c

Pistlar:

31. ágúst 2022 kl. 21:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóðin í Pakistan og fólksfjöldaþróun

Pakistan er fimmta fjölmennasta ríki heims með ríflega 240 milljónir íbúa í landi sem er tæplega níu sinnum stærra en Ísland. Þaðan hafa verið fluttar tíðar fréttir að undanförnu vegna mikilla flóða sem hafa sett líf milljóna manna úr skorðum og þegar valdið miklu manntjóni og eignaspjöllum. Þetta eru erfiðir dagar fyrir Pakistani og þangað snýr alþjóðasamfélagið athygli sinni um þessar mundir. Meðal annars vegna þess að landið er talið fórnarlamb loftslagsbreytinga, nánast eins og kanarífuglinn í kolanámunni. Þar er sagt að áhrifin af hinum manngerðu loftslagsbreytingum birtist skýrast og sérstakur loftslagsmálaráðherra Pakistans, Sherry Rehman, talar auðvitað hæst um það. Getur hún sagt annað, skýrir slíkur ráðherra ekki allt með tilliti til loftslagsbreytinga? Aðrir leiðtogar, svo sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna, taka undir þann málflutning og tala um monsúnúrkomu á sterum. Allt vekur þetta eðlilega athygli en lítum á nokkrar þær breytingar sem hafa orðið á staðháttum í Pakistan síðustu áratugi.flóð

Gríðarleg fjölgun

Fáum þjóðum hefur fjölgað hraðar síðustu hálfa öld eða svo. Fyrir um 70 árum eða árið 1951 var talið að 33 milljónir manna lifðu í Pakistan en þjóðinni var þá farið að fjölga mjög hratt. Árið 1960, þegar pistlaskrifari fæddist, voru 44 milljónir íbúa í landinu en um síðustu aldamót voru Pakistanar orðnir um 135 milljónir talsins. Síðan hefur bæst við um 100 milljónir manna og landsmenn eru í dag um 240 milljónir og eru næst fjölmennasta múslimaþjóð heims, aðeins Indónesía er fjölmennari. Þessi fjölgun hefur gert Pakistan að stórveldi á sinn hátt og félagið ræður yfir kjarnorkuvopnum. Þessu til viðbótar bera Pakistanar (eða í það minnsta pakistanskir vísindamenn) ábyrgð á að að Norður-Kórea ræður yfir slíkum vopnum auk þess sem þeir reyndu að styðja við kjarnorkuvopnaáætlun Írana. Deilt er um hve mikið pakistönsk stjórnvöld stóðu á bak við það.

Þokkalegur hagvöxtur hefur verið í Pakistan þessi ár en eins og bent hefur verið á í pistli hér áður hefur Bangladess, sem eitt sinn var kallað Austur-Pakistan, farið framúr Pakistan í landframleiðslu á mann. Voru það allmikil tíðindi þar sem Bangladess var eitt fátækasta land heims og varð gjarnan fyrir miklum búsifjum vegna flóða og hungursneiða. Þeir urðu meira að segja að heyja frelsisstríð við Pakistan sem var athyglisvert á sinn hátt þar sem Indland var mitt á milli landanna. Öll þessi lönd tilheyrðu Indlandi á meðan Bretar deildu þar og drottnuðu.

Manntjón fyrir tíma loftslagsvandans

Bangladess er kallað fljótalandið og það stendur á frjósömum árósum þar sem stórfljótin Gange, Brahmaputra og Meghna renna saman. Flóð valda vandræðum árlega á monsúntímabilinu og vegna fátæktar er stór hluti íbúa berskjaldaður fyrir náttúruhamförum eins og fellibyljum. Talið er að á milli 300.000 til 500.000 manns hafi farist í gríðarlegum flóðum í Bangladess árið 1970 þegar öflugur fellibylur, sem náði stærðinni 5 um tíma, gekk yfir svæðið. Það var áður en loftslagsvandinn var skrifaður fyrir öllum frávikum í náttúrunni en manntjón vegna fellibylja ná eins langt aftur og menn muna á þessum svæðum.

En hin gríðarlegi mannfjöldavöxtur í Pakistan hefur sett nýjar áskoranir á stjórnvöld, einfaldlega vegna þess að allt þetta fólk verður að búa einhversstaðar. Ef miðað er við ártalið fyrir 70 árum hefur þurft að koma um 200 milljónum nýrra Pakistana fyrir í landinu. Lætur nærri að þeir búi 80 sinnum þéttar en Íslendingar. Það hefur lagt mikið álag á lífríki landsins auk þess sem fólk hefur freistast til að byggja á ótraustum stöðum, stöðum þar sem eldra fólkið vissi að skriður féllu eða flóð kæmu með einhverju árabili. Þannig erum við komin til nútímans. Dreifbýlt land hefur breyst í þéttbýli án þess að gæta að öryggi íbúanna og þannig verður það viðkvæmara fyrir veðurbreytingum, hvort sem það eru flóð eða þurrkar.flod

Votviðrasömustu staðir jarða

Mánaðarúrkoman yfir monsúntímabilið nemur oft á tíðum um 1500 til 2000 mm á þessum landsvæðum. Þetta eru að auki votviðrasömustu staðir jarðar, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á síðu sína, sem er líka merkilegt í því ljósi að nánast öll ársúrkoman fellur á um 5 mánuðum. Samkvæmt BBC frá því í gær hafa fallið um 1300 mm af regni það sem af er ágúst. Gríðarleg flóð urðu í Pakistan í ágúst og september 2011 en þá nefndi engin loftslagsmál sem ástæðu.

Umfangsmiklar vatnamælingar sem pistlahöfundur sló upp sýndu að frá 1981 til 2016 birtist þróun í rennsli sem var niður á við á flestum undirvatnasvæðum (sub-basins) Pakistans, þar á meðal vatnasviðum Jhelum, Indus og Kabúl. Á öðrum svæðum mátti greina aukið rennsli en til að gera langa sögu stutta þá ýmist jókst eða minnkaði rennsli. Eðli málsins samkvæmt birtust þurrkatímabil í svipaðri röð. Allt þetta minnir okkur á að að breytingar eru hið náttúrlega ástand jarðarinnar.flóð

Að lokum má rifja upp að samkvæmt upplýsingum frá danska tölfræðingnum og vísindamanninum Bjorn Lomborg þá kosta flóð í einungis einn tíunda þess sem þau kostuðu fyrir 100 árum, sé mælt í landsframleiðslu. Tölurnar sem hann vísar til ná til Bandaríkjanna en ekki er óeðlilegt að halda að þær geti átt við víðar. Allt þetta kallar á að haldið sé áfram að skoða, mæla og rannsaka umhverfi mannsins enda tekur það sífeldum breytingum.