c

Pistlar:

3. nóvember 2022 kl. 20:44

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Við þurfum að læra af öðrum!

Ræða Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja á sjávarútvegsdeginum hefur verið mér nokkuð hugleikin. Sérstaklega orð hans um að ferskur fiskur frá Íslandi sé nánast horfin úr hillum stórmarkaða. Og einnig sú staðreynd að stórfyrirtækið TESCO ákvað á einni nóttu að breyta vöruframboði sínu þannig að ferskur fiskur var tekinn úr hillum og þiðnuðum fiski komið fyrir í staðinn.

Sú var tíðin að íslenskur ferskur fiskur var mesta hnossgæti sem boðið var uppá. Nú er öldin önnur, norskur eldislax er seldur á umtalsvert hærra verði auk þess sem sami lax hefur svo gott sem rutt íslenskri ferskri gæðaframleiðslu úr sjónmáli neytenda með aðstoð frá þiðnuðum fiski frá Noregi og Rússlandi. Þetta er hættuleg þróun.

En af hverju er svona komið fyrir okkur? Helsta ástæðan er að íslenskir útflytjendur hafa ekki staðið nægilega vel að markaðsmálum fyrir afurðir sínar. Afleiðingin er að neytandinn gerir í huga sínum ekki greinarmun á hvort hann er að kaupa ferska gæða afurð eða þiðinn fisk.

Sigurður Már Jónsson blaðamaður spyr í pistli á mbl.is Verður íslenski fiskurinn á pari við lambakjötið? Þetta er spurning sem mikilvægt er að velta fyrir sér. Hættan á því að markaðir fyrir ferskan ófrosinn fisk hverfi eru ekki miklir. En fallandi eftirspurn hefur veruleg áhrif á verðmyndun og það er mögulega ekki svo fjarlægt að staðkvæmdar fiskur, unninn á láglauna svæði heimsins gæti þrýst verði fyrir afurðir okkar verulega niður. Svo langt niður að vinnsla afurða hér yrði ósjálfbær.

Ég þreytist ekki á að tala um hvað Norðmenn gerðu fyrir ríflega 30 árum þegar þeir stofnuðu NSC (Norwegian Seafood Council) á norsku (Norsk Sjømatråd) og fjármögnuðu verkefnið með lágu gjaldi ofan á allan útflutning sjávarafurða frá landinu og upptöku á slagorðinu „Seafood from Norway“

 

NSC er með mjög skýr markmið eins og t.d. að auka verðmæti norskra sjávaraafurða með markaðs rannsóknum, markaðs þróun, markaðs áhættugreiningu, orðspors áhættugreiningu og mjög markvissri miðaðri markaðsfærslu.  Þeir reka skrifstofur í 13 löndum sem greina markaði í 27 löndum um allan heim. Tilgangurinn er að leita uppi tækifæri fyrir bæði nýjar og eldri afurðir.

Verkefnið er skýrt, auka vitund í huga neytenda og koma norskum fisk í forgang í valsetti neytandans.  Þetta er gert með markaðsgreiningu á tölulegar upplýsingar úr greininni ásamt markaðsrannsóknum sem beinast að neytendum á skilgreindum svæðum.

Norðmenn beita akademískum aðferðum í mörgum af þessum rannsóknum sínum. Oft má finna birtar vísindagreinar í ritrýndum tímaritum sem varpa ljósi á hvaða rannsóknum þeir eru að taka þátt í og hvernig þeir hyggjast nýta þessa vinnu. Það er aðdáunarvert hvað samstarf þeirra við háskólasamfélagið er mikið.

Til gamans er hér slóð á meistara ritgerð frá Nord Háskólanum í Þrándheimi sem er greining á samkeppnisforskoti norsks eldislax á markaði í Evrópu. Þetta er bara ein ritgerð af miklum fjölda þar sem kerfisbundið er verið að meta markaði fyrir norskan lax. En svona athuganir og greiningar eru til um nánast allt norskt sjávarfang.

Nú gæti einhver spurt. Hvað erum við Íslendingar að gera? Svarið við því er frekar lítið. Nokkur fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi og tengdum greinum hafa sett á fót sjálfseignarstofnun sem heitir „Seafood from Iceland“ og hefur þann tilgang að halda úti upprunamerki undir sama heiti fyrir íslenskar sjávarafurðir á lykilmörkuðum erlendis. Verkefnið er á forræði Íslandsstofu. En upprunamerki eitt og sér gerir ekki neitt ef ekki er unnið skipulega með það. Það er enginn að horfa á stóru myndina. Framleiðendur eru að reyna að ná þokkalegum sölusamningum og enginn þeirra með getu til að vinna þetta markvisst eða tala til neytenda á þessum mörkuðum.

Unknown-1Við þurfum að tala við og kveikja áhuga neytenda á þessum mörkuðum á framleiðslu okkar. Annars búum við sífellt við þá hættu að staðkvæmdarvörum verði komið til neytenda, í stað þeirrar vöru sem við bjóðum líkt og gerðist í TESCO. Við erum 30 árum á eftir Norðmönnum og enn ekki búin að sameina allan þennan iðnað undir einu upprunamerki. Enn síður erum við búin að fjármagna markvisst markaðsstarf fyrir greinina.  Eitthvað sem sem Norðmenn gerðu fyrir 30 árum.

 

Það er enginn vafi að við Íslendingar erum algerlega í fremstu röð þegar kemur að hátækni- veiðum og vinnslu á sjávarafurðum. En þegar kemur að markaðssetningu á þessum sömu vörum erum við líkari höfuðlausum her. Við drögumst afturúr hratt, svo hratt að það getur skaðað afkomu okkar af þessari auðlind til framtíðar.

 

 

 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur