200 milljóna bíll nær uppseldur

Þeir sem horft hafa löngunaraugum til ofurbílsins Rimac Concept Two eru að falla á tíma, vilji þeir tryggja sér eintak af þessum bíl því hann er nánast að verða uppseldur.

Rafbíllinn Concept Two er enginn venjulegur bæjarbíll því í aflrásinni leynast fjórir mótorar sem skila samtals tæplega 2.000 hestöflum. Snerpan og viðbragðið er slíkt, að hann kemst á hundrað km/klst ferð úr kyrrstöðu á innan við tveimur sekúndum.

Bíllinn var kynntur til leiks á bílasýningunni í Genf í mars og vakti hið uppgefna afl mikla athygli.  Alls hefur ökumaður úr 1.914 hestöflum að spila og 2.300 Newtonmetra upptaki.

Úr kyrrstöðu nær hann 300 km hraða eftir 11,8 sekúndur og hundraðinu á aðeins 1,97 sekúndum. Miðað við þann hefðbundna mælikvarða er Concept Two hraðskreiðasti götubíll heims.

Einungis verða framleidd 150 eintök af þessum ofuröfluga rafbíl í bílsmiðju Rimac Í Zagreb í Króatíu. Verðmiðinn er ekki fyrir fátæklinga því grunnverðið hljóðar upp á sem svarar 200 milljónum íslenskra króna. Með alls konar aukabúnaði, sem búist er við að flestir kaupendur vilji, stígur verðið um ígildi 60 milljóna króna, í um 260 milljónir.    
    
Þetta háa verð virðist ekki fæla kaupendur frá því þegar aðeins eru fjórar vikur frá því hann var kynntur til leiks eru einungis fjögur eintök óseld af 150.

mbl.is