Þjarmað að þjarki

Hrörlegur þjarkurinn Peugeot 504 virðist að hruni kominn en tórir ...
Hrörlegur þjarkurinn Peugeot 504 virðist að hruni kominn en tórir samt. AFP

Peugeot 504 er óforgengilegur bíll og níðsterkur svo sem ráða má af því hlassi sem hann ber á meðfylgjandi mynd.

Reyndar er hann heldur hrörlegur að sjá, beyglaður og ryðgaður úr hófi fram. Endist þó von úr viti í þurru og hlýju lofti á heimaslóðum sínum í Lýðveldinu Kongó (RDC) í Afríku.

Hér er verið að auka á ækið og fróðlegt væri að vita í hvaða hæð þyngdarpunktur bílsins er og hvort hann lyfti sér nokkuð upp á tvö hjól í beygjum.   

Vísast hefði hinn aldni 504 frá ýmsu að segja ef mæltur væri á mannamáli. Hann er nánast úr sér genginn vegna aldurs. Sligaður af ryði og nær örmagna af álagi. En hokinn af reynslu heldur hann samt áfram að mæla vegina jafnt og þétt. Nei, hann játar sig ekki sigraðan.

Hlassinu er fagmannlega raðað til að það haldist á sínum stað. Í ækinu eru kol og gróðurstönglar. Athyglisvert er að bíllinn virðist ekkert siginn undan öllu saman. Því vaknar spurningin hvort demparar séu yfirleitt undir honum.

Hvað sem því líður þá fylgir sögu að bíll þessi sé í stöðugum ferðum milli borganna Matadi og Kinshasa í Kongó. Þar á milli munu vera 350 kílómetrar af ósléttir og holóttum vegum.

Líkkista meðal varnings sem þessi pallbíll flytur á veginum milli ...
Líkkista meðal varnings sem þessi pallbíll flytur á veginum milli Matadi og Kinshasa í Kongó. AFP
Flutningabíll með háreistan farm af viðarkolum á ferð við hafnarborgina ...
Flutningabíll með háreistan farm af viðarkolum á ferð við hafnarborgina Matadi í Kongó í nýiðnum janúar.
Vörubíll hlaðinn viðarkolum fer í gegnum eftirlitsstöð á veginum frá ...
Vörubíll hlaðinn viðarkolum fer í gegnum eftirlitsstöð á veginum frá Matadi til Kinshasa í Kongó. AFP
mbl.is