Heimsmet í kleinuhringjum

Hoy við aksturinn óvenjulega.
Hoy við aksturinn óvenjulega.

Breski sportbílasmiðurinn Caterham fagnaði sextíu ára afmæli sínu með óvenjulegu uppátæki sem varði í 60 sekúndur og endaði með heimsmeti.

Jú, fenginn var hjólreiða- og kappakstursmaður, Sir Chris Hoy, til að snúa Caterham Seven bíl í hringi á punktinum en meðal bílaáhugafólks nefnist það að fara í kleinuhringi.

Meðfylgjandi tvö myndskeið eru frá þessum óvenjulega akstri en Sir Chris sneri bílnum um 20 hringi á mínútunni. Venjulegt fólk myndi eflaust svima eftir uppátæki sem þetta. Aksturinn snerist um að fella ekki keiluna sem er í punktmiðjunni. 

Sir Chris Hoy var á sínum tíma ólympíumeistari í hjólreiðum en að þessu sinni ók hann 310 hestafla Caterham Seven 620R sem er afar öflugur  kappakstursbíll. Bíl þennan hannaði kappakstursmaðurinn Colin Chapman og framleiddi fyrst árið 1957. Var hann seldur ósamsettur og gátu eigendur með því að setja hann saman sjálfir haft áhrif á endanlega gerð hans.

Á sínum tíma stofnaði Chapman einnig sportbílafyrirtækið Lotus. 

mbl.is