Ofursportbílarnir spóka sig í bænum

Ferrari 488 undir skilti sem segir allt sem segja þarf.
Ferrari 488 undir skilti sem segir allt sem segja þarf. Kristinn Magnússon

Eins og Mbl.is greindi frá um helgina er hópur fokdýrra ofursportbíla í heimsókn á Íslandi um þessar mundir. Fyrst sást til bílanna í kjallara Hörpu, en síðan þá hafa þeir skotið upp kollinum hér og þar.

Ljósmyndari rakst á hluta sportbílaflotans í Tryggvagötu og stóðst ekki mátið að smella af nokkrum myndum er eigendur bílanna voru í þann mund að halda af stað í enn eitt ferðalagið.

Gangandi vegfarendur kunnu greinilega að meta þessi fallegu, fágætu og kröftugu ökutæki og mátti sjá suma reyna að ná nokkrum góðum myndum með snjallsímanum, eða smella af sjálfsmynd með föngulegan McLaren, Ferrari eða Aston Martin í bakgrunni.

Samkvæmt heimildum blaðsins samanstendur hópurinn af sterkefnuðum bílaáhugamönnum sem hafa gaman af að ferðast hingað og þangað um heiminn á ofursportbílunum. Vilja þeir annars ekki láta mikið á sér bera. Að sögn ljósmyndara mátti sjá, þegar eigendur bílanna komu út af hóteli sínu og lögðu af stað, að flestir þeirra eru karlmenn á miðjum aldri og með huggulegar yngri konur í farþegasætinu.

Jafnvel í borgum eins og London og Monte Carlo, þar ...
Jafnvel í borgum eins og London og Monte Carlo, þar sem ofursportbílar eru þó hluti af götulandslaginu, þætti merkilegt að sjá aðra eins uppröðun. Kristinn Magnússon
Aston Martin í forgrunni og McLaren í bakgrunni.
Aston Martin í forgrunni og McLaren í bakgrunni. Kristinn Magnússon
Porsche 918 tilbúinn að leggja í hann.
Porsche 918 tilbúinn að leggja í hann. Kristinn Magnússon
Bíllinn fyrir miðju er dýrastur af þessum þremur: sérsmíðaður McLaren ...
Bíllinn fyrir miðju er dýrastur af þessum þremur: sérsmíðaður McLaren MSO R. Kristinn Magnússon
Rauðbrúni liturinn fer þessum McLaren P1 alveg ágætlega.
Rauðbrúni liturinn fer þessum McLaren P1 alveg ágætlega. Kristinn Magnússon
Mercedes-Benz SLS AMG.
Mercedes-Benz SLS AMG. Kristinn Magnússon
mbl.is