Göturnar voru eins og í Austur-Evrópu

Sigþór Sigurðsson.
Sigþór Sigurðsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigþór Sigurðsson vélaverkfræðingur hefur nær alla sína starfsævi unnið í malbikunariðnaðinum. Hann segir að malbikunarbransinn sé loksins kominn í eðlilegt horf eftir erfitt tímabil eftir hrun. 

„Loksins hefur eftirspurn eftir malbiki náð eðlilegu stigi í ár,“ segir Sigþór og bendir á samdráttinn sem varð strax eftir hrun fyrir 10 árum. „Við upplifðum mjög mikinn niðurskurð eftir hrun á viðhaldi, svo ekki sé talað um hvernig allar nýbyggingar voru settar í bið. Reykjavíkurborg bætti viðhald á síðastliðnu ári og áfram í ár enda var gatnakerfið að niðurlotum komið eins og flestir muna. Við lásum um holur í götum á hverjum degi í fréttum. Göturnar voru að mínu mati svipaðar götum í Austur-Evrópu eða þaðan af verra.“

Búið að valda meira tjóni en sparaðist

Að sögn Sigþórs fékk Vegagerðin loksins smávegis fjárinnspýtingu á þessu ári og gat þar af leiðandi byrjað að sinna því sem hann kallar eðlilegt viðhald. „Þá á eftir að vinna upp tjónið sem hlaust af niðurskurði í viðhaldi. Það mun taka nokkur ár og því miður er það svo að búið er að valda meira tjóni en sparaðist við niðurskurðinn þessi árin.“

Sigþór segir að stjórnmálaflokkarnir beri ábyrgð á þessu. „Það var varað við þessari „sveltistefnu“ en allt kom fyrir ekki. Ljóst er að Vegagerðin þarf á næstu árum að fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir við að styrkja vegi sem hefði verið hægt að halda við með ódýrum aðferðum.

Fyrir okkur hjá Colas lauk kreppunni kannski endanlega árið 2016 því við vorum heppin og fengum risastórt malbikunarverkefni í samstarfi við ÍAV árin 2016 til 2017; verkefnið að malbika flugbrautirnar í Keflavík. Því verkefni lauk fyrir ári en árið 2018 hefur einkennst af mörgum meðalstórum verkefnum þar sem viðhald fyrir Vegagerðina hefur verið fyrirferðarmest, auk verkefna fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum, minni viðhaldsverkefna í Keflavík, áframhaldandi gerðar nýrra flughlaða í Keflavík fyrir Ístak og ÍSAVIA og svo malbikun Vaðlaheiðarganga sem er á döfinni.“

Mikil umsvif á markaðnum

Hvernig sérðu fyrir þér tæknina og áhugaverðustu tækin í framtíðinni?

„Colas er auðvitað langstærsta malbikunarfyrirtæki landsins og í fararbroddi sem slíkt og ræður því eðlilega yfir öflugasta tækjaflotanum. Við rekum í dag þrjár verksmiðjur; við höfuðstöðvarnar í Hafnarfirði, í Keflavík og eina færanlega verksmiðju sem verið er að setja upp á Akureyri vegna Vaðlaheiðarganga. Samanlögð afkastageta þeirra er yfir 500 tonn af malbiki á klukkustund en til að setja það í samhengi myndi það þekja heilan fótboltavöll eins og Laugardalsvöllinn. Það verða að vera tæki til að leggja allt þetta malbik niður. Í dag erum við með sex öflugar malbikunarvélar, yfir 20 valtara, einn svokallaðan matara sem er eins og stór malbikunarvél og keyrir framan við hana og fæðir af malbiki með miklu jafnari og meiri hraða en hefðbundinn vörubíll myndi ráða við að sturta í vélina.

Þannig myndum við sannarlega ráða við það að leggja niður malbik á heilan fótboltavöll á einni klukkustund ef við fengjum að prófa það.“

Með helstu nýjungar á sviði vegagerðar

Hvernig lýsir þú Hlaðbæ Colas?

„Hlaðbær Colas hf. er íslenskt félag en í eigu Colas-samsteypunnar, sem er stærsta malbiksverktakafyrirtæki í heimi. Eignarhaldið hér á landi er í gegnum Colas í Danmörku.

Í stjórn okkar félags sitja því Danir og Íslendingar en að auki eru margvísleg tengsl og upplýsingagjöf beint til móðurfélagsins í Frakklandi.

Að starfa í alþjóðlegu félagi er mjög lærdómsríkt. Aginn sem kemur að utan varðandi alla hluti í áætlunargerð og um rekstur er til eftirbreytni og er það stór hluti af velgengni okkar á Íslandi.

