Hyundai Ioniq sá mildasti

Hyundai Ioniq er umhverfismildasti bíllinn í dag, að mati bíleigendasamtaka …
Hyundai Ioniq er umhverfismildasti bíllinn í dag, að mati bíleigendasamtaka Þýskalands, ADAC.

Rafbíllinn Hyundai Ioniq Electric bar sigur úr bítum sem sá hreinasti á markaðnum í árlegri könnun á umhverfismildi bíla félagsmanna í félagi bifreiðaeigenda í Þýskalandi (ADAC), sem eru  fjölmennustu samtök sinnar tegundar í Evrópu.

Í ADAC eru yfir tuttugu milljónir félagsmanna og eru kannanir samtakanna meðal þeirra viðamestu sem gerðar eru meðal bíleigenda í Evrópu. Samtökin hafa árlega frá 2003 birt lista yfir umhverfismildustu nýju bílana á þýska markaðnum. Í nýjustu könnuninni eru þrír bílar frá Hyundai á lista með þeim 20 umhverfismildustu því auk Ioniq EV, sem vermir toppsætið með 105 stig af 110 mögulegum, varð Hyundai Kona Electric í áttunda sæti á lista mildustu bílanna.

Lítil losun

„ADAC EcoTest ber saman magn mengandi efna og koltvíildislosun (CO2) bæði í prófunarstöð og við raunverulegar aðstæður í umferðinni og kom Ioniq Electric best út í öllum prófunarþáttunum sem saman standa af ákveðnum reiknistöðlum, ekki síst hvað varðar litla mengun og lága koltvíildislosun. Í fyrra tilfellinu fékk hann 50 stig af 50 mögulegum og hinu síðara 55 af 60 mögulegum. Hvað koltvíildislosunina fellur hún niður í 0 þegar rafhlaða bílsins er hlaðin með endurnýjanlegri orku, svo sem vind- eða sólarorku,“ segir í tilkynningu.

Auk Ioniq Electric kom Kona Electric vel út í könnuninni. Af 109 bílum sem ADAC mældi varð Kona fimmti mildasti bíllinn með enga losun mengandi efna (50 stig) og litla koltvíildislosun þar sem hann fékk 46 stig og eins og í tilfelli Ioniq hverfur koltvíildislosunin sé rafhlaðan hlaðin með grænni orku.

mbl.is