Blaðið þarf að skila sér sama hvernig viðrar

Hrólfur Sumarliðason.
Hrólfur Sumarliðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrólfur hjá Blaðadreifingu er tryggur viðskiptavinur Mercedes-Benz og bindur miklar vonir við nýja Sprinterinn. 

Óneitanlega er ákveðinn sjarmi yfir starfi Hrólfs Sumarliðasonar og starfsmanna hans hjá Blaðadreifingu ehf. Þeir leggja af stað fljótlega eftir að fyrstu dagblöðin koma úr prentvélunum og aka vítt og breitt um suðvesturhornið á meðan aðrir sofa.

„Maður upplifir mikið frelsi á bak við stýrið á þessum tíma sólarhringsins. Starfið er flókið og krefjandi, en Blaðadreifing hefur yfir að ráða mjög góðu og hæfu starfsfólki sem kann sitt fag vel: það þarf að ljúka við ákveðið verkefni, koma blöðunum á sinn stað, og þegar ekið er um miðja nótt er upplifunin eins og að vera einn í heiminum. Vegirnir eru auðir og á sumrin sér maður náttúruna í allri sinni dýrð en á veturna eru það norðurljósin sem lýsa upp leiðina,“ segir Hrólfur.

Blaðadreifing tekur að sér dreifingu flestra dagblaða og tímarita sem gefin eru út á Íslandi og hefur á að skipa flota sendibíla frá Mercedes-Benz. Dreifing Morgunblaðsins er veigamesti hluti starfseminnar en fyrstu blöðin leggja af stað úr prentsmiðjunni fljótlega eftir miðnætti. „Við tökum allt höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin, Suðurlandið alla leið að Hvolsvelli og allt upp að Flúðum og Laugarvatni ásamt því að koma blöðum á Aust- og Vestfirði í flug,“ útskýrir Hrólfur en koma þarf blaðinu til blaðbera á öllum tímum árs, sama hvernig viðrar.

Verða að ráða við krefjandi færð

Það er vegna misjafnrar færðar að vetri til sem Hrólfur hefur einkum reitt sig á Mercedes-Benz Vito því auk þess að vera hæfilega stór er Vitoinn með fjórhjóladrifi. „Að hafa fjórhjóladrif breytir öllu enda er yfirleitt ekki byrjað að moka snjó af götum fyrr en skömmu áður en morgunumferðin fer af stað. Aðstæður á vegum geta því verið mjög krefjandi og kemur fjórhjóladrifið í veg fyrir að bílarnir festist, tefjist og þurfi aðstoð. Yfir vetrarmánuðina erum við alltaf með hjálparbíl í viðbragðsstöðu til að draga bíla lausa en undanfarin tvö ár höfum við ekki þurft á honum að halda enda sendibílarnir okkar ráðið vel við vetrarveðrið.“

Hrólfur íhugar núna að bæta Sprinter-sendibílum við flotann og þykir tilhugsunin spennandi enda Mercedes-Benz Sprinter stærri og á margan hátt fjölhæfari en Vito. Hann segir Sprinterinn hingað til hafa haft þann veikleika að vera afturhjóladrifinn en nú sé von á nýrri kynslóð með framhjóladrifi sem á eftir að gjörbreyta aksturs- og notkunareiginleikum bílsins. „Með framhjóladrifi má segja að bíllinn fari mun lengra en auk framdrifsins er Sprinterinnn búinn fullkominni spólvörn og mjög erfitt að festa hann þótt mikill snjór sé á vegum.“

Hrólfur segist halda tryggð við Mercedes-Benz því þótt þessir þýsku gæðabílar séu dýrari en sumir aðrir sendibílar sem finna má á markaðinum hafi þeir ótvíræða kosti sem borga sig fyrir rekstur fyrirtækis eins og Blaðadreifingar. „Það fyrsta sem maður finnur er hvað þeir eru þægilegir í akstri og stundum stelst ég til að fara á Sprinter eða Vito frekar en fjölskyldubílnum ef ég þarf að skjótast eitthvað. Fjöðrunin er mjúk, mikill kraftur í vélinni, farþegarýmið hljóðlátt og öll þjónusta við viðskiptavini umboðsins til fyrirmyndar. Ég hef reynt ýmsar aðrar tegundir en sný alltaf aftur til Benz á endanum.“

Sá muninn í Portúgal

Hrólfur fékk að prufukeyra Sprinter á kynningu sem haldin var í Portó í Portúgal fyrr á árinu. „Þangað mættu kaupendur víða að úr heiminum og fengu að kynnast eiginleikum bílsins. Til samanburðar var hægt að aka fimm gerðum af sambærilegum sendibílum frá öðrum framleiðendum og var himinn og haf á milli þeirra og nýja Sprintersins,“ segir Hrólfur. „Með nýrri hönnun, breyttri staðsetningu vélar og fjöðrunarbúnaði úr glertrefjum hefur m.a. tekist að breikka og lækka gólfið í bílnum án þess að lækka öxulhæðina svo að auðveldara er að lesta bílinn og stíga upp í hann. Þá er hægt að búa Sprinterinn fullkomnustu tækni sem t.d. grípur inn í þegar fjarlægðin í næsta bíl er of lítil og hægir bíllinn þá ferðina eða bremsar jafnvel. Þá er hægt að tala við leiðsögukerfið og gaman að geta einfaldlega spurt bílinn hvar megi finna næsta matsölustað eða bensínstöð.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: