Nýr Forester fyrir býli sem bæ

Fyrsti fulltrúi fimmtu kynslóðar Subaru Forester var frumsýndur á bílasýningunni í New York í apríl og líður senn að því að hann komi á götuna í Evrópu.

Óvíða er Subaru Forester hafður jafnt í hávegum og í Noregi en þar hafa verið seldir 23.743 slíkir jeppar frá upphafi vega.

Í síðustu viku var Forester frumsýndur í Ástralíu og segir að vélin í þeim bíl sé 90% ný. Slagrýmið er 2,5 lítrar og aflið 185 hestar, sem er 7,9% aukning frá í fyrra. Hámarkstog er 239 Newtonmetrar við 4400 snúninga vélarinnar. Hún brúkar sjö lítra á hundraðið á þjóðvegum úti.

Núverandi Forester sem hinn nýi leysir af hólmi er með 2,0 lítra og 150 hesta. Hann er byggður upp af stöðluðum undirvagni Subaru og er í allar áttir stærri en forverinn nema til lofts. Lengdin hefur aukist um 15 millimetra í 4,625 metra, breiddin um 20 millimetra í 1,815 metra og bilið milli öxlanna, hjólhafið, hefur verið aukið um 30 millimetra í 2,770 metra.

Þetta þýðir aukið rými fyrir farþega því farangursrýmið stækkar ekki, minnkar raunar úr 505 lítrum í 498 lítra. Séu aftursæti lögð niður stækkar vörurýmið í allt að 1.768 lítra, sem er 176 lítrum meira en áður. Hæð undir lægsta punkt er 22 sentímetrar sem kemur sér vel ef bregða þarf sér utanvegar. Drif á öllum fjórum hjólum er staðallinn og öryggisbúnaður ýmiss konar er aukinn frá fyrri útgáfu.

Meðal þessa nýja búnaðar er tækni er fylgist með andlitsdráttum ökumanns og grípur inn í með hljóðmerkjum ef hann sýnist vera að líða út af vegna þreytu, eða hafa látið afvegaleiðast frá stjórn bílsins. Er þetta fyrsti bíllinn sem ekki telst til lúxusbíla sem er með búnað þennan. Þá er Forester með sjálfvirka neyðarbremsu og akreinastýringu.

mbl.is