Þriðja stóra bylting Volkswagen er mætt

ID.3 verður á stærð við Golf, en rýmri að innan.

Volkswagen hefur markað sér áhugaverða framtíðarstefnu í rafbílamálum. Munu rafbílar samsteypunnar deila sama undirvagninum sem síðan má laga að stærð og eiginleikum hverrar bílgerðar sem í boði verður.

„Þetta er sniðug og hagkvæm leið til að framleiða rafmagnsbíla og veruleg framför frá fyrri nálgun þar sem iðulega var tekin eldri bílgerð og hún rafvædd með því að koma rafhlöðum fyrir þar sem bensín- eða dísilaflrás hafði verið áður,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, vörumerkjastjóri Volkswagen hjá Heklu.

Innanbúðarfólk kallar nýju rafbílagrindina góðlátlega „súkkulaðiplötuna“ en Jóhann segir nálgun Volkswagen minna á hvernig leikfangabílar úr legókubbasettum eru smíðaðir: „Það má setja hvaða yfirbygginu sem er ofan á þennan grunn. Undirvagninn verður fáanlegur í nokkrum útfærslum sem geyma mismikla orku, en verður þó í grunninn sá sami í öllum rafmagnsbifreiðum samsteypunnar.“

Eins og gefur að skilja mun þetta gera það mögulegt að hagræða verulega í rafbílaframleiðslunni og bjóða almenningi upp á rafbíla á mun lægra verði en áður hefur þekkst. Ekki nóg með það heldur hyggst Volkswagen leyfa öðrum framleiðendum að nota undirvagninn til að rafvæða bílaframboðið hjá sér: „Það hefur verið upplýst að þreifingar eru á milli Volkswagen og Ford um samstarf af þessum toga og eins er sprotafyrirtækjum velkomið að nýta rafbílagrindina í sína framleiðslu og tilraunastarfsemi með alls kyns ökutæki.“

Rafbílagrindin hefur fengið viðurnefnið „súkkulaðiplatan“. Allir bílar VW munu byggja …
Rafbílagrindin hefur fengið viðurnefnið „súkkulaðiplatan“. Allir bílar VW munu byggja á þessum sameiginlega grunni.

Kosti frá 3,5 milljónum

Hekla hóf fyrir skemmstu forsölu á fyrsta bílnum sem smíðaður er ofan á nýju rafbílagrindina. ID.3 er álíka stór og VW Golf og verður í fyrstu fáanlegur með kW rafhlöðu með 420 mk drægni. „Með 58 kW rafhlöðu er grunnverð á ID.3 í Þýskalandi um 30.000 evrur en þar í landi eru ekki veittir neinir afslættir af sköttum og gjöldum á rafbíla svo lesendur geta freistað þess að reikna út sjálfir hvað ID.3 kemur til með að kosta á Íslandi,“ segir Jóhann og bætir við að verðupplýsingar hafi ekki enn verið gerðar opinberar.

Ef þýska verðið er lagt til grundvallar má ætla að kominn á götuna í Reykjavík kosti ID.3 frá 3,5 milljónum króna í grunnútgáfu, að því gefnu að ekki þurfi að greiða af honum virðisaukaskatt. Myndi það þykja mjög hagstætt verð borið saman við aðra rafmagnsbíla á markaðinum í dag.

Jóhann bendir á að rafmagns-undirvagninn bjóði ekki bara upp á hagræðingu í framleiðslu heldur opni nýja möguleika í hönnun bifreiða. „Þótt ID.3 sé álíka stór að utan og Golf er innanrýmið töluvert meira og nær því að vera eins og á Passat. Það er enginn miðjustokkur sem gengur á plássið í farþegarýminu og engin vél undir húddinu svo útkoman verður töluvert meira innanrými.“

Þriðja stóra stökkið

Það sést að fólkið hjá Volkswagen er stórhuga og vísar nafn ID.3 einmitt til þess hvers lags tímamótabifreið hún á að vera. „Talan „3“ á að tákna að þriðja byltingin hjá Volkswagen er að ganga í garð, þar sem fjöldaframleiddi alþýðubíllinn Bjallan var fyrsta byltingin, Volkswagen Golf næsta bylting og núna er fyrirtækið að taka þriðja stóra stökkið,“ segir Jóhann en fyrstu ID.3-bílarnir verða afhentir fyrri hluta næsta árs. „Á næstu misserum koma þrjár gerðir ID.-bifreiða á markað. Auk ID.3 kemur ID.Crozz sem er jepplingur á stærð við Tiguan og fer hann í sölu í lok árs 2020. Þá bíða margir spenntir eftir ID.Buzz sem verður nútímaútgáfa af gamla góða „Rúgbrauðinu“. Jafnt og þétt munu fleiri rafmagnsbílar bætast við og árið 2025 hyggst Volkswagen bjóða upp á samtals 26 gerðir bíla sem ganga að fullu fyrir rafmagni.“

Volkswagen hafði þann háttinn á með ID.3 að þegar bíllinn var fyrst kynntur með pomp og prakt hinn 8. maí síðastliðinn var byrjað að taka við forpöntunum og það þótt enn sé nokkuð í að kaupendur geti fengið að reynsluaka honum eða rýna í innan- og utanrými bílsins. „Verður það ekki fyrr en á bílasýningunni í Frankfurt í september næstkomandi að ID.3 verður frumsýndur í sinni endanlegu mynd en það breytir því ekki að af þeim 30.000 „1st edition“-bílum sem opnað var fyrir forpantanir á hinn áttunda maí, og koma í takmörkuðu upplagi, eru nú þegar meira en 15.000 pantaðir um allan heim,“ segir Jóhann en hægt er að ganga frá forpöntun á heimasíðu Volkswagen.

Jóhann Ingi Magnússon við rafmagnaðan Volkswagen Golf. Mun ID.3verða álíka …
Jóhann Ingi Magnússon við rafmagnaðan Volkswagen Golf. Mun ID.3verða álíka stór en þökk sé "súkkulaðiplötu"-grindinni verður innanrýmið töluvert meira. mbl.is/Valgarður Gíslason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: