Opel Ampera-e nú fáanlegur á Íslandi

Opel Ampera-e
Opel Ampera-e

Bílabúð Benna hefur fengið sýningarbíl til landsins af rafmagnsbílnum Opel Ampera-e. Sökum vinsælda Ampera-e hafa verksmiðjurnar ekki haft undan við framleiðsluna og því hefur bíllinn ekki verið fáanlegur á Íslandi hingað til.

Að sögn Gests Benediktssonar sölustjóra hjá Bílabúð Benna urðu ákveðin straumhvörf í þessum málum gagnvart Opel nú á vordögum, en þá komu stjórnendur Opel til fundar við forsvarsmenn Bílabúðar Benna og kynntu sér starfsemi Orku náttúrunnar, m.a. Hellisheiðarvirkjun. „Opel menn sannfærðust þá endanlega um að Ísland væri kjörinn markaður fyrir rafmagnsbíla og gerðu ráðstafanir til að flýta afgreiðsluferlinu, þannig að nokkrir bílar koma í júlí,“ segir Gestur í tilkynningu.

„Þetta eru frábærar fréttir og við lítum svo á að með komu Opel Ampera-e megi segja að rafbílavæðingin á Íslandi fái virkilega góðan meðbyr - með bíl sem heldur ekki aftur af þér,“  bætir Gestur við.

Opel Ampera-e er hreinn rafbíll og drægið hátt í 500 km á hleðslunni, samkvæmt NEDC mælingum. „Það besta er að hægt er að forpanta Ampera-e strax, bæði á opel.is og nú á laugardaginn í Opel-salnum og fá hann afhentan í næsta mánuði,“ segir Gestur.  

Komu sýningarbílsins verður fagnað með Sumarstuði Bílabúðar Benna á morgun, laugardaginn 15. júní. Verður rafmagnað stuð á Krókhálsinum og mikið um dýrðir;  Stjörnu-Sævar fræðir gesti um undraheima rafmagnsins, ON – Orka nátturunnar – kynnir ON-lykilinn, Hleðslu-appið og fleira tengt rafbílum.

Sirkus Ísland verður með andlitsmálun, blöðrudýr og candyfloss fyrir krakkana. Þá verður lifandi tónlist á svæðinu og Sirkus Íslands sér um grín og glens, andlitsmálun, blöðrudýr og candyfloss fyrir krakkana.

Grillmeistarar frá Weber ræsa nýju rafmagnsgrillin og reiða fram rjúkandi pylsur með úrvali drykkja frá Ölgerðinni og svo fá allir svalandi Kjörís.

Sumarstuðið hjá Benna stendur frá klukkan 12 til 16 að Krókhálsi 9.

Opel Ampera-e
Opel Ampera-e
Opel Ampera-e
Opel Ampera-e
mbl.is