Danskir hafa tjáð sig

Rúmlega 28.000 danskir bíleigendur hafa tjáð sig um þá með þeim hætti að fyrir liggur hver eru bestu og slökustu bílmerkin að þeirra mati.

Hér er um að ræða hina árlegu könnun dönsku hagsmunasamtakanna FDM og svonefnd vísitala AutoIndex er unnin út úr. Hver hinna rúmlega 28.000 þátttakenda hafa svarað um 120 spurningum.

Svörin við þeim hafa verið flokkuð í fjóra flokka er varða þægindi og smíðagæði og hollustu við bílmerkin.

BMW sat á toppi vísitölunnar þegar öllum útreikningum var lokið og þótti niðurstaðan afgerandi. Hlaut 920 stig af þúsund mögulegum.

Stutt var í Volvo í öðru sæti með 909 stig og Mercedes-Benz í því þriðja með 903 stig.  BMW var einnig í efsta sætinu í AutoIndex-könnuninni í fyrra.

Í sætum fjögur til tíu urðu Toyota (898), Audi (885), Honda (875), Volkswagen (873), Skoda (872), Mazda (860) og Hyunday (859).

Meðaltalsskor bílmerkjanna allra var 863 stig og voru átta fyrstu merkin ofan meðaltalsins.

Fimmta árið í röð eru það sömu merkin sem skrapa botninn í þessari könnun. Fíat hafnaði í 21. og neðsta sæti með 816 stig af 1000. Merkið hafði þó bætt sig um 2,3% frá í fyrra en það dugði ekki til að komast upp fyrir Mitsubishi sem hlaut 823 stig.

Renault (832), Citroen (839) og Seat (840) fylltu hóp hinna fimm neðstu.

mbl.is