Mercedes-Benz styður við förgun eldri dísilbíla á Íslandi

Mercedes GLC.
Mercedes GLC.

Þýski bílsmiðurinn Daimler, eigandi Mercedes-Benz, hefur sett í gang átak sem er ætlað að draga úr mengun. Í því sambandi mun hann styðja förgun gamalla dísilbíla á Íslandi og borga 250.000 króna aukalega fyrir bíla sem tilheyra Euro 1 til Euro 4 mengunarstaðli; allt óháð tegundum, akstri og ásigkomulagi þeirra.

Mercedes-Benz mun bjóða 2.000 evru afslátt af nýjum bíl ef eldri dísilbíll er settur upp í, að því gefnu að hann tilheyri Euro 1 til Euro 4 mengunarstaðal. Með þessu vill fyrirtækið vinna að því að minnka mengun og bendir þýski lúxusbílaframleiðandinn á, að nýir bílar mengi margfalt minna en eldri bílar.

Bílaumboðið Askja, umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, mun taka þátt í þessari herferð til að stuðla að því að eldri og meira mengandi bílar fari fyrr úr umferð. Askja mun bjóða 250.000 kr. niðurgreiðslu af nýjum Mercedesbílum þegar tekinn er upp í dísilbíll sem er í mengunarflokki Euro 1 til Euro 4, sem eru bílar eldri en árgerð 2009 og einstaka bílar árgerð 2010.

Þetta tilboð gildir fyrir nýja Mercedes-Benz fólksbíla sem eru pantaðir fyrir næstu áramót og afhentir fyrir lok mars á næsta ári. Getur nýji bíllinn verið hvort sem er bensín, dísil eða Plug-in Hybrid.

Meðal skilyrða fyrir niðurgreiðslunni er að kaupandinn hafi átt eldri bílinn a.m.k. frá 2. febrúar 2017 . Bílum, sem Askja tekur upp í og tilheyra Euro 1 til Euro 3 staðlinum, skuldbindur Askja sig til að farga þar sem þeir menga margfalt meira en nýir bílar en bílar sem tilheyra Euro 4 fara áfram í endursölu. Þetta er óháð tegundum, akstri og ásigkomulagi viðkomandi bíla, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Átakið gengur út á það að hvetja fólk til að losa sig við eldri dísilbíla með því að setja þá upp í nýjan Mercedes-Benz. Skiptir þá engu máli hverrar tegundar gamli bíllinn er. Þetta er mjög gott tækifæri fyrir fólk að eignast nýjan Mercedes-Benz og aukaniðurgreiðslu upp á 250.000 krónur og losa sig við eldri dísilbílinn. Við viljum með þessu stuðla að því að eldri, og meira mengandi bílar fari fyrr úr umferð," segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

mbl.is