Norðmenn flýja dísilinn

Rykmengun frá dísilbílum.
Rykmengun frá dísilbílum.

Verulegur samdráttur hefur verið það sem af er ári á sölu dísilknúinna bíla hjá frændum okkar Norðmönnum. Má segja að þeir séu á harðahlaupum undan dísilbílnum.

Ekki þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna 75% hlutdeild dísilbíla í nýbílamarkaðinum norska. Bensínvélin þótti Norðmönnum ekki henta nema í smábílum, en á þeim tímum voru rafbílar ekki komnir til sögunnar.

Dísill í skammarkrókinn

Þetta hefur algjörlega snúist á haus í seinni tíð og í nýliðnum marsmánuði var hlutdeild dísilknúinna fólksbíla í nýskráningum einungis 16%. Hefur hlutfallið aldrei verið minna, en það var 24,6% í mars í fyrra og þá var talað einnig um hrun. Mætti því segja að bílar sem brenna dísilolíu séu komnir í skammarkrók. Hafa þeir tapað neytendum til rafbíla og þá sérstaklega til tengiltvinnbíla.

En hvers kyns bíla kaupa norskir neytendur í staðinn? Í fyrsta sæti eru rafbílar, sem ekki þarf að koma á óvart í ljósi þróunarinnar á norskum bílamarkaði undanfarin misseri. Af nýskráðum bílum í mars voru 37% hreinir rafbílar, 26% tvinnbílar og obbinn af þeim tengiltvinnbílar.

Það er svo athyglisvert, að hlutdeild bensínbíla er einnig á niðurleið í Noregi, þó ekki með jafn dramatískum hætti og í tilfelli dísilbíla. Hlutfall þeirra í nýskráningum í mars var aðeins 20% en í mars í fyrra var það 26,4%.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: