Sex japanskir í hópi tíu bestu bílamerkja

Lexus IS300h.
Lexus IS300h.

Sex af 10 bílamerkjum sem best komu út úr svonefndri Driver Power ánægjukönnun voru japönsk. Í efsta sæti varð Lexus sem þótti áreiðanlegastur allra bíla og afburða hannaður innandyra.

Um var að ræða stærstu mælingu á ánægju bíleigenda í Bretlandi. Í öðru sæti varð Alfa Romeo og í því þriðja Kia.

Í merkjakönnuninni tóku mörg þúsund lesendur vikuritsins Auto Express þátt og gáfu bílum sínum einkunn. Ánægjustuðull Lexus mældist 92,06% og tilgreindu eigendur sérstaklega óbilandi endingartraust, smíðisgæði og stílfegurð. Varð Lexus-merkið einnig efst í þessari könnun 2017 og 2018.

Alfa Romeo fylgdi fast á eftir með 92,04% einkunn og munaði því nær engu. Fékk ítalski bílsmiðurinn hæstu einkunn fyrir vél og gírkassa, aksturseiginleika og meðfærileika.

Þriðja sæti Kia þykir endurspegla háa einkunn sem eigendur gáfu bílnum fyrir þjónustuviðhald, áreiðanleika, upplýsingakerfi og nytsemi. Var ánægjustuðull kóreska bílsmiðsins 91,54%.

Niðurstaðan fyrir tíu efstu bílamerkin varð sem hér segir:

1. Lexus 92,06%

2. Alfa Romeo 92,04%

3. Kia 91,54%

4. Mazda 91,51%

5. Skoda 91,36%

6. Subaru 91,09%

7. Honda 90,97%

8. Suzuki 90,75%

9. Jaguar 90,72%

10. Toyota 90,54%

Í síðustu viku voru birtar niðurstöður Driver Power yfir ágæti nýrra bíla og hreppti Toyota Prius toppsæti og var útnefndur bestu bílkaupin í dag. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: