c

Pistlar:

29. mars 2024 kl. 13:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hælisleitendur úr fjarlægu sólkerfi

Undanfarið hefur þáttaröðin Vandkvæði himintunglanna (sem er dálítið frjálsleg þýðing á ensku samsetningunni The Three-Body Problem) verið til sýnis á Netflix streymisveitunni og hefur notið mikilla vinsælda. Þættirnir byggja á sögu eftir kínverska verkfræðinginn og vísindaskáldsagnahöfundinn Liu Cixin og er fyrsta sagan í Remembrance of Earth's Past þríleiknum. Þættirnir lýsa atburðarás þar sem jarðarbúast dragast inn í samskipti við framandi siðmenningu úr nálægu stjörnukerfi. Þar háttar svo til að kerfi þriggja sóllíkra stjarna eru á braut hver um annað, sem mun vera dæmigert um „þriggja líkama vandamálið“ í sporbrautafræðum. Þessi fjarlæga siðmenning glímir við óyfirstíganleg vandamál vegna samspils stjarnanna þriggja og grípur tækifærið fegins hendi þegar skilaboð berast frá jörðinni með boði um að koma í heimsókn. Fer þá af stað atburðarás sem að sumu leyti var séð fyrir og að öðru leyti ekki.Skjámynd 2024-03-29 131748

Meginspurning er þó, hvernig eiga íbúar jarðarinnar að taka við þessum fjarlægu verum og hvers er að vænta frá þeim? Augljóslega eru geimverurnar mun þróaðri en jarðarbúar sem fljótlega skiptast í fylgjendur við hina nýju „vini“ og andstæðinga þess að eiga nokkur samskipti við þá. Enginn fær þess dulið að koma þeirra til jarðarinnar verður ekki ekki umflúin en tækifæri gefst til að undirbúa sig því fjarlægðin er mikil og það tekur þá um 450 ár að koma sér til jarðarinnar en þeir koma frá plánetunni Trisolaris í Alpha Centauri stjörnuþokunni. Þeir herskáustu á jörðinni vilja setja alla orku og fjármuni jarðar í að undirbúa stríð við þessa hælisleitendur úr fjarlægu sólkerfi á meðan aðrir falla í trans og hefja tilbeiðslu hinna nýju komandi herra.vandi

Inngilding geimvera

Sagan hefur margar hliðar en mjög sterkan tilvistarlegan grunn sem lýtur að spurningum um þróun og tilverurétt mannkynsins á eigin plánetu og hve ólíkum augum jarðarbúar nú þegar sjá vandamálin sem við er að glíma. Það kemur kannski ekki á óvart að þeir sem mest gagnrýna núverandi þróun mála á jörðinni, svo sem umhverfissinnar, eru hlynntir því að fá utanaðkomandi „aðstoð“. Aðrir sem þekkja söguna vita að þessi aðstoð verður dýru verði keypt. Þess finnast varla dæmi að yfirtaka eða nýlenduvæðing hafi annað en slæm áhrif á þá sem fyrir verða. Nánast sama hve móttökurnar eru góðar eða inngildingin vinsamleg. Að þessu leyti finnst mörgum eins og mannkynið sé dæmt til að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur. Þegar heimsóknin kemur utan að verða mistökin varla endurtekin. Endalok mannkynsins blasa við. Pistlaskrifari hefur áður velt fyrir sér efasemdum þess að láta alheiminn vita af tilvist jarðarinnar eins og sumum hefur þótt áhugavert.

Smáþjóð meðal þjóða

En þættirnir minna okkur á það að lokum hljótum við að spyrja okkur hvaða í raun sameinar okkur sem jarðarbúa, þjóð eða hluta af kynþætti vilji menn horfa þannig á málin. Vísindaskáldskapurinn nýtur ákveðins frelsis því hann getur smíðað tilveruna nokkurn veginn að eigin vild. Skapað fortíð, nútíð og framtíð á staðnum. Þess utan sjá flestir tilveruna ólíkum augum. Hugsanlega má ganga í smiðju rithöfundarins Milan Kundera sem árið 1983 veltir meðal annars fyrir sér fyrirbærinu smáþjóð með vísun í hvað afmarkar hana og tryggir varðveislu hennar. Hér er stuðst við þýðingu Friðriks Rafnssonar sem mest hefur kynnt hugmyndir Kundera fyrir Íslendingum: „En hvað er smáþjóð,“ spyr Kundera og heldur áfram. „Ég legg hér til mína eigin tillögu: smáþjóð er sú þjóð sem er hvenær sem er hægt að efast um að sé til, sem getur horfið og hún gerir sér fulla grein fyrir því. Frakkar, Rússar eða Englendingar eru ekki vanir að velta fyrir sé hvort þjóð þeirra muni lifa af. Þjóðsöngvar þeirra fjalla ekki um neitt annað en að þær séu miklar og eilífar. En þjóðsöngur Pólverja hefst með línunni: „Pólland er ekki glatað enn…“Skjámynd 2024-03-29 132013

Kundera er Mið-Evrópu maður en þar eru smáþjóðir í braut stórveldanna og mega sín oft lítils. Hann segir Mið-Evrópu vera stað þar sem smáþjóðir hafa eigin sýn á heiminn, sýn sem einkennist af djúpstæðum efasemdum í garð mannkynssögunnar og hvernig hún hefur leikið þær. „Mannkynssagan, þessi gyðja Hegels og Marx, holdgervingur skynsemishyggjunnar sem dæmir okkur, vegur og metur, hún er saga sigurvegaranna. En þær þjóðir sem búa í Mið-Evrópu eru ekki sigurvegarar. Þær eru óaðskiljanlegur hluti af sögu Evrópu, þær gætu ekki verið til án hennar, en þær eru ekkert annað en ranghverfan á þessari sögu, fórnarlömb hennar og utangarðsfólk. Það er til þessarar sögulegu reynslu sem rekja má uppsprettu frumleika menningar þeirra, visku, „alvöruleysi“ er að finna, enda gefa þær lítið fyrir mikilleika og dýrð, sjá í gegnum þetta. „Gleymum ekki að einungis með því að standa gegn mannkynssögunni getum við staðið gegn samtíma okkar.“ Ég myndi vilja letra þessa setningu Witolds Gombrowicz á innganginn í Mið-Evrópu.“

Hraktir úr paradís

Kundera segir að þess vegna hafi verið auðveldara að greina þetta landssvæði sem byggt er smáþjóðum sem eru „ekki glataðar enn“, og bætir við: „Varnarleysi Evrópu, allrar Evrópu, sást enn betur og fyrr en annars staðar. Það er nefnilega svo að í samtíma okkar þar sem valdið hefur tilhneigingu til að safnast æ meira á hendur nokkurra stórþjóða, þá eiga allar Evrópuþjóðirnar á hættu að verða smáþjóðir og lúta sömu örlögum og þær. Í þessari merkingu virðast örlög Mið-Evrópu vera forboði örlaga Evrópu sem slíkrar og þar af leiðandi beinist athygli manna enn meira að henni.“

Landafundirnir á sínum tíma byggðu á yfirtöku aðkomumanna á þeim sem fyrir voru, rétt eins og má segja um þjóðflutninga fyrri tíma. Fámennar eyþjóðir í Kyrrahafinu bjuggu í því sem aðkomumenn töldu vera paradís. Þeir gátu hins vegar ekki deilt þeirri paradís með frumbyggjunum og ýmist drápu þá eða hröktu á brott. Áðurnefndur Hegel taldi sögu mannsins vera sögu framvindu frelsis í heiminum en það er tvímælalaust hugmynd sem gengur upp innan sögu okkar Vesturlandabúa. Hugsanlega breytist það viðhorf þegar nýir stjórnendur taka yfir sem gæti verið söguleg niðurstaða, hvort sem við sækjum hana í vísindaskáldskap eða veruleikann.