Rafbíll fær orku úr pæklinum

Quantino bíllinn frá NanoFlowcell trekkti að á bílasýningunni í Genf.
Quantino bíllinn frá NanoFlowcell trekkti að á bílasýningunni í Genf.

Tæknilegum hindrunum fyrir því að nota saltvatn – pækil – sem aflgjafa í bílum hefur verið rutt úr vegi. Hefur fyrsti bíllinn sem gengur fyrir lágspennu raforku verið skráður. Þar er um að ræða bílinn Quantino sem fyrirtækið Nanoflowcell hefur þróað. Státar hann af því að geta gengið án vetnis.

Í heimi bílsins sitja frumkvöðlafyrirtæki ekki auðum höndum þegar þróun nýrra hugmyndabíla er annars vegar. Leitast þau stöðugt við að finna nýjar og mengunarfríar leiðir til að flytja fólk á milli staða ódýrar en áður.

Fyrirtækið Nanoflowcell er eitt þessara en það var stofnað árið 2013 og er með aðsetur í dvergríkinu Liechtenstein. Er það að hefja reynsluakstur með fyrsta bílinn sem búinn er svonefndri flæðiskilju til framleiðslu rafmagns við efnahvörf í saltvatni. Hefur það smíðað þrenns konar bíla, Quant E, Quant F og Quantino.

Tæknin byggist á því að tvenns konar rafvökva, jónalausnum, er dælt á tvo 159 lítra tanka bílsins, ein tegund á hvorn. Er vökvarnir blandast handan skiljunnar verður til raflausn er leysir frá sér raforku til að knýja bílinn. Er drægi á tankfylli sagt vera allt að eitt þúsund kílómetrar. Hefur þegar tekist að aka Quant-bíl fyrirtækisins í 14 klukkustundir viðstöðulaust án þess að bæta á geymana.

Til eru þeir sem efast um Quantino-bílinn og þá eðlisfræði sem hann er sagður byggjast á. Þannig segir þýska tímaritið Heise Autos að til að geta notað þau 2000 amper í uppgefnum rafstraumi bílsins þurfi vandræðalega svera kapla og að 30 kílóvatta rafgeymirinn væri ónógur til aflþarfar fjögurra rafmótora Quant E-bílsins nema afskaplega stutta vegalengd.

Rafflæðitæknin hefur hins vegar tekið framförum og gerir nú kleift að nota meiri orku en áður. Byggist þessi orkuframleiðsla á tækni sem bandaríska geimferðastofnunin NASA þróaði árið 1970 fyrir geimferjur sínar. Í bíl Nanoflowcell leysir saltvatn aftur á móti vetni af hólmi.

Það er þessari tækni að þakka að hugmyndabíll Nanoflowcell getur geymt fimm sinnum meiri orku en hefðbundnir rafbílar. Vegna lágspennunnar er drægi tankfyllinnar sagt vera 1.000 kílómetrar. Viðbragðið er ekki af verri gerðinni; Quantino nær 100 km/klst ferð úr kyrrstöðu á fimm sekúndum en uppgefinn hámarkshraði er 200 km/klst. Þetta eru ekki amaleg afköst. Verður fróðlegt og spennandi að sjá hvort reynsluaksturinn muni skila þeim árangri að bíllinn teljist eiga fullt erindi í umferðina og fjöldaframleiðsla verði hafin.

agas@mbl.is

Tvenns konar jónalausn er tankað á Quantino, sem dregur 1000 …
Tvenns konar jónalausn er tankað á Quantino, sem dregur 1000 km.
Quantino bíllinn frá NanoFlowcell trekkti að á bílasýningunni í Genf.
Quantino bíllinn frá NanoFlowcell trekkti að á bílasýningunni í Genf.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »