og státar af sögulega áhugaverðum húsakynnum. Kynningin var því tengd sögu landsins og héraðsins í aðra röndina en nútíminn hefur stækkað þetta gamla víngerðarhús svo mjög að framleiðslugetan núna nemur um 20 milljónum lítra á ári og notast það við vínekrur um allt Portúgal. Reksturinn er nú nútímalegur með tilstyrk alþjóðlegra fjárfesta, kannski saga nútímarekstrar þar sem krafa um hagræðingu, gæðastaðla og alþjóðlegt markastarf taka yfir hina rómatísku umgjörð vínræktarbóndans. Í dag býður Bacalhôa upp á mörg gæðavín en skemmtilegast var að kynnst múskatvínum þeirra sem eru ljúffeng eftirréttarvín. Gott ef nokkrar flöskur slæddust ekki með heim.porto1

Land faðmlagsins

Portúgal er um margt merkilegt land. Landfræðilega er það á jaðri Evrópu, inniheldur vestasta odda meginlandsins, land sæfarenda, landkönnuða og síðar nýlenduherra en á sér stutta lýðræðissögu. Landið hefur notið þess að sumu leyti að vera jaðarland innan Evrópusambandsins sem hefur gert það að verkum að ýmsir innviðir hafa verið byggðir upp þó að efnahagur landsins sé fremur slakur eins og leiðsögumaðurinn benti á. Það breytti því ekki að landið er gott heim að sækja og íbúarnir vinalegir. Stundum er spurt um muninn á Portúgölum og Spánverjum og þá benda menn gjarnan á tónlist landanna til viðmiðunar. Annars vegar er hin taktfasta og djarfa flamencó-tónlist Spánverja þar sem tilfinningarnar flæða en svo er það hin mjúka fado-tónlist Portúgala sem er tónlist faðmlagsins fremur en útréttir armar eins og í flamencó. Hin portúgalski Salvador Sobral sigraði í Eurovision í Kænugarði fyrir nokkrum misserum með líku framlagi.

Vinsæld sumardvalarstaður

Um áratugaskeið hefur Portúgal verið vinsæll áfangastaður ferðamanna, bæði af hálfu Íslendinga og annarra. Sumardvalarsvæði Algarve hefur sinn sjarma en dregur dám af uppbyggingu slíkra svæða sem snúast um að þjónusta hvíldarþurfandi fólk í öruggu, skipulegu en oft heldur einsleitu umhverfi. Ríflega 10 milljónir manna búa í Portúgal, svona rétt eins margir og í Svíþjóð. Höfuðborgin Lissabon er talin ein elsta höfuðborg Evrópu og telur hátt í þrjár milljónir íbúa á höfuðborgarsvæðinu þó innan þrengri marka höfuðborgarinnar séu ekki nema um 700 þúsund íbúa.portugal 2

Miklar samgöngubætur hafa verið gerðar en mest munar um gríðarstóra 17 km langa brú sem tengir Lissabon við suðrið en hún kemur sem viðbót við eldri brú nær hafinu. Flugvöllurinn í Lissabon er í einu úthverfa hennar og þaðan var brunað 45 kílómetra í suður við lendingu og gist í Setubal. Flogið var með flugfélaginu Play sem eykur nú tækifæri Íslendinga til að heimsækja landið með því að fljúga tvisvar í viku til Lissabon. Þjónusta Play reyndist góð og verður spennandi að sjá hvaða framhald verður á þessu flugi. Í næsta pistli verður fjallað nánar um Portúgal og fiskimannabæinn Setubal sem var áfangastaðurinn að þessu sinni.