Ekki láta gabba þig við kaup á notuðum bíl

Mikilvægast af öllu er að gefa sér góðan tíma til …
Mikilvægast af öllu er að gefa sér góðan tíma til að skoða og prófa mbl.is/Golli

Framboðið af notuðum bílum hefur sjaldan verið betra og geta kaupendur því staðið vel að vígi þegar semja þarf um verðið á næsta heimilisbílnum. Því fylgir þó alltaf viss áhætta að kaupa notaðan bíl frekar en nýjan, og aldrei gaman að kaupa köttinn í sekknum.

Ævar Friðriksson er ökukennari og ráðgjafi fyrir bæði FÍB og Bílgreinasambandið, og manna fróðastur þegar kemur að bílakaupum. Hann segir að ýmsu að huga við kaup á notuðum bíl en mest muni um að gefa sér góðan tíma til að skoða úrvalið, vanda sig við leitina að rétta bílnum og prófa bílinn vel áður en gengið er frá kaupunum:

„Það kemur allt of oft fyrir að fólk byrjar að skoða bílasölurnar að morgni dags og þarf alveg endilega að vera búið að kaupa sér bíl fyrir kvöldið. Það þýðir að ekki gefst tími til að reynsluaka bílnum rækilega og fara með hann í söluskoðun,“ segir Ævar. „Það sem fólk verður að gera sér grein fyrir er að um leið og gengið hefur verið frá kaupunum ber seljandinn sama sem enga ábyrgð á ástandi ökutækisins og kaupandinn situr uppi með allan kostnað af óvæntum göllum og viðgerðum.“

Hvernig bíll hentar?

Að mati Ævars er gott að kaupendur byrji á að gera upp við sig hvers konar bíl þeir vilja, og hvernig bíll hentar þörfum þeirra og fjárhag. Hann segir geta verið freistandi að kaupa sér eldri bíl frá finni framleiðanda, frekar en nýrri en ófínni bíl á sama verði, en þá sé verið að taka meiri áhættu. Þriggja ára Toyota eða Nissan geti verið mun öruggari fjárfesting en átta ára Porsche eða Land Rover.

„Þegar búið er að finna áhugaverðan bíl þarf að fara í reynsluakstur og ágætt að hafa einhvern með í för sem þekkir vel til bíla. Mikilvægt er að bíllinn nái fullum vinnsluhita í reynsluakstrinum því ýmsar skemmdir geta leynt sér á meðan bíllinn er enn kaldur, t.d. bilanir í heddpakningu og í sjálfskiptingu.“

Miðar Ævar við að bílnum sé reynsluekið í a.m.k. klukkustund og skoðað hvort hann ekur eðlilega eða hvort eitthvað undarlegt komi í ljós. „Jafnframt ætti kaupandi að leggja mikla áherslu á að bíllinn hafi fengið reglulega smurþjónustu í samræmi við tilmæli framleiðandans. Það á við um velflestar vélar í dag að svo lengi sem smurþjónustan hefur verið í lagi þá ættu vélarnar að endast bílinn. Bæði fær vélin með því nauðsynlega smurningu, en olían dregur líka í sig hita og tryggir rétta kælingu á vélinni.“

Þegar bíllinn er orðinn heitur er líka ógalið að kíkja á kælivökvann og sjá hvort loftbólur hafa myndast, en það gæti verið til marks um skemmda heddpakningu.

Rýnt í eigendasöguna

„Gott er að skoða eigendasögu bílsins og stundum boðar það ekki gott ef bíllinn hefur skipt mjög oft um hendur. Það er líka þekkt að oft hefur verið verr gengið um kaupleigubíla og bílaleigubíla, og verður að taka það með í reikninginn.“

Ef ekkert óeðlilegt kemur í ljós reynsluakstrinum ætti undantekningalaust að fara með bílinn í söluskoðun áður en gengið er frá kaupunum. Fjöldi fyrirtækja býður upp á söluskoðun og er þjónustan ekki dýr, en getur sparað kaupandanum miklar fjárhæðir ef í ljós kemur að eitthvað er í ólagi.

En hvað um nýlega notaða bíla? Eru þeir ekki stundum í ábyrgð sem gildir jafnvel í allt að sjö ár frá því þeir fóru á götuna? Ævar segir að þegar smáa letrið er skoðað reynist slíkar ábyrgðir oft hafa takmarkað gildi. „Stundum er ekki um mikið meira að ræða en ryðvarnarábyrgð, sem er ekki mikils virði. Þá eru löngu ábyrgðirnar iðulega háðar ströngum skilyrðum um að mæta reglulega með bílinn í kostnaðarsama skoðun hjá seljandanum. Það eina sem má stóla á með nokkurri vissu er tveggja ára ábyrgðin sem fylgir öllum nýjum bílum.“

Ævar mælir með því að ef bilun eða galli komi í ljós við reynsluakstur eða skoðun þá sé einfaldlega gengið framhjá viðkomandi bíl og reynt að finna annan betri. „En ef fólk vill samt endilega eignast bílinn, þrátt fyrir það sem reynsluakstur eða söluskoðun hefur leitt í ljós, þá má freista þess að semja sérstaklega við seljandann. Verður þá að ganga mjög skýrt frá því í kaupsamningnum ef seljandinn fellst á að borga fyrir viðgerð á bílnum, eða þá að samið er um lægra verð sem nemur kostnaðinum við þær viðgerðir sem bíllinn þarfnast.“

Ævar Friðriksson er fjölfróður um bíla.
Ævar Friðriksson er fjölfróður um bíla. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: