Halda á slóðir ítalskra ofursportbíla

Lamborghini-safnið var nýlega tekið í gegn. Rýmið er fullt af …
Lamborghini-safnið var nýlega tekið í gegn. Rýmið er fullt af einstökum bílum.

Fyrir það góða fólk sem haldið er ólæknandi bíladellu eru nokkrir staðir í heiminum sem ómissandi er að heimsækja. Rétt eins og múslimar þurfa að ferðast til Mekku, kaþólikkar til Vatíkansins og matgæðingar til Parísar, þá þurfa unnendur hraðskreiðra og fallegra ökutækja að þræða Mótordalinn svokallaða á Ítalíu.

Á þessu tiltölulega litla svæði, norðarlega í landinu þar sem allir eru óaðfinnanlega vel til fara og borða unaðslega rétti í hvert mál, hafa mörg merkilegustu ökutæki sögunnar orðið til. Þar eru höfuðstöðvar Ducati, Lamborghini, Ferrari, Pagani og Maserati, að ónefndum merkilegum söfnum og kappakstursbrautum.

Nú býður ferðaskrifstofa Fjallakofans upp á fimm daga sportbílaævintýri á þessum slóðum og hlýtur að þykja einstakt tækifæri til að komast í návígi við allt það besta við ítalska bílamenningu. Brandur Jón Guðjónsson verður fararstjóri og segist varla geta beðið enda muni langþráður draumur rætast dagana 15. til 20. október.

Þó að lesendur kunni að tengja nafn Fjallakofans við verslanir með útivistarvörur sem fyrirtækið starfrækir á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þá er ferðaskrifstofan rótgróin – stofnuð 1998 – en hét Íslandsvinir þar til nýlega að ákveðið var að tengja ferðaskrifstofu- og verslunarreksturinn betur saman.

Mörg þúsund hestafla dagar

Brandur Jón Guðjónsson.
Brandur Jón Guðjónsson. mbl.is/Árni Sæberg


Ævintýrið hefst í borginni Bologna, sem fræga pasta-sósan og skinkan eru nefndar eftir. „Lent er um kvöld og haldið rakleiðis upp á hótel, en næsta dag byrjum við á að skoða Ducati-mótorhjólin og heimsækjum bæði safn og verksmiðju fyrirtækisins. Síðan liggur leiðin til Lamborghini í bænum Sant'Agata Bolognese og sportbílarnir í safninu þeirra skoðaðir frá öllum hliðum.“

Þriðja deginum er varið í Modena og nágrenni. „Fyrst heimsækjum við bílasafnið Museo Panini sem státar af einstökum safngripum iðnfrömuðarins Roberto Panini. Er þar að finna úrval Maserati-bíla en einnig mótorhjól og heillandi safn af gömlum dráttarvélum,“ útskýrir Brandur en rætur margra sportbílaframleiðenda svæðisins liggja í smíði og viðhaldi dráttarvéla fyrir ítalskan landbúnað. „Safnið er til húsa á sveitabæ og fáum við þar að smakka osta og fleira hnossgæti úr héraðinu, áður en við skjótumst í höfuðstöðvar Maserati og virðum fyrir okkur verksmiðju þeirra og sýningarsal.“

Upplifun á bak við stýrið

Óhætt er að segja að hápunktinum verði náð á fjórða deginum í Ítalíu en þá heimsækir hópurinn bæði safn tileinkað Enzo Ferrari, og svo sjálft Ferrari-safnið þar sem bæði sportbílum og Formúlu 1 kappakstursbílum eru gerð góð skil. „Þar má m.a. prófa ökuhermi til að upplifa hvernig það er að sitja á bak við stýrið í formúlubíl. Deginum lýkur síðan með möguleika á reynsluakstri í ítölskum draumbíl, hvort heldur Lamborghini eða Ferrari.“

Reynsluaksturinn fer fram undir leiðsögn fagmanns og hægt að prufa allt að 10 til 120 mínútna hring og kostar frá 100 upp í 1.400 evrur eftir því hvaða bíll verður fyrir valinu og hve lengi honum er ekið. Af bílunum sem í boði eru má nefna Ferrari 488 Spider og Portofino, og Huracán Performante Spyder.

„Við tökum það svo rólega á fimmta degi og skoðum Mílanó þar sem gefst frjáls tími til að kíkja í búðir, í dómkirkjuna frægu, óperuhúsið eða skoða eitt frægasta málverk Leonardo da Vinci. Þeir sem þess óska geta seinkað heimferðinni, sem annars er snemma morguns á sjötta degi, og t.d. ekki langt að fara frá Mílanó til Feneyja, Veróna og Garda-vatns.“

Hvers vegna sportbílar einmitt á þessum stað?

Ýmsar kenningar eru uppi um það hvers vegna bílaframleiðsla í Mótordalnum þróaðist eins og hún gerði. Ein sannfærandi skýring á þessum blómlega sportbílaiðnaði svæðisins er að Mótordalurinn er í raun ekki dalur, heldur er svæðið flatlent og undirlagt af landbúnaði. Bændurnir tóku traktorinn snemma í sína þjónustu og þurftu um leið að læra að eiga við bílvélar, en fóru svo að gera sér það að leik að smíða bíla til að spana um tiltölulega beina sveitavegina. Eins og Ítala er siður skorti bændurna hvorki keppnisskap né metnað og smám saman tók sportbílaiðnaðurinn á sig mynd.

Eitt leiddi af öðru svo að bráðum hafði skapast mikil sérþekking á svæðinu og tóku snjöllustu verkfræðinemar og hönnuðir Ítalíu að streyma til fyrirtækjanna í kringum Bologna og Modena og loks tók greinin á sig núverandi mynd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »