Ferrari með fjölskyldubíl

Ferrari boðar stefnubreytingu með smíði fjölskyldubíla í framtíðinni.
Ferrari boðar stefnubreytingu með smíði fjölskyldubíla í framtíðinni.

Framboð á bílum í jeppaflokkum hefur aukist stórum á undanförnum árum og framleiðendum bíla af því tagi fjölgað líka. Hefur það þótt arðbært að bæta háreistum bílum í módelflóruna.

Sportbílaframleiðendur hafa með fáum undantekningum blandað sér í slaginn í jeppaflokki en þar á virðist breyting í vændum. Síðustu misserin hefur ítalski sportbílasmiðurinn Lamborghini verið að þróa jeppa og stutt er í að fullskapaður Urus sjá dagsins ljós. Allt stefnir í að þar verði um dýrasta raðsmíðaða jeppa sögunnar að ræða.

Víst þykir að Lamborghini eigi eftir að uppskera vel með þessu útspili sínu og meðal annars vegna þeirra spádóma hefur annar annálaður ítalskur sportbílasmiður, enginn annar en Ferrari, ákveðið að feta sömu leið.

Smíði Ferrari jeppa verður það fyrsti fjölskyldubíllinn sem fyrirtækið framleiðir. Sergio Marchionne, forstjóri Fiat segir að af smíðinni verði en á forsendum Ferrari. Hann vildi þó ekki staðhæfa að um jeppa væri endilega að ræða, en fjölskyldubíl þó alltjent.

Áform Ferrari eru ekki komin lengra en á teikniborðið og með öllu óljóst hvenær hann kemur til með að verða smíðaður. Marchionne segir bílinn eiga eftir að bjóða upp á „gagnlegar lausnir“ og auka vöruúrvalið í flokki fjölskyldubíla. Hermt er að hann verði háreistur og sportlegur og með sætispláss fyrir alla fjölskylduna. Þessum bíl til viðbótar er Ferrari sagt munu koma með nokkur módel tvinnbíla frá og með 2019.

Hér er um að ræða algjöra stefnubreytingu hjá Ferrari en áformin eru sögð liður í útþenslu fyrirtækisins. Áætlanir gera ráð fyrir að árlegur rekstrarhagnaður tvöfaldist fram til ársins 2022 og að á annan tug þúsunda bíla renni þá árlega af færiböndum bílsmiðjunnar í Modena á Ítalíu.

mbl.is