Bensín- og dísilbílar verði bannaðir

Þröng á þingi á franskri hraðbraut.
Þröng á þingi á franskri hraðbraut. AFP

Danir vilja að hætt verði sölu og smíði bensín- og dísilbíla í Evrópusambandslöndunum (ESB)  frá og með árinu 2040

Þetta lögðu þeir til á fundi umhverfisráðherra ESB-ríkjanna í gær.

ESB hefur samþykkt að minka losun gróðurhúsalofts í útblæstri bifreiða um 40% fram til ársins 2030. Hefur framkvæmdastjórn sambandsins lýst yfir löngun til að ganga enn lengra og uppræta koltvíildisútblástur með öllu fyrir 2050.

Danski umhverfisráðherrann Dan Jorgensen sagði að mikið lægi við vegna örrar hlýnunar lofthjúpsins. Næðu sambandsríkin 28 ekki samstöðu um tillöguna yrði að veita aðildarríkjum sambandsins hverju og einu heimild til að stíga það stóra skref sem hann lagði til.

Litháen, Lettland, Slóvenía, Búlgaría og nokkur ótilgreind ríki til viðbótar munu hafa sagt það meira aðkallandi að loka fyrir „kolefnisleka“ sem fylgdi notuðum bílum sem seldir væru frá Vestur-Evrópu til fyrrum ríkja Varsjárbandalagsins.

Danir ollu uppnámi innan ESB er þeir tilkynntu í október í fyrra að sala á bílum sem brenndu jarðefnaeldsneyti yrði bönnuð þar í landi frá og með 2030. Verkefnið þótti hins vegar stangast á við reglur ESB og neyddust þeir til að falla frá því.

mbl.is