Áherslan á umhverfis- og öryggismál hefur undanfarið 25 ár verið fyrirferðarmikil innan Colas-samstæðunnar og leiddi til þess að við, þetta tiltölulega litla félag okkar á Íslandi, höfum verið leiðandi í slíkri vinnu og erum í dag með allar stóru vottanirnar á sviði gæða, umhverfis og öryggis.

Það er jafnframt gríðarlega sterkt að hafa aðgang að hinu mikla neti Colas-fyrirtækja um allan heim og beinan aðgang að miðlægu rannsóknar- og þróunarveri Colas fyrir Evrópu sem staðsett er rétt utan við París.

Við fáum beint í æð allar helstu nýjungar á sviði vegagerðar og getum leitað eftir aðstoð og ráðgjöf í öllum þróunarverkefnum okkar.“

Hagsveiflurnar miklar á markaði

Hvernig er að starfa á markaði eins og Íslandi?

„Það getur verið ótrúlega snúið að reka fyrirtæki á Íslandi. Við búum við óþolandi sveiflur í hagkerfinu og hrikalegan gjaldmiðil sem getur valdið miklum vandræðum.

Markaðurinn er auðvitað lítill út af mannfæð okkar en lítill markaður þarf ekki að vera minna áhugaverður fyrir stórfyrirtæki eins og Colas. Það kom hingað til lands árið 1987 og hefur byggt upp og gengið í gegnum súrt og sætt. Frakkarnir eru farnir að skilja að þetta er ekki með neinum hætti líkt og á þroskuðum mörkuðum í Evrópu.“

Sigþór útskýrir að Frökkunum hafi þótt fáheyrt hvernig þeir misstu 60-70% af veltunni á kreppuárunum. „Að sama skapi vöxum við um 25-30% á ári þegar betur gengur.

Það eru miklar áskoranir fyrir stjórnendur og starfsfólk að vinna í svona sveiflum.“

Hvað þykir þér gaman að gera utan starfstíma?

„Skemmtilegast er að keyra um og skoða vegi og malbik,“ segir Sigþór og hlær. Hann bætir við: „Nei kannski ekki. En við grínumst samt stundum með það starfsfólkið eftir helgarfríin nú eða frí erlendis hvað við getum mikið rætt um ástand vega þar sem við vorum á ferðinni. Mörg okkar hjá Colas höfum unnið lengi í þessum bransa, en kannski er þetta svona hjá öllum fyrirtækjum. Fólk sem hefur áhuga á vinnu sinni verður að miklum sérfræðingum. Utan vinnu elska ég að ferðast með fjölskyldunni eða einn með kærustunni. Ég spila fótbolta með góðum „feitukallahópi“ og stunda stangveiði eins oft og hægt er með öðrum miðaldra mönnum eða kærustunni. Svo er kærastan að draga mig í jóga einmitt til að vinna gegn ellinni svo það er nóg að gera,“ segir Sigþór og brosir.

Byrjaðir að vinna með „róbota“

Óttastu tæknibreytingar eða eru þær tækifæri?

„Enginn óttast tæknibreytingar þegar hann að minnsta kosti hugsar sig um. Það er mikið rætt um þessar mundir um fjórðu iðnbyltinguna og gervigreind og að störf muni tapast.

Þannig hefur umræðan alltaf verið í öllum byltingum. En í sannleika sagt tapast engin störf, það verða hins vegar endalaust til ný störf og það er ekki ráðið í þau gömlu sem ekki verða lengur til.

Svona er þetta og þróunin heldur áfram. Þeir sem starfa í okkar geira við malbikun þurfa sífellt að vera að endurnýja sig og þekkinguna því tölvubúnaður sem stýrir vélunum verður sífellt fullkomnari.

Sem dæmi er Colas byrjað að vinna með „róbóta“, sem enn sem komið er er stýrt af mönnum og sinna erfiðustu vinnunni við að handleggja niður malbik í viðgerðir.

Malbikunarvélarnar verða alsjálfvirkar og munu keyra eftir tölvulíkönum í ekki svo fjarlægri framtíð. Hvað þýðir þetta ? Jú, í stað þess að það séu til erfið störf við hættulegar aðstæður eins og starfsfólk okkar þarf að sinna í dag verða til hátæknistörf á sviði forritunar, rafmagns- og tölvufræði, við stjórnun og skipulagningu, gæðaeftirlit og rannsóknir og fleira og fleira. Auðvitað þarf starfsfólkið að aðlaga sig að breytingunum en það gerist smátt og smátt og nýjar og nýjar kynslóðir koma svo inn og finnst allt eðlilegt. Svona gengur þetta nú fyrir sig og engin ástæða til að óttast nokkuð.“

Sigþór segist sjaldan hafa verið jafn spenntur að sjá samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og núna. „Vonandi er verið að marka alvörustefnu til framtíðar sem staðið verður svo við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: