c

Pistlar:

9. janúar 2023 kl. 17:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að skrifa sögu hrunsins - önnur grein

Sem gefur að skilja hefur tíminn eftir bankahrunið verið fyrirferðamikill í hrunbókmenntum samtímans enda ekki síður átakamikill en tíminn fyrir hrunið eins og fjallað verður um í þessari annari grein um bækurnar sem skráð hafa sögu hrunsins. Þar gætir margra grasa en greinarhöfundur hefur átt framlag í merkilegum bókaflokki sem Almenna bókafélagið hefur haldið út um atburðarásina eftir hrun og telur nú fimm bækur.icesboka

Bók mín Icesave-samningarnir - Afleikur aldarinnar kom út árið 2010 en hún fjallaði um Svavars-samninginn og átökin um þessa erfiðustu milliríkjadeilu sem Íslendingar hafa lent í. Bókin byggir á viðtölum og skriflegum heimildum í bland. Sama átti við um bók mína Afnám haftanna - samningar aldarinnar frá árinu 2020 þar sem sjónum var beint að uppgjöri við kröfuhafa gömlu bankanna en segja má að það hafi markað lok hins efnahagslega þáttar hrunsins meðal annars þá staðreynd að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat það svo, að ríkissjóður hefði hagnast um 9% af landsframleiðslu á því að hafa tekið bankana til sín.

En aftur að bókaflokki Almenna bókafélagsins. Árið 2012 kom út bókin Búsáhaldabyltingin eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing og blaðamann sem beindi sjónum að því hvað gerðist í ofbeldisþrungnu andrúmslofti veturinn 2008/2009 þegar lögreglan glímdi við mótmælendur. Frásagnir þar voru sláandi og ættu að fá nýja skoðun í ljósi nýlegra árása á þinghús og stjórnarbyggingar í öðrum lýðræðisríkjum, eins og Bandaríkjunum og Brasilíu.

Um misbeitingu valds

Eggert Skúlason fréttamaður skrifaði Andersen skjölin - Rannsóknir eða ofsóknir? sem kom út árið 2015 og fjallaði um það furðulega ástand sem ríkti hjá Fjármálaeftirlitinu undir stjórn Gunnars Andersens sem hrökklaðist þaðan eftir að hafa orðið uppvís að alvarlegri misbeitingu valds. Af sama toga er frásögn Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings og sjónvarpsmanns í bók hans, Gjaldeyriseftirlitið - Vald án eftirlits, sem kom út 2016. Þar er rakin allsérstök stjórnsýsla sem fór fram innan veggja Seðlabanka Íslands þar sem gjaldeyriseftirlit bankans lék lausum hala. Báðar þessar bækur gagnrýna harðlega meðhöndlun opinbers valds og áttu því ekki upp á pallborðið hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins.

Í þennan flokk má líka setja nýja bók dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors. Landsdómsmálið - stjórnmálarefjar og lagaklækir þar sem hann gerir upp málareksturinn yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hannes hefur víða leitað fanga og styðst meðal annars við fjölmörg viðtöl sem hann tók vegna bókarinnar.bylting

Þá er vert að vekja athygli á bók Björn Jón Bragason, Bylting - og hvað svo? sem kom út 2015. Bókin hverfist um stjórnarskiptin 1. febrúar 2009 og í bókinni koma fram margvíslegar upplýsingar um aðdraganda þeirra og greint er frá örlagaríkum atburðum sem fylgdu í kjölfarið. Um bók Björns má segja það sama og um bók Hannesar, hann leitar víða fanga og styðst meðal annars við fjölmörg viðtöl sem hann tók vegna bókarinnar.

Ævisögur í skugga bankahrunsins

Sem hefur að skilja hafa allmargar ævisögur sem komið hafa út eftir bankahrunið fjallað að veru leyti um atburðarásina í kringum það. Segja má að Ármann Þorvaldsson bankastjóri hafi riðið nokkuð óvænt riðið á vaðið með bók sinni Ævintýraeyjan - uppgangur og endalok fjármálaveldis, árið 2009 en það var fjörlega skrifuð bók úr hringiðu atburðanna fyrir hrun. Bókin kom út á ensku undir heitinu Frozen Assets: How I Lived Iceland's Boom and Bust.

Ævisaga Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar kom út árið 2010, skráð af Þórhalli Jósepssyni fréttamanni Ríkisútvarpsins, sem galt fyrir skrifin með starfi sínu. Sama ár kom Stormurinn. Reynslusaga ráðherra út eftir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Annar fréttamaður Ríkisútvarpsins, Björn Þór Sigbjörnsson, skráði ævisögu Steingríms J. Sigfússonar, Steingrímur J – Frá Hruni og heim, sem kom út 2013. Björn Þór missti ekki starfið og starfar enn á Ríkisútvarpinu. Tveir þeirra sem stóðu að Borgarahreyfingunni í fyrstu kosningum eftir hrun gáfu út bækur er tengdust atburðarásinni. Margrét Tryggvadóttir fyrst Útistöður árið 2014 og Þór Saari, kverið Hvað er eiginlega að þessu Alþingi árið 2016. Hvorug bókin náði mikilli athygli.málsvörn

Hennar tími kom!

Flestar ævisögur stjórnmálamanna sem lifðu bankahrunið mótast af þeim tíma. Það á við um bókina Minn tímisaga Jóhönnu Sigurðardóttur skráð af Páli Valssyni bókmenntafræðingi sem kom út árið 2017 og bókina Halldór Ásgrímsson: ævisaga skráð af Guðjóni Friðrikssyni sem kom út árið 2019. Árin fyrir bankahrunið eru fyrirferðamikil í báðum bókunum. Árið 2021 kom síðan út bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skráð af Einari Kárasyni rithöfundi sem fjallað var um hér. Fáir eða engir voru meira áberandi en Jón Ásgeir í aðdraganda hrunsins og því að margra dómi viðeigandi að kalla bókina málsvörn.bokadlarus

Þá er ógetið nokkurra bóka svo sem Ár drekans eftir Össur Skarphéðinsson sem sat í „hrunstjórninni” og svo vinstri stjórninni sem tók við. Einnig bókina Í víglínu íslenskra fjármála, eftir norskan seðlabankastjóra okkar Íslendinga, Svein Harald Øygard, sem kom út á íslensku árið 2019 og bók Lárusar Weldings, Uppgjör bankamanns, sem kom út fyrir síðustu jól og hefur verið ritdæmd hér í pistli. Bók Lárusar hefur vakið talsverða athygli enda sögð frá sjónarhóli bankamanns sem hefur varið stærstum hluta ævi sinnar eftir hrun í dómsölum.

Upphaflega var ætlunin að skrifa þessa samantekt í tveimur hlutum en vegna ábendinga um bækur sem ættu þarna erindi var ákveðið að hafa þetta þrjár greinar.