Gaman hvað rafbílaeigendur eru ánægðir með kaupin

Hjá Heklu eykst sala rafmagnsbíla jafnt og þétt og segir Jóhann Ingi Magnússon vörumerkjastjóri að nýr e-Golf hafi vakið mikla lukku.

„Við frumsýndum e-Golf fyrst árið 2015 en ný og endurbætt kynslóð kom á markað síðasta sumar með allt að 300 km drægni. Með aukinni drægni jókst áhuginn töluvert enda þýðir hún að fólk getur treyst á rafmagnið til að komast leiðar sinnar án vandræða.“

Frá því í júní í fyrra hefur e-Golf selst hraðar en tekst að flytja nýja bíla til landsins. „Við afhentum um 100 e-Golf á síðasta ári og það sem af er þessu ári höfum við afhent tæplega 70 bíla. Þá eru nærri 80 bílar til viðbótar á leið til nýrra eigenda og getum við í dag boðið upp á stuttan afhendingartíma. Við erum, núna í byrjun maí, búin að selja fleiri eintök af e-Golf en við seldum allt síðasta ár.“

Jóhann segir marga þætti geta skýrt vinsældir e-Golf. „Það hefur loðað við rafmagnsbílana að þeir hafi mjög framúrstefnulegt útlit. Aftur á móti er e-Golf ósköp „venjulegur“ á að líta, með þær hefðbundnu og fallegu línur sem einkenna Volkswagen Golf og á sama verði og sambærilegur bensínbíll. Þetta er útlit sem margir halda upp á og ekki að ástæðulausu að Golf hefur um áraraðir verið einn vinsælasti bíll Evrópu.“

Jóhann bendir á að ágæti rafbíla sjáist kannski best á því hvað kaupendur þeirra eru lukkulegir. „Okkur finnst mjög skemmtilegt að sjá hvað rafbílaeigendurnir eru ánægðir með kaupin. Ég veit til þess að á sumum heimilum var rafmagnsbíll keyptur sem aukabíll en þegar á reynir kjósa heimilismeðlimir frekar rafmagnsbílinn vegna þess hvað hann er þægilegur í akstri.“

Vistvænir bílar í meirihluta

Auk rafmagnsbíla selur Hekla einnig tengiltvinnbíla og metanbíla og segir Jóhann að áhuginn á vistvænum bílum sé mikill. „Nú þegar höfum við selt 577 vistvæna bíla það sem af er árinu, eða 57% af öllum afhentum bílum. Þar er fremstur í flokki Mitsubishi Outlander sem er í dag mest seldi bíllinn á Íslandi.“

Mitsubishi Outlander PHEV er fjórhjóladrifinn tengiltvinnbíll og miðað við meðalkeyrslu höfuðborgarbúa ætti rafhlaðan að duga flestum til að komast sinna daglegu ferða á rafmagninu einu saman. Í lengri ferðum tekur síðan bensínvélin við. „Tengiltvinnbílarnir Volkswagen Passat GTE og Golf GTE, Audi A3 e-tron og Q7 e-tron hafa einnig selst mjög vel enda um að ræða einstaklega skemmtilega bíla sem gefa fólki kost á að nýta rafmagnið sem daglegan aflgjafa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: