Mikill ávinningur af rafbílavæðingunni

Guðmundur Ingi segir rafbílana m.a. hafa þá ótvíræðu kosti að ...
Guðmundur Ingi segir rafbílana m.a. hafa þá ótvíræðu kosti að hjálpa til að minnka loftmengun og draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti. mbl.is/Valgarður Gíslason

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist mjög ánægður með þá þróun sem orðið hefur í notkun rafbíla hérlendis á undanförnum árum.

„Okkur hefur tekist að „loka hringnum“ ef svo má að orði komast og búið að setja upp hraðhleðslustöðvar við hringveginn með reglulegu millibili. Sala rafbíla eykst jafnt og þétt og grunar mig að á komandi árum verði rafbílavæðingin hraðari en flestir hafa reiknað með. Kostirnir við rafbíla eru augljósir og þeir gætu orðið næsta stóra byltingin í samgöngu- og loftslagsmálum hér á landi.“

Að mati Guðmundar Inga er til mikils að vinna fyrir Íslendinga enda rafvæðing bílaflotans til þess fallin að gera landið síður háð innflutningi á olíu, minnka koltvísýringslosun og auka loftgæði. „Samhliða því að geta hjálpað okkur að ná betri viðskiptajöfnuði við útlönd er auðvelt að ímynda sér að almenn notkun rafbíla geti stutt við ferðaþjónustuna með því að hafa jákvæð áhrif á ímynd landsins. Ferðamenn gætu skoðað landið á umhverfisvænan hátt með bíl sem notar innlendan og endurnýjanlegan orkugjafa.“

Nær rafbílabyltingin til allra?

Sumir hafa af því áhyggjur að uppbygging innviða muni ekki halda í við vaxandi vinsældir rafbíla og að flöskuhálsar í dreifikerfi raforku geti jafnvel þýtt að fólk í sumum landshlutum fái ekki að taka þátt í rafbílabyltingunni til jafns við aðra. Guðmundur Ingi segir ekki aðeins þurfa að tryggja að landsbyggðin geti notið góðs af rafbílatækninni heldur verði líka að huga t.d. að grónari hverfum á höfuðborgarsvæðinu. „Unnið er að breytingum á byggingareglugerð sem kveða á um að gert sé ráð fyrir tengibúnaði fyrir hleðslu rafbíla í öllum nýjum byggingum, en þá situr eftir að leysa þá áskorun að bjóða fólki leiðir til að hlaða bílana sína á stöðum þar sem tengimöguleikarnir eru af skornum skammti. Á það bæði við um eldri hverfi, en líka sum fjölbýlishús þar sem þörf er á miklu orkumagni ef margir íbúar kaupa sér rafmagnsbíl.“

Guðmundur Ingi kveðst vongóður um að með góðri álagsstýringu megi rafvæða samgöngur í byggðum þar sem flutningsgeta rafkerfisins er í dag nánast fullnýtt. „Orkuþörfin er breytileg eftir tímum dags og tæknin getur hjálpað okkur að haga málum þannig að þar sem orkuframboðið er takmarkað séu rafbílarnir hlaðnir að nóttu til þegar rafmagnsnotkun heimila og fyrirækja er í lágmarki.“

Undanþágur renna út eftir þrjú ár

Stjórnvöld ákváðu á sínum tíma að fella tímabundið niður innflutningsgjöld á rafmagnsbíla og veita að auki afslátt af virðisaukaskatti upp að ákveðnu marki. Á síðasta ári seldust meira en 400 rafmagnsbílar hérlendis, og jókst salan um 86% milli ára. Ef fram heldur sem horfir gætu um það bil 1.000 nýir rafbílar komið á göturnar í ár sem þýðir að ríkið fer á mis við töluverðar skatttekjur. Við það bætist síðan að ólíkt eigendum bensín- og dísilbíla þurfa rafbílaeigendur ekki að greiða háa skatta af eldsneytinu sem þeir nota.

Þrjú ár eru þangað til skattaívilnanir vegna rafbílakaupa renna úr gildi og gæti það gerst að ríkið kjósi þá að hækka gjöldin. „Þróunin hefur verið mun hraðari en nokkur átti von á, og á sama tíma og rafbílum fjölgar minnkar verðbilið á þeim og bílum sem nota hefðbundna orkugjafa,“ segir Guðmundur Ingi. „Á einhverjum tímapunkti mun það þurfa að gerast að hæfileg gjöld verði lögð á rafbíla til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins, en gjöldin þurfa áfram að taka mið af kolefnislosun og stuðla að því að ódýrara sé fyrir fólk að aka um á bílum sem menga minna.“

Bloggað um fréttina