c

Pistlar:

11. júlí 2022 kl. 21:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sardínubærinn Setúbal í Portúgal

Um fimmtíu kílómetra fyrir sunnan Lissabon, höfuðborg Portúgals, má finna bæinn Setúbal sem á sér langa sögu sem útgerðar- og fiskimannabær. Einkum sóttu sjómenn þaðan sardínur út á miðin fyrir utan en fiskuðu hana einnig þegar hún sótti inn í mikinn flóa sem bærinn stendur við.setu2

Sardína var gríðarlega mikilvægur fiskur langt frameftir síðustu öld. Hún veiddist í Miðjarðarhafinu út af ströndum Spánar, Portúgals og Marokkó og komst stundum alla leið norður að Bretlandseyjum. Hún óð í torfum út af Portúgal og á meira en 300 mílna strandlengju landsins voru yfir 60 þúsund fiskimenn, sem stunduðu sardínuveiðar, þegar mest var. Árið 1938 mun Portúgal hafa flutt út meira af sardínum en nokkurt annað land í heiminum eða um 50 þúsund tonn, þrefalt það magn sem Spánn flutti út sem var í öðru sæti útflutningsríkja. Minnismerkið hér til hliðar vísar í þessa sögu þó það sé heldur spaugilegt.sardí

Sardínuveiðarnar við Portúgal hafa því verið þýðingarmikill atvinnuvegur í meira en átta hundruð ár. Aðalveiðistöðvarnar voru lengst af Matosinhos, Nazaré, Peniche, Lishon, Setúbal og Lagos. Þó voru um fimmlán fleiri þorp og borgir, þar sem aðalatvinnuvegurinn er sardínuveiðar. Óvist er um uppruna veiðanna en þó virðist ljóst, að þær má rekja til Fönikíumanna, Grikkja og jafnvel Araba, sem komu siglandi yfir Miðjarðarhafið og settust að á strönd Atlantshafsins fyrr á öldum. Þessir fiskimenn héldu lengi siðum sínum og venjum. Um veiðarnar giltu lengst af svo gömul lög, að menn vissu ekki, hvenær þau voru sett, eða allt þar til sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins tók við.

Á stærð við Reykjavík

Setúbal er bær á stærð við Reykjavík og gæti í fyrstu virkað heldur syfjulegur en hefur undanfarið lagt aukna áherslu á ferðamennsku. Hótel eru ekki mörg í bænum og þar er engin stórhótel að finna eins og við þekkjum af suðrænum ferðamannastöðum. Enn er því til þess að gera fátt um ferðamenn en heimamenn sækja staðinn sem státar af fallegri strandlengju. Þar má meira að segja sjá götu kennda við knattspyrnustjórann skapgóða José Mário dos Santos Félix Mourinho sem er einn af þekktari sonum bæjarins. Þarna við ströndina er fjörugt mannlíf, veitingastaðir sem bjóða upp á fjölbreytta fiskrétti og skemmtistaðir. Ströndin er ekki stór en þéttsetin af heimamönnum um helgar.

Það er reyndar svo að til þessa hefur ferðamannauppbyggingin þarna við Setúbal-flóann aðallega verið við Troia-ströndina sem státar af hvítri, mjúk sandströnd en hún umlykur tanga, sem liggur norðanvert við Setúbal-flóann, beint á móti Setúbal og gengur bílferja þar reglulega á milli. Troia var byggð upp sérstaklega með þarfir ferðamanna í huga og þar má meðal annars finna spilavíti hafi menn áhuga á því. Kynnisferðir buðu Íslendingum upp á ferðir þangað fyrir 40 árum þannig að hugsanlega eiga einhverjir ferðaminningar þaðan. Þessar ferðir lögðust af og í dag verður fólk að koma sér á svæðið á eigin vegum.setu4

Gamli bærinn lifnar við

En Setúbal er ekki hönnuð borg og skipulag og götumynd eru mótuð af lífrænni uppbyggingu fiskimannasamfélagsins. Gamli bærinn er þéttur, hús við hús og í mismunandi ástandi. Þetta er fjörleg götumynd, litagleði mikil og augljóslega er talsvert uppbyggingastaf þarna í gangi en mörg hús þarfnast sárlega viðgerða og jafnvel endurbyggingar. Yfirvöld leggja áherslu á að byggja gamla bæinn upp og í honum felast mikil menningarverðmæti eins og við þekkjum úr hugmyndafræði verndarsvæða í byggð sem hafa verið innleidd hér við góðan orðstý. Margt á miðbæjarsvæðinu er nú þegar lagfært og verður mikill sómi að því.

Engin háhýsi

Það er erfitt að átta sig á að Setúbal sé með líkan íbúafjölda og Reykjavík, gatnakerfið er sem gefur að skilja mótað af eldri byggðinni og samgöngur byggjast á strætó sem gengur nokkuð títt um helstu götur og svo eiga allir bíla og það frekar gamla. Ekki varð maður mikið var við reiðhjólafólk enda á brattan að sækja þegar miðbænum sleppir. Engin háhýsi eru í bænum, mest sjö til átta hæða blokkir sem teygja sig upp hlíðarnar. Yfir öllu gnæfir São Filipe de Setúbal-virkið, einnig nefnt São Filipe-kastalinn eða São Filipe-virkið. Virkið var byggt að skipun Filippusar II sem var viðstaddur lagningu hornsteins varnargarðsins árið 1582. Virkið stendur í yfirburðastöðu á hægri bakka mynni Sado flóans með útsýni yfir miðbæ Setúbal til austurs. Þar vöktuðu menn aðallega árásir sjóræningja.setu3

Varnargarðurinn á strandlengjunni í kringum Setúbal nær aftur til 14. aldar og var ætlunin að varna aðkomu að bænum. Á valdatíma John konungs III á fyrri hluta 16. aldar voru uppi áætlanir um að auka varnir Setúbals með byggingu kastala, en fjárhagserfiðleikarnir sem krúnan stóð frammi fyrir á þeim tíma gerðu þetta ómögulegt. Virkið skemmdist í stóra jarðskjálftanum 1755 en hann lagði Lissabon nánast í rúst.