Hvernig virka stefnuljós?

Stefnuljós geta forðað okkur frá óhöppum. En hvernig virka þau?
Stefnuljós geta forðað okkur frá óhöppum. En hvernig virka þau? mbl.is/Árni Sæberg

Í ónefndu plássi á landsbyggðinni var stundum sagt að þar þyrfti enginn að gefa stefnuljós - það vissu hvort eð er allir hvert maður væri að fara. En fyrir okkur hin eru þau nauðsynleg til að við komumst klakklaust leiðar okkar. En hvernig virka stefnuljós? Hvað er það sem lætur þau blikka?

Þegar við hreyfum stefnuljósastöngina, til að gefa merki um að við ætlum að beygja, sendum við straum annað hvort til hægri eða vinstri stefnuljósa. Þegar opnast fyrir þann straum virkjum við „blikkara“ sem er lítill, hitastýrður straumrofi. Hann er oftast staðsettur í öryggjahólfi bílsins og gjarnan hringlóttur. Og það er hann sem sér um töfrabrögðin.

Þegar straumur fer um blikkarann fer hann í gegnum viðnámsvír sem hitnar mikið. Sá vír hitar málmþynnu eða vír sem lengist við hitann og togar í málmfjöður. Fjöðrin spennist við átakið, miðjan á henni færist og smellur að snertu. Þá er komin ný leið fyrir rafstrauminn að fara og við það logar á stefnuljósunum.

Við þessi nýju tengsl minnkar straumurinn á viðnámsvírnum (rafmagn fer alltaf auðveldustu leið), hann kólnar og fjöðrin gengur til baka og rýfur strauminn. Við það fer álagið aftur á viðnámsvírinn, og sagan endurtekur sig.

Af því að blikkarinn er á undan stefnuljósarofanum í straumrásinni þarf aðeins einn slíkan í hvern bíl. Blikkarinn sendir því „blikkandi“ rafboð í gegnum rofann, sem fer svo í sitthvora áttina eftir því hvort þú ætlar að beygja til hægri eða vinstri.

Hversu hratt gerist þetta svo? Hlustaðu næst þegar þú gefur stefnuljós: „Tikk-takk-tikk-takk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina