Nær 2.000 hestafla rafbíll

Ofurrafbíllinn Lotus Evija kynntur í London.
Ofurrafbíllinn Lotus Evija kynntur í London.

Stríð ofurbílanna um afl drifrásar þeirra virðist nú að sveigja frá bensínvélum yfir í rafmótora.

Króatíski bílsmiðurinn Rimac segist ná 1.888 hestöflum úr C-two bílnum og Pininfarina heitir því að Battista ofurrafbíllinn muni skila 1.900 hestum.   

Nú hefur breski sportbílaframleiðandinn Lotus blandað sér í þennan slag. Hann er býsna stórtækur og boðar 1.972 hestafla aflrás í  Evija-bílnum. Náist þetta út úr aflrás hins hreina nýja rafbíls verður hann öflugasti raðsmíðaði götubíll veraldar.

Evija hin nýja var nýverið kynnt í London og er það fyrsti bíllinn sem Lotus smíðar frá grunni eftir að kínverski bílsmiðurinn Geelytók við stjórn búsins á þeim bæ.

Rafknúna aflrásin er smíðuð og hönnuð í samstarfi við Williams Advanced Engineering, sem er dótturfélag breska formúluliðsins Williams. Rafgeymarnir verða í miðjum bílnum strax aftur af bílsætunum tveimur. Miðla þeir raforku til  fjögurra öflugra rafmótora. Lotus heldur því fram að aflrásin sé sú léttastsaléttasta, orkuþéttasta og fyrirferðarminnsta sem sett hafi verið í götubíl.

Tómaþyngd Evija er áætluð 1.680 kíló og með því er hér um að ræða léttasta hreina ofurrafbílinn sem smíðaður hefur verið.

Aflrásina má stilla á fimm vegu - Range, City, Tour, Sport og Track. Skilar hún 1.700 Nm togi og á bíllinn að komast úr kyrrstöðu í hundraðið á undir þremur sekúndum. Sama tíma tekur svo að komast úr 100 í 200 og fjórar sekúndur úr 200 í 300. Topphraði Evija er áætlaður 320 km/klst og hann þarf aðeins níu sekúndur til að ná 300 km ferð.

Einungis 130 eintök verða smíðuð af Evija ofurrafbílnum. Við frumsýninguna voru pöntunarbækur opnaðar. Til að tryggja sér eintak verða kaupendur að reiða fram 250.000 sterlingspund til að staðfesta kaupin, eða sem svarar 37 milljónum króna. Fullgerður kostar þessi tímamótabíll svo 1,7 milljónir punda, eða sem svarar 252 milljónum íslenskra króna.

Ofurrafbíllinn Lotus Evija kynntur í London.
Ofurrafbíllinn Lotus Evija kynntur í London. AFP
Hurðir Lotus Evija opnast upp.
Hurðir Lotus Evija opnast upp.
Ofurrafbíllinn Lotus Evija verður öflugasti götubíll sögunnar.
Ofurrafbíllinn Lotus Evija verður öflugasti götubíll sögunnar.
mbl.